Ég var að hlusta á Spegilinn -og nei Halla Gunnarsdóttir, þú þarft ekkert að láta íslenska skattgreiðendur borga undir þig ferðir til hinna Norðurlandanna til þess að kynna þér hvernig frændþjóðir okkar, sem iðulega brjóta gegn mannréttindum flóttamanna, haga afgreiðslu á málum hælisleitenda.

Þú þarft ósköp einfaldlega að fara eftir þeim mannréttindasáttmálum sem Íslendingar hafa skrifað undir. Þeirra á meðal er flóttamannasamningur Sameinuðu Þjóðanna. Samkvæmt honum er það algerlega fráleitt, sem þú hélst fram í þessu viðtali, að ef flóttamenn séu hugsanlega að leita hælis á öðrum forsendum en þeim að þeir þarfnist verndar, þurfi að finna leið til að losna við þá. Eins og þú veist mæta vel, kveður flóttamannasamningurinn þvert á móti á um, að takist ekki að sanna hverjar aðstæður flóttamannsins eru, eigi hann að njóta vafans. Þetta er algerlega kristaltært og frekar ömurlegt að aðstoðarmaður Innanríkisráðherra og formaður hóps sem á að vinna að hagsmunum flóttamanna og annarra útlendinga sem standa utan EES, skuli láta sem hann velkist í vafa um það.

Nú hefur Innanríkisráðuneytið haft rúmt hálft ár til að komast að niðurstöðu í máli  Mohammeds Lo, strokuþræls frá Márítaníu. Mohammed fellur undir skilgreiningu Sameinuðu Þjóðanna á flóttamanni, ekki bara á einn hátt, heldur á a.m.k. fjóra vegu.

-Hann var í fyrsta lagi þræll og ólögmæt frelsissvipting er gild ástæða til að fólk fái stöðu flóttamanns.

-Kynþáttur hans býr við alvarlega mismunun í heimalandi hans, mismunun sem felur m.a. í sér skort á lágmarks heilsugæslu og menntun. Mismunun á grundvelli kynþáttar og/eða félagslegrar stöðu er gild ástæða til þess að veita manni stöðu flóttamanns og Mohammed bjó við hvort tveggja.

-Hann hefur sætt ofsóknum og ekki aðeins hann heldur öll hans fjölskylda og reyndar allir sem hann þekkir. Hann hefur ríka ástæðu til að óttast áframhaldandi ofsóknir, fari hann aftur til Máritaníu, það eitt er fullgild ástæða til að veita manni stöðu flóttamanns.

-Hann hefur sætt líkamlegum misþyrmingum og lítilsvirðandi meðferð á grundvelli kynþáttar síns og félagslegrar stöðu. Hann hefur ríka ástæðu til að óttast að sú meðferð verði ennþá verri, stofni jafnvel lífi hans í voða, verði hann sendur til baka. Það er fullgild ástæða til að veita honum hæli sem flóttamanni.

Mohammed Lo hefur nú setið í sjálfskipuðu stofufangelsi á Íslandi í meira en hálft ár, af ótta um frelsi sitt og öryggi.  Á meðan hafið þið Ögmundur varið tíma ykkar til að uppfylla alla villtustu drauma Björns Bjarnasonar með því að vinna að lagafrumvörpum um heimildir til persónunjósna. Nær væri ykkur að vinna að mannréttindamálum en gegn þeim. Ég bendi t.d. á að samkvæmt flóttamannasamningnum er ólöglegt að refsa fólki sem ferðast á röngum skilríkjum, ef ætla má að það hafi skilyrði til að hljóta stöðu flóttamanns. Samkvæmt íslenskum lögum ber hinsvegar að fangelsa hvern þann útlending sem kemur til landsins án gildra skilríkja. Mannréttindabrot er þannig í raun lögbundið á Íslandi.

Þegar Ögmundur Jónasson tók við æðsta valdi í mannréttindamálum á Íslandi, vonuðu margir að mikil bragarbót yrði á þeim málaflokki og vafalaust hafa margir einnig bundið vonir við þig, Halla. Það er þó ekki að sjá að mannréttindi séu í neinni forgangsröð hjá ráðuneytinu. Ég bendi þér á að lesa þennan ágæta pistil áður en þú boðar vinnuhóp um málefni flóttamanna til næsta fundar, og sleppa því svo að hreykja þér og þínum vinnustað af því að hafa bætt stöðu flóttamanna, þar til einhver alvöru skref hafa verið tekin í þá átt.

Hér er viðbót um réttarstöðu flóttamanna og aðstæður Mohammeds Lo.

admin

Recent Posts

Óþvegni ruddinn frá Nasaret

Mér hefur alltaf, frá því að ég var 7-8 ára, þótt Jesús frekar áhugaverður karakter.…

54 ár ago

Launasvik með andlitslyftingu

Það er ekkert nýtt að þeir sem vilja bæta ímynd sína taki upp ný orð…

54 ár ago

Facebook greiðir starfsfólki með geðröskun miskabætur

Facebook hefur samþykkt að greiða samanlagt 52 milljónir bandaríkjadala miskabætur til starfsfólks sem hefur fengið áfallastreituröskun vegna…

54 ár ago

Eru ráðherrar undanþegnir tveggja metra reglunni?

Mynd Ríkisútvarpsins frá blaðamannafundi í Safnahúsinu á Hverfisgötu í gær hefur vakið nokkrar vangaveltur á ritstjórn…

54 ár ago

Eru álfar kannski menn?

Kórónan hefur svo sannarlega kippt stórum hluta allrar starfsemi samfélagsins úr sambandi. Ein afleiðingin er…

54 ár ago

Daily Mail fær gæðavottun frá íslenska ríkinu

Tjáningarfrelsið á undir högg að sækja, líka í Evrópu. Og nú höfum við fengið staðfestingu…

54 ár ago