Um daginn talaði ég við konu sem er svo hrædd við áhrif neikvæðra hugsana og tilfinninga að hún þorir varla að horfa á fréttirnar. Það er sko svona rosalega öflugt þetta aðdráttarlögmál að maður bara síkrítar til sín ógæfu ef maður horfist í augu við stríð og aðrar óþægilegar staðreyndir. Ég velti því fyrir mér hvað hún ætlar að gera ef hún kemur á slysstað. Þakka ‘the Universe’ fyrir að allir í báðum bílunum séu heilir á húfi og aka burt án þess að athuga málið, svona til að laða ekki að sér fleiri slys?
Elskan. Vondar tilfinningar eru eins og trúboðar. Þær banka upp á í þeim tilgangi að fylla hausinn á þér af kjaftæði og það er alger óþarfi að bjóða þeim inn. En ef húsvörðurinn í blokkinni þinn er mormóni eða vottur Jehóva, þá felur þú þig ekkert þegar hann bankar upp á. Þú ferð til dyra og athugar hvað hann vill þér. Sennilega er hann bara kominn til að gera þér aðvart um eitthvað sem þú þarft að bregðast við. Biðja þig að taka þátt í að hreinsa lóðina eða segja þér að á morgun verði skrúfað fyrir vatnið vegna viðgerða.
Það er engin skynsemi í því að hundsa neikvæðar tilfinningar. Hlutverk þeirra er eins og hlutverk húsvarðarins, að fá okkur til að bregðast við einhverju sem gæti annars komið okkur í vandræði eða fengið okkur til að taka vondar ákvarðanir. Svo þegar neikvæðar hugsanir banka upp á, farðu þá til dyra og hlustaðu á erindið. Hafðu bara hugfast að húsvörðurinn er með helling af ranghugmyndum og ef tilgangur hans er sá að segja þér að heimsendir sé að nálgast og þú getir reiknað með að fara til helvítis nema þú breytir kynhegðun þinni eða tónlistarsmekk, ekki þá bjóða honum inn.
Neikvæðar hugsanir eru ekki hættulegar nema maður leyfi þeim að koma inn ranghugmyndum hjá sér. Hvað vill þessi tilfininning þér? Það er það sem skiptir máli. Ef tilfinningin segir þér að þú sért feitabolla eru það þá gagnleg skilaboð eða bara einhver þvæla? Ef þú ert sannarlega feitabolla, segðu þá takk fyrir að láta mig vita, og gerðu svo eitthvað í því. Ekki neita að opna bara af því að skilaboðin eru óþægileg. Þú þarft ekkert að bjóða feitunni í kaffi og láta hana eyðileggja fyrir þér daginn, skilaboðin eru komin til þín og húsvörðurinn ætlar hvort sem ekkert að leysa verkefnið fyrir þig, hann á bara að láta þig vita.
En hvað ef þú ert alls engin feitabolla en feitan bankar samt upp á? Nú þá er húsvörðurinn kominn út fyrir starfsvið sitt. Ef húsvörðurinn kemur til að segja þér að heimsendir sé í nánd og þú á leið til helvítis, ætlarðu þá að bjóða honum inn? Ef ekki, segðu þá feitunni, ljótunni, blönkunni eða hver svo sem böggarinn er, að þú hafir ekki áhuga. Lokaðu svo dyrunum og talaðu við einhvern skemmtilegri.
Og ef skaðinn er skeður, ef þú ert búinn að hleypa heimsendafólkinu svo oft inn að það er farið að ganga inn óboðið eða setja fótinn milli stafs og hurðar þegar þú ætlar að afþakka heimsóknina, þá getur verið að þú þurfir að reka það burt með harðri hendi, það gæti jafnvel gengið svo langt að þú þyrftir að leita hjálpar. Oftast, langoftast, virkar þó það sama á neikvæðar hugsanir og á trúboða; að brosa stirðlega í kurteisisskyni og segja; nei takk, ég hef bara engan áhuga á hlusta á þetta.
Mér hefur alltaf, frá því að ég var 7-8 ára, þótt Jesús frekar áhugaverður karakter.…
Það er ekkert nýtt að þeir sem vilja bæta ímynd sína taki upp ný orð…
Facebook hefur samþykkt að greiða samanlagt 52 milljónir bandaríkjadala miskabætur til starfsfólks sem hefur fengið áfallastreituröskun vegna…
Mynd Ríkisútvarpsins frá blaðamannafundi í Safnahúsinu á Hverfisgötu í gær hefur vakið nokkrar vangaveltur á ritstjórn…
Kórónan hefur svo sannarlega kippt stórum hluta allrar starfsemi samfélagsins úr sambandi. Ein afleiðingin er…
Tjáningarfrelsið á undir högg að sækja, líka í Evrópu. Og nú höfum við fengið staðfestingu…