Mér segir svo hugur um að nú þyki ýmsum nóg komið og rúmlega það. Sjálfsagt er þó til lítils að þenja sig því það hefur sýnt sig að lög ná ekki yfir samráðsmenn olíufélaganna.

Hvað er þá til ráða?

Hvernig væri að prófa beinar aðgerðir?

Neinei, ég er ekki að leggja til að neytendur ryðjist inn á skrifstofu Skeljungs með háreysti og hlekki sig við húsgögnin. Það mun aldrei nást samstaða um slíkt uppþot og þótt 7-8 hræður fengjust til þess hefði það ekkert að segja. Nei, ég er með betri hugmynd.

Ef allir bifreiðaeigendur sem eru ekki til í að láta stela af sér fórnuðu fjárhæð sem svarar einum bensíntank, þá gætum við ráðið 3-4 íturvaxna menn sem eiga vísa vist á Hrauninu hvort sem er, til að grípa til þrautreyndar uppeldisaðferðar. Aðferðar sem felur í sér skilaboðin; nú er nóg komið, og skammastu þín barasta!

Ég er ekkert að tala um að hóta að skaða fjölskyldur samráðsmanna, hvað þá að mölva úr þeim tennurnar eða brjóta á þeim hnéskeljarnar. Ég er algerlega mótfallin líkamsmeiðingum en þegar þarf að kenna mönnum að skammast sín, getur svolítið valdbeiting verið nauðsynleg. Ég á við aðgerð sem hefur fyrst og fremst táknrænt gildi. Refsingu sem margur óþekktargemlingurinn hefur gengið í gegnum án þess að bera af því varanlegan skaða. Þeir sem tækju verkið að sér myndu semsagt taka niður um þessa háu herra, leggja þá yfir kné sér og gefa þeim góðan skell á beran bossann. Athöfnin yrði mynduð og sett á netið, öðrum til viðvörunar og Glanni glæpur og co myndu með ánægju gista Hraunið nokkrum vikum lengur en ella. Reyndar er alveg hugsanlegt að með því að stofna fyrirtæki sem réði þá til verksins, væri hægt að koma því svo fyrir að þeir þyrftu ekki að bera persónulega ábyrgð á flengingunni en auk þess má búast við að þeir nytu þjóðarhylli fyrir vikið og fengju jafnvel fasta vinnu við að leika í auglýsingum þegar þeir kæmu út.

Ef svo ólíklega færi að okkar menn fengju harðan dóm fyrir tiltölulega nærgætna flengingu, yrði bónusinn sá að dómstólar neyddust til að endurskoða þau skilaboð sem þeir senda út í hverju ofbeldismálinu á fætur öðru. Niðurstaðan yrði þannig alltaf góð, hvernig sem allt færi.

Ef er einhver stemning fyrir svona aðgerð, skal ég með ánægju taka á mig ábyrgðina á henni. Það er áreiðanlega leyfilegt að lesa bækur og nota andlitsmaska og fótleggjavax í Kópavogsgrjótinu, svo ég kæmi þaðan út ennþá fallegri og gáfaðri en ég er í dag.

Ég er ekki að djóka. Þeir sem geta bent á hæfa menn sem væru tilleiðanlegir til að rassskella nokkra forstjóra, eru vinsamlegast beðnir að hafa samband. Á morgun mun ég stofna bankareikning til að safna fyrir aðgerðinni.

 

 

Eva Hauksdóttir

Recent Posts

Óþvegni ruddinn frá Nasaret

Mér hefur alltaf, frá því að ég var 7-8 ára, þótt Jesús frekar áhugaverður karakter.…

54 ár ago

Launasvik með andlitslyftingu

Það er ekkert nýtt að þeir sem vilja bæta ímynd sína taki upp ný orð…

54 ár ago

Facebook greiðir starfsfólki með geðröskun miskabætur

Facebook hefur samþykkt að greiða samanlagt 52 milljónir bandaríkjadala miskabætur til starfsfólks sem hefur fengið áfallastreituröskun vegna…

54 ár ago

Eru ráðherrar undanþegnir tveggja metra reglunni?

Mynd Ríkisútvarpsins frá blaðamannafundi í Safnahúsinu á Hverfisgötu í gær hefur vakið nokkrar vangaveltur á ritstjórn…

54 ár ago

Eru álfar kannski menn?

Kórónan hefur svo sannarlega kippt stórum hluta allrar starfsemi samfélagsins úr sambandi. Ein afleiðingin er…

54 ár ago

Daily Mail fær gæðavottun frá íslenska ríkinu

Tjáningarfrelsið á undir högg að sækja, líka í Evrópu. Og nú höfum við fengið staðfestingu…

54 ár ago