Meðlimir samtakanna Blóð og gröftur, eða allavega einhverjir sem halda orðræðu þeirra á lofti, eru víst búnir að átta sig á því að ég er að skrifa pistlaröð þar sem ég tek fyrir ýmsar goðsagnir um innflytjendur. Þessir kynþáttahatarar sem kalla sig þjóðernissinna, vilja leggja sitt til umræðunnar og telja upplagt að klístra afritum af undarlegri kenningu um þjóðernishreinsanir á vegum „and-hvítra“ (með upprunalegum stafsetningarvillum)inn á tjásukerfið hjá mér.

Samfélagi okkar stafar ógn af kynþáttahyggju. Við þurfum ekki að óttast að nakið hatur þeirra sem kenna sig við þjóðernishyggju hafi veruleg áhrif, því málflutningur þeirra hingað til hefur verið svo heimskulegur að eingöngu kjánar falla fyrir honum. Það sem við þurfum að óttast er hin dulda kynþáttahyggja sem á yfirborðinu viðurkennir mannhelgi allra jarðarbúa en tekur þó ætíð hégómlega hagsmuni vestrænna samfélaga fram yfir líf og velferð annarra. Ríkisvaldið sjálft starfar eftir þeirri hugmynd að sumt fólk sé öðru æðra og hefur áratugum saman ýtt undir óskráða aðskilnaðarstefnu með því að planta ótta við innflytjendur í huga almennings. Nú var hugmyndin með þessum pistlum sú að fjalla um nokkrar mýtur sem ala á ótta við útlendinga og kalla til gagnrýninnar umræðu um þær. Þjóðernissinnum er að sjálfsögðu frjálst að taka þátt í þeirri umræðu eins og öllum öðrum en ýmislegt í málflutningi þeirra knýr mig þó til að árétta nokkur atriði um það hverskonar umræður fara fram á þessari síðu.

Ég er semsagt að kalla eftir samræðum og rökræðum um það efni sem ég fjalla um hverju sinni, ekki innihaldslausum þrætum.

Samræður einkennast af því að fólk sem hefur sameiginlegan hugmyndagrundvöll en kann þó að greina á ýmis atriði, kastar á milli sín hugmyndum, skiptist á upplýsingum og bendir hvert öðru á ný sjónarhorn. Markmiðið með samræðu er að komast að sameiginlegri niðurstöðu, finna góðar lausnir og dýpka skilning sinn og annarra á umræðuefninu.

Rökræður einkennast af því að fólk sem er í grundvallaratriðum á öndverðum meiði, útskýrir hugmyndir sínar og notar rökleiðslu til að benda á hnökra á málflutningi hins aðilans. Markmiðið er að halda á lofti sterkri sannfæringu og sannfæra aðra.

Oft blandast þetta tvennt saman og þegar virkilega vel tekst til, leiðir umræðan fólk með mismunandi sjónarmið að niðurstöðu sem allir aðilar eru sæmilega sáttir við. Það getur þó tekið langan tíma, jafnvel árhundruð en þessi markmið; að dýpka skilning og sætta ólík sjónarmið, er semsagt það sem er megin tilgangur þerrar umræðu sem fram fer á þessari síðu.

Því miður snúast umræður oft upp í þrætur. Þrætur líkjast rökræðum á yfirborðinu. Hver um sig leggur meiri áherslu á að sannfæra aðra en að læra af þeim en munurinn er sá að þrætan einkennist ekki af góðri rökfærslu, heldur rökvillum. Í stað þess að hlusta á hinn aðilann og vega og meta rök hans og hrekja þau þegar hann sér bresti í málflutningi hans, tyggur þverhausinn sömu spekina upp með mismiklum tilbrigðum, líkt og hann væri að kyrja möntru. Þegar þrætu lýkur, telur hvor aðili um sig sjálfan sig vera sigurvegarann, báðir eru enn sannfærðari um sitt sjónarmið og hvorugur hefur lært neitt nýtt.
Dæmi um samræður:

A: Það er rangt að útlendingar taki vinnu frá Íslendingum. Fyrsta fólkið sem missti vinnuna og fór úr landi þegar bankakerfið hrundi voru Lettar og Pólverjar.
B: Já og við skulum heldur ekki gleyma því að fleira fólki fylgir meiri þörf fyrir þjónustu svo innflytjendur skapa líka störf fyrir Íslendinga.
C: Ég veit þess reyndar dæmi að vinnuveitandi vill síður ráða Íslendinga af því að flestir þeirra Íslendinga sem sækja um hjá honum hafa menntun sem samkvæmt samningum er metin til launa. Svona dæmi leiða af sér verri viðhorf til innflytjenda.
Dæmi um rökræðu:

A: Það er rangt að útlendingar taki vinnu frá Íslendingum. Fyrsta fólkið sem missti vinnuna og fór úr landi þegar bankakerfið hrundi voru Lettar og Pólverjar.
B: Þeir sem fyrst missa vinnuna eru þeir sem síðast voru ráðnir, það er bara eðlilegt. Hinsvegar sitja þeir útlendingar sem voru búnir að koma sér fyrir enn að kjötkötlunum á meðan x% Íslendinga eru atvinnulausir.
A: Hvar fékkstu þessa tölu? Ef þú ert að tala um atvinnuleysisskrá þá verður þú að athuga á henni eru innflytjendur líka.
B: Það breytir því ekki að mikill fjöldi útlendinga er enn í vinnu. Með því að losa þær stöður væri hægt að draga verulega úr atvinnuleysi Íslendinga.
Dæmi um þrætu:

A: Það er rangt að útlendingar taki vinnu frá Íslendingum. Fyrsta fólkið sem missti vinnuna og fór úr landi þegar bankakerfið hrundi voru Lettar og Pólverjar.
B: Þú vilt leggja niður öll landamæri og hleypa svertingjum inn í landið, það er þjóðarmorð.
A: Ég er nú reyndar að reyna að ræða þá hugmynd að útlendingar taki vinnu frá Íslendingum. Annars eru svartir Pólverjar í miklum minnihluta. Sérð þú svarta Pólverja sem stórt samfélagsvandamál á Íslandi?
B: Jájá, það er það sem þú vilt, opna fyrst fyrir glæpalýð frá Austur-Evrópu og hleypa svo svörtum inn í hvít lönd til að útrýma hvítum, það er sú stefna sem ég berst á móti, það er sjálfsvörn en ekki rasismi.
Ég hef gaman af uppbyggilegum rökræðum og tel þær gagnlegar en þessi netsíða er ekki hugsuð sem vettvangur fyrir þrætur. Þessvegna fer ég þess á leit við kynþáttahatara sem langar að nýta sér tjásukerfið mitt til að koma áróðri sínum á framfæri, að þeir kynni sér helstu rökvillur og mæti til leiks með því hugarfari að forðast þær.

Annað sem skiptir máli er að þátttakendur hafi ofurlitla innsýn í það sem er til umræðu hverju sinni. Fólk þarf sjaldan að hafa yfirgripsmikla þekkingu á efninu til að geta haldið uppi vitrænum samræðum en þegar þekkingin er á leikskólastigi er hreinlega ekki hægt að ræða málin nema byrja á grunnfræðslu. Það er t.d. ekki hægt að ræða mál flóttamanna við þá sem halda að flóttamenn geti „bara farið heim og unnið í sínum málum þar“. Fólk sem heldur að það sé raunhæft veit hreinlega ekki hvað flóttamaður er og þar sem þetta blogg er ekki hugsað sem bréfaskóli fyrir fólk sem hefur engan þekkingargrunn, þurfa þeir sem ætla að vera með í umræðunni helst að hafa einhverja glóru um málið. Samfélagsmál eru sjaldan svo flókin að það þurfi að taka sæmilega læsan mann meira en klukkustund að afla sér nægra upplýsinga til að verða viðræðuhæfur en sá sem veit nákvæmlega ekkert um málin er ekki fær um að rökræða þau, ekki fremur en ég gæti rætt geimvísindi eða skipasmíðar.

Pistlarnir mínir um innflytjendamýturnar eru fyrst og fremst hugsaðir til að bjóða þeim til umræðunnar sem þrátt fyrir velvilja hafa áhyggjur af því að frjálslegri innflytjendastefna geti af sér óyfirstíganleg vandamál. Næsti pistill er helgaður mýtunni um flóttamenn sem misyndismenn á flótta undan réttvísinni og ég hafði eiginlega hugsað mér að birta hann í dag. En nú er sú staða komin upp að kynþáttahatarar hafa greinilega meiri þörf fyrir að tjá sig en þeir sem af skynsamlegri ástæðum óttast mikla fólksflutninga milli menningarsvæða. Ég vil því bjóða kynþáttahöturum sérstaklega til umræðunnar og hér með býð ég þeim að gera grein fyrir hugmyndum sínum um ferðafrelsi sem lið í þjóðarmorði. Þeir skulu þó eins og aðrir færa rök fyrir máli sínu.

Hér eru semsagt nokkrar spurningar til kynþáttahatara og vænti ég þess að þeir svari afdráttarlaust og af rökfestu:

1. Nú álítið þið að það jafngildi þjóðarmorði að opna samfélög hvítra manna fyrir fólki af öðrum kynþáttum, þar sem kynþátta- og menningarblöndun muni afmá einkenni hvíta kynstofnsins. Væri rétt að sporna gegn þessu þjóðarmorði með því að reka allt fólk af öðrum kynþáttum úr landi?

2. Er það þá ekki á sama hátt þjóðarmorð að hleypa hvítu fólki úr landi, þar sem það gæti tekið upp á því að eignast börn (sem þið kallið „skítaskinn“) með fólki af öðrum kynstofnum?

3. Teljið þið rétt að vernda hvíta kynstofninn með því að banna hvítu fólki að ferðast á milli menningarsvæða eða allavega meina þeim að eignast börn (eða eins og þið orðið það, „skítaskinn“) með fólki af öðrum uppruna?

4. Teljið þið rétt að vernda hvíta kynstofninn með því að meina hvítum konum sem hafa orðið óléttar eftir menn af öðrum kynþáttum endurkomu til landins?

5. Álítið þið verndun hvíta kynstofnsins mikilvægari en mannréttindasáttmála sem kveða m.a. á um rétt allra manna til að leita hælis í öðrum samfélögum ef þeir hafa ástæðu til að óttast grimmúðlega meðferð í heimalandi sínu?

6. Jafngildir það einnig þjóðarmorði ef hvítt fólk með víkjandi gen, æxlast með hvítu fólki með ríkjandi gen? Er það t.d. þjóðarmorð ef rauðhærður og bláeygur karl, eignast barn með konu sem hefur dökkt hár og brún augu og engin dæmi eru í hennar fjölskyldu um rautt hár og blá augu? Ætti að takmarka tækifæri fólks með víkjandi gen til að fjölga sér með þeim sem tilheyra meirihlutanum? Væri t.d. rétt að safna öllu rauðhærðu fólki saman á Neskaupstað og loka bænum fyrir þeim sem gætu mengað stofninn með dökku hári?

7. Kynþáttahatarar tala stundum um að menningu okkar stafi hætta af útlendingum. Það er þó dagljóst að Íslendingar hafa orðið fyrir margfalt meiri áhrifum af bandarískri menningu en t.d. tailenskri eða arabiskri. Finnst ykkur rétt að sporna gegn menningaráhrifum Bandaríkjamanna, t.d. með því að takmarka aðgengi Íslendinga að bandarískum kvikmyndum, tónlist og netsamfélögum eða eru menningarbreytingar í lagi svo fremi sem áhrifavaldurinn er vestrænn? Ef svo er, þarf þá ekki að takmarka aðgengi að þeim hluta bandarískrar menningar sem einkennir menningarkima litaðra, t.d. rapptónlist og annarri niggaramenningu?

8. Á hvaða hátt hafa innflytjendur skaðað menningu Norðurlandabúa og annarra Evrópuþjóða? En Bandaríkjamanna?

9. Einhverntíma heyrði ég þjóðernissinna tala um að málið snerist ekki fyrst og fremst um kynþætti heldur menninguna og að það væri í lagi að taka á móti þeim innflytendum sem eru tilbúnir til að aðlagast íslenskri menningu en ekki öðrum. Finnst þeim sem hafa þessa skoðun að það væri rétt að vísa úr landi þeim Íslendingum sem virða ekki íslenska menningu, t.d. þeim sem neita að senda börnin sín í kristilegt skólastarf og borða oft á Nings en aldrei á Múlakaffi?

10. Nú er tungumálið mjög stór hluti menningarinnar í öllum samfélögum og ritmálið er sennilega stærri þáttur í menningu Íslendinga en flestra annarra þjóða. Finnst ykkur koma til greina, til verndar menningunni, að skikka þá Íslendinga sem eru illa máli farnir og illa skrifandi á íslenskunámskeið?

Ég býð hér með þá kynþáttahatara sem svara þessum spurningum afdráttarlaust, án þess að beita útúrsnúningum og rökvillum, velkomna til umræðunnar.

admin

Recent Posts

Óþvegni ruddinn frá Nasaret

Mér hefur alltaf, frá því að ég var 7-8 ára, þótt Jesús frekar áhugaverður karakter.…

54 ár ago

Launasvik með andlitslyftingu

Það er ekkert nýtt að þeir sem vilja bæta ímynd sína taki upp ný orð…

54 ár ago

Facebook greiðir starfsfólki með geðröskun miskabætur

Facebook hefur samþykkt að greiða samanlagt 52 milljónir bandaríkjadala miskabætur til starfsfólks sem hefur fengið áfallastreituröskun vegna…

54 ár ago

Eru ráðherrar undanþegnir tveggja metra reglunni?

Mynd Ríkisútvarpsins frá blaðamannafundi í Safnahúsinu á Hverfisgötu í gær hefur vakið nokkrar vangaveltur á ritstjórn…

54 ár ago

Eru álfar kannski menn?

Kórónan hefur svo sannarlega kippt stórum hluta allrar starfsemi samfélagsins úr sambandi. Ein afleiðingin er…

54 ár ago

Daily Mail fær gæðavottun frá íslenska ríkinu

Tjáningarfrelsið á undir högg að sækja, líka í Evrópu. Og nú höfum við fengið staðfestingu…

54 ár ago