Íslendingar eru svo lánsamir að njóta leiðsagnar sér viturra fólks í flestum efnum. Þannig hefur blessað yfirvaldið t.d. á að skipa nefnd sérfróðra manna sem hefur þann starfa að hafa vit fyrir sauðmúganum þegar hann gefur börnum sínum nöfn. Það er líka eins gott því ef mannanafnanefndar nyti ekki við má ætla að fólk myndi nota tækifærið til að niðurlægja börnin sín með því að nefna stúlkur Íngismey Flatlús og drengi Jónabdullah Facebook Fiðrildareður.

Þessi var allavega raunin fyrr á öldum á meðan engin mannanefnanefnd hafði vit fyrir heimskingjum. Stjórnlaus lýðurinn tók upp allskyns útlenskar vitleysur. Eftir að þjóðsögur Gyðinga komu út á íslensku varð t.d. gríðarlega vinsælt að nefna börn eftir söguhetjum þeirra og Íslendingar glíma enn við hin skaðlegu áhrif Riddarasagnananna. Sumu tókst að útrýma en enn þykir við hæfi að gefa íslenskum börnum ævintýranöfn á borð við Sara, Marta, Lárus og Kristófer. Hætt er við að með því stjórnleysi sem áður ríkti myndu íslensk börn fá asnaleg nöfn á borð við Apríl og Hannadís.

Mannanafnanefnd kom á sínum tíma blessunarlega í veg fyrir að systurdóttir mín fengi nafnið Villimey. Enda er það engin íslenska. Systur minni var bent á að sækja um nafnið Villmær í staðinn enda væri Villimey, þ.e.a.s. ef nafnið teldist á annað borð hæfa manneskju, beygingarmynd af Villimær.

Þetta var auðvitað hárrétt athugað hjá mannanafnanefnd, mær er nefnifall, mey þolfall. Ég meina hver þekkir ekki ljóðlínurnar:
„Björt mær og hrein
mér unni ein“

Já og eins og hvert mannsbarn veit er mamma Jesúsar (í íslensku beygist Jesús eins og Magnús) oftast kölluð María mær. Það væri þannig hrein og klár móðgun við íslenska nafnahefð að láta fólk komast upp með að nota aðra beygingarmynd sem nefnifall mannsnafns.

Systir mín maldaði í móinn en hún hafði náttúrulega ekkert vit á nöfnum og niðurstaðan varð sú að hún sætti þessari kærleiksþjónstu mannanafnanefndar með takmörkuðu þakklæti og telpan var látin heita því alíslenska nafni Lena.

Ég ætla nú rétt að vona að yfirvaldið haldi áfram að hafa vit fyrir fólki sem vill láta börn sín heita asnalegum nöfnum. Þó þætti mér við hæfi að leyfa nafnið Mær. Mér þætti nefnilega ömurlegt ef synir mínir mættu láta börn sín heita Ara Fróða og Þorlák Helga en ekki Maríu Mey. Ég gæti m.a.s. trúað að það stríði gegn janfréttislögum.

admin

Recent Posts

Óþvegni ruddinn frá Nasaret

Mér hefur alltaf, frá því að ég var 7-8 ára, þótt Jesús frekar áhugaverður karakter.…

54 ár ago

Launasvik með andlitslyftingu

Það er ekkert nýtt að þeir sem vilja bæta ímynd sína taki upp ný orð…

54 ár ago

Facebook greiðir starfsfólki með geðröskun miskabætur

Facebook hefur samþykkt að greiða samanlagt 52 milljónir bandaríkjadala miskabætur til starfsfólks sem hefur fengið áfallastreituröskun vegna…

54 ár ago

Eru ráðherrar undanþegnir tveggja metra reglunni?

Mynd Ríkisútvarpsins frá blaðamannafundi í Safnahúsinu á Hverfisgötu í gær hefur vakið nokkrar vangaveltur á ritstjórn…

54 ár ago

Eru álfar kannski menn?

Kórónan hefur svo sannarlega kippt stórum hluta allrar starfsemi samfélagsins úr sambandi. Ein afleiðingin er…

54 ár ago

Daily Mail fær gæðavottun frá íslenska ríkinu

Tjáningarfrelsið á undir högg að sækja, líka í Evrópu. Og nú höfum við fengið staðfestingu…

54 ár ago