Stokkhólmsheilkennið

Orðið „Stokkhólmsheilkennið“ er notað um tilhneigingu fórnarlamba mannræningja til að mynda tilfinningatengsl við drottnara sína og standa jafnvel með þeim. Það svosem ekkert annað en sláandi dæmi um meðvirkni, sami veikleiki og er að verki þegar fólk sættir sig við að búa við kúgun og frelsissviptingu af hendi fjölskyldumeðlima.

Ég þekki þjóð sem hefur búið við erlent hervald, sem var þröngvað upp á hana, í áratugi.

Stöku sinnum maldaði hún ögn í móinn en meirihlutinn tók samt ástfóstri við dátana og kaus aftur ríkisstjórnina sem bauð þá velkomna. Sama þjóð fékk yfir sig væna hlandgusu þegar tveir drulluháleistar skráðu hana í árásarstríð, þvert gegn stjórnarskránni, ættjarðarljóðunum og ímynd hennar sem sjálfstæðrar en friðelskandi smáþjóðar. Þjóðin fyrirgaf það þó fljótlega og gaf umræddum skíthælum umboð til að halda áfram að drottna. Sama þjóðarlufsa hefur hvað eftir annað rölt Laugarveginn í rigningunni og tuldrað „Öxar við ána“ niður um hálsmálið, til að lýsa andstöðu sinni við að landinu sé sökkt í þágu umhverfismengandi stóriðju. Um leið og dúsu er troðið í tantinn á henni fer hún svo aftur heim að horfa á America´s next Top Model. Og kýs kallana með nammipokann eina ferðina enn.

Hvað er svona skrýtið við að grunnskólakrakki skuli sætta sig við að eignast nýjan pabba í staðinn fyrir fjölskylduna sem hann átti áður? Hann var einn, ellefu ára og hefur sjálfsagt fengið fullt af athygli og ástúð og flott hjól og tölvuleiki frá nýja pabbanum. Við erum þrjúhundruðþúsund, við erum ekki innilokuð og höfum m.a.s. formlegt leyfi til að setja eitt X á blað á fjögurra ára fresti til að hafa áhrif á það hverjir fái að ráðskast með okkur næstu fjögur árin. Og hvað fáum við í staðinn fyrir framtíð landsins; fjandans geilsadisk með Björgvini Halldórs! Útlendingabúðir lengst uppi í fjalli. Fleiri störf sem Íslendingar kæra sig ekki um að vinna. Fulla nýtingu mengunarkvótans og möguleika á að fá leyfi til að sóða ennþá meira út. Loforð um hærri tekjur sem þó er aðeins sýnd veiði en ekki gefin. Spliff, donk og gengju. Þetta nægir þjóðinni með Stokkhólmsheilkennið fullkomlega til að gefa þessum örfáu hræðum sem enn reyna að spyrna við fótum þessi skilaboð; til hvers eruð þið að þessu? Hversu lengi ætlið þið að halda áfram að mótmæla? Svo yrkir þjóðarlufsan ljóð handa landinu eða tekur af því myndir svona í friðþægingarskyni.

Já, það er von að framkoma Shawns Hornbeck þyki undarleg.

Eva Hauksdóttir

Recent Posts

Óþvegni ruddinn frá Nasaret

Mér hefur alltaf, frá því að ég var 7-8 ára, þótt Jesús frekar áhugaverður karakter.…

54 ár ago

Launasvik með andlitslyftingu

Það er ekkert nýtt að þeir sem vilja bæta ímynd sína taki upp ný orð…

54 ár ago

Facebook greiðir starfsfólki með geðröskun miskabætur

Facebook hefur samþykkt að greiða samanlagt 52 milljónir bandaríkjadala miskabætur til starfsfólks sem hefur fengið áfallastreituröskun vegna…

54 ár ago

Eru ráðherrar undanþegnir tveggja metra reglunni?

Mynd Ríkisútvarpsins frá blaðamannafundi í Safnahúsinu á Hverfisgötu í gær hefur vakið nokkrar vangaveltur á ritstjórn…

54 ár ago

Eru álfar kannski menn?

Kórónan hefur svo sannarlega kippt stórum hluta allrar starfsemi samfélagsins úr sambandi. Ein afleiðingin er…

54 ár ago

Daily Mail fær gæðavottun frá íslenska ríkinu

Tjáningarfrelsið á undir högg að sækja, líka í Evrópu. Og nú höfum við fengið staðfestingu…

54 ár ago