Í gær átti ég samtal við mann sem finnst rosalega gott mál að svara „þessum öfgamönnum“ og á þá við grímulausa kynþáttahatara sem kalla sig þjóðernissinna.

Það sem ég hef við þetta fólk að athuga er ekki öfgastefna þess. Öfgar eru ekkert annað en það sem víkur frá norminu. Þar sem einhver breidd er í skoðunum hljóta öfgar alltaf að vera til.

Það voru öfgakonur sem fengu því framgengt að konur njóta mannréttinda í hinum vestræna heimi í dag.
Það voru öfgamenn sem stofnuðu fyrstu verkalýðsfélögin.
Þeir kallast öfgamenn sem börðust gegn hinni öfgakenndu Kárahnjúkavirkjun.
Allt þetta fólk hefur gert heiminum gagn.

Öfgar eru ekki vandamál í sjálfu sér, heldur þær skoðanir sem vinna heiminum tjón. Illar öfgar geta m.a.s. verið jákvæðar því þær afhjúpa þau viðhorf sem búa að baki stjórnmálastraumum sem fljótt á litið virðast sakleysislegir en vinna gegn hagsmunum mannskepnunnar og jarðarinnar til lengdar.

Munurinn á kynháttahyggju sköpunarhreyfingarinnar og þeirri kynþáttahyggju sem birtist í hugmyndum um að banna búrkuna, senda flóttamenn til Helvítis og synja nauðstöddum samfélögum um fjárhagsaðstoð af því að við „höfum nóg með okkar fólk“, er eingöngu sá að sköpunarhreyfingin er öfgafyllri. Hún vill ekki bara losna við þá áþján að mæta „skítaskinni“ á götu, heldur ganga alla leið og útrýma þeim.

Það skiptir ekki öllu máli hvort maður vill láta sér nægja að kúga fólk og halda því í viðjum stríðs og fátæktar eða ganga alla leið og drepa það. Það sem gerir þetta fólk hættulegt eru ekki öfgarnar í þeim, heldur það viðbjóðslega viðhorf þess að erfðir og menningarbakgrunnur, gefi sumum mönnum leyfi til að kúga aðra.

Haukur sonur minn er fyrir rétti í dag. Glæpur hans var sá að bjarga mannslífi. Lífi manns sem hin hófsama kynþáttahyggja yfirvalda hefði sent í opinn dauðann ef öfgamennirnir Haukur Hilmarsson og Jason Slade hefðu ekki skorist í leikinn. Betur kann ég við öfgar þeirra sem bjarga mannslífum en hófsemi þeirra sem synja nauðstöddum manneskjum um hjálp og senda í hendur harðstjóra fólk sem hefur gert sig sekt um að hafa sjálfstæðar skoðanir.

admin

Recent Posts

Óþvegni ruddinn frá Nasaret

Mér hefur alltaf, frá því að ég var 7-8 ára, þótt Jesús frekar áhugaverður karakter.…

54 ár ago

Launasvik með andlitslyftingu

Það er ekkert nýtt að þeir sem vilja bæta ímynd sína taki upp ný orð…

54 ár ago

Facebook greiðir starfsfólki með geðröskun miskabætur

Facebook hefur samþykkt að greiða samanlagt 52 milljónir bandaríkjadala miskabætur til starfsfólks sem hefur fengið áfallastreituröskun vegna…

54 ár ago

Eru ráðherrar undanþegnir tveggja metra reglunni?

Mynd Ríkisútvarpsins frá blaðamannafundi í Safnahúsinu á Hverfisgötu í gær hefur vakið nokkrar vangaveltur á ritstjórn…

54 ár ago

Eru álfar kannski menn?

Kórónan hefur svo sannarlega kippt stórum hluta allrar starfsemi samfélagsins úr sambandi. Ein afleiðingin er…

54 ár ago

Daily Mail fær gæðavottun frá íslenska ríkinu

Tjáningarfrelsið á undir högg að sækja, líka í Evrópu. Og nú höfum við fengið staðfestingu…

54 ár ago