Á Þorláksmessu stendur aðgerðahópurinn ‘Sveltum svínið’ fyrir aðgerð sem allir geta tekið þátt í, hvar sem þeir eru á landinu, óháð aldri, líkamsstyrk, hugrekki, samfélagsstöðu eða efnahag. Enginn lendir í hættu á að verða fyrir ónæði af hálfu lögreglu því við erum ekki að fara að gera neitt sem nálgast það að ögra ramma laganna. Við þurfum ekki einu sinni að láta aðra vita af því að við séum með í þessu ef við óttumst að verða fyrir tuði út af því. Meira að segja Jón Kjartan hlýtur að leggja forpokun sína gagnvart mótmælaaðgerðum til hliðar fyrir þessa aðgerð.

Við förum í Bónus á Þorláksmessu. Hvaða Bónussverslun sem er. Ekki með neina grímu og við getum farið eitt og eitt eða í hópum. Við semsagt fyllum búðirnar á annasamasta degi ársins, af fólki sem ætlar bara að skoða. Við getum stoppað í 20 mínútur eða allan daginn, eftir því hve mikinn tíma við höfum aflögu.
-Við röltum um í rólegheitum og tökum okkur góðan tíma til að skoða og mikið pláss.
-Við getum raðað í körfur, öllu sem við vildum kaupa ef eigendur verslunarinnar hefðu sómatilfinningu, og skilið þær svo eftir í gangveginum.
-Eða farið með fulla körfu að kassanum, hætt við að kaupa sumt eftir að búið er að slá það inn, hugsa sig svo um og hætta við að hætta við og þegar er búið að slá allt draslið inn, uppgötva þá að peningaveskið gleymdist úti í bíl.
-Þeir sem vilja geta óskað eftir að fá að ræða við verslunarstjóra til að kvarta yfir verðlaginu, verðmerkingum, því hvernig raðað er í hillurnar, því hve leiðinlegt sé að versla í mannþröng, eða bara því hve lógó fyrirtækisins sé ljótt. -Ef einhverjum finnst vara sem hann vill kaupa vera illa staðsett getur hann tekið að sér að laga uppröðuninai. T.d. að stafla vörum í miðju gangvegarins svo verði þægilegra að komast að þeim.
-Þeir sem eiga snarvitlaus börn geta tekið þau með sér og misst stjórn á þeim.
-Þeir sem þora ekki gera neitt sem gæti vakið óþægilegar spurningar hjá viðskiptavinum drullusokkafjölskyldunnar geta bara skoðað í hillurnar.

Ég veit að einhver mun tuða um að þetta bitni á viðskiptavinum. Það er allt í lagi. Fólkið sem er enn að versla við þetta drullusokkafyrirtæki þarf bara að lifa við það að þeir sem taka þátt í að halda því á lífi, mega eiga von á minniháttar truflun. Þessvegna er kannski þægilegra fyrir það fólk að versla bara annarsstaðar á Þorláksmessu.

Einhverjir munu líka tuða um að þetta bitni á starfsfólki, sem verði fram á nótt að tína upp úr körfum og þurfi að ganga í gegnum ergelsið við að stimpla inn vörur, bara til að ganga frá þeim aftur. Það er leitt að þurfa að ergja saklausa og ég mæli með því að allir sýni almennu starfsfólki almennilegheit, brosi og þakki fyrir sig og hrósi því fyrir þolinmæðina. Fólkið á kassanum og lagernum í Bónus fær áreiðanlega sjaldan þá viðurkenningu sem það á skiilð og því væri tilvalið að nýta Þorláksmessu til að staldra lengi við á kassanum og segja afgreiðslufólkinu í fullri einlægni hvað það sé leitt hve vanmetin störf þess séu og hvað við kunnum vel að meta þjónustu þess og þolinmæði. Það er þó bara einfaldlega þannig að réttlætiskröfur koma alltaf að einhverju leyti niður á saklausum. Verkföll eru skýrt dæmi um það og samt notum við það vopn. Það skaðar starfsfólk Bónuss ekkert þótt verði truflun á vinnu. Það er bögg, en þetta fólk þarf ekki að taka aukavinnu frekar en það vill og það missir ekki laun þótt sala verði undir væntingum. Reyndar væri best ef starfsfólkið vildi vera með í þessu. Það gæti t.d. unnið hægar en venulega, gleymt að slá inn nokkur núll og neitað að taka á sig aukavinnu.

Dreifið þessari hugmynd sem víðast, því eina leiðin til þess að auðmennirnir sem við héldum að væru að bæta hag heimilanna með lágu vöruverði, á meðan þeir voru í raun að undirbúa fjöldagjaldþrot meðal láglaunafólks, skilji að við erum ekki hrifin af því að láta hafa okkur að fíflum og hneppa okkur í fjötra fátæktar, er sú að skaða möguleika þeirra á gróða.

 

admin

Recent Posts

Óþvegni ruddinn frá Nasaret

Mér hefur alltaf, frá því að ég var 7-8 ára, þótt Jesús frekar áhugaverður karakter.…

54 ár ago

Launasvik með andlitslyftingu

Það er ekkert nýtt að þeir sem vilja bæta ímynd sína taki upp ný orð…

54 ár ago

Facebook greiðir starfsfólki með geðröskun miskabætur

Facebook hefur samþykkt að greiða samanlagt 52 milljónir bandaríkjadala miskabætur til starfsfólks sem hefur fengið áfallastreituröskun vegna…

54 ár ago

Eru ráðherrar undanþegnir tveggja metra reglunni?

Mynd Ríkisútvarpsins frá blaðamannafundi í Safnahúsinu á Hverfisgötu í gær hefur vakið nokkrar vangaveltur á ritstjórn…

54 ár ago

Eru álfar kannski menn?

Kórónan hefur svo sannarlega kippt stórum hluta allrar starfsemi samfélagsins úr sambandi. Ein afleiðingin er…

54 ár ago

Daily Mail fær gæðavottun frá íslenska ríkinu

Tjáningarfrelsið á undir högg að sækja, líka í Evrópu. Og nú höfum við fengið staðfestingu…

54 ár ago