Lausnin blasir við. Hún felst í því að við hættum að hegða okkur eins og við séum rík og horfumst í augu við raunveruleikann. Við þurfum að hegða okkur eins og við séum fátæklingar, sem ætla að hætta að vera fátækir. Við þurfum t.d:

-Að hætta að henda pening í rekstur þjóðkirkju. Kristlingar fjármagni sitt áhugamál sjálfir.

-Leggja niður eins mörg sendiráð og mögulegt er. Þau sem nauðsynlega þarf að starfrækja verði höfð í ódýrum kjallaraíbúðum með húsgögnum úr góða hirðinum.

-Fækka Seðlabankastjórum í einn.

-Setja þak á hæstu samanlagðar tekjur. Um leið má afnema tekjuskatt, það er engin þörf á honum þegar enginn fær óhóflega háar tekjur.

-Segja upp aðild okkar að Nató.

-Halda áfram að senda bíla úr landi og flytja ekki fleiri inn næstu árin, nema vetnisbíla.

-Leggja niður Alþingi í núverandi mynd og taka í stað upp stjórnkerfi sem yrði skilvirkara og ódýrara í rekstri. T.d. mætti gera þingmennsku að þegnskylduvinnu.

-Láta forsetann fá gsm frelsi upp á 3000 kall á mánuði og loka fyrir símtöl til útlanda úr heimasímanum hans og frá forsetaskrifstofunni. Hann verður bara að læra á tölvupóst ef hann á erindi við fólk í útlöndum. Það sama gagnvart ráðherrum.

-Leggja niður allt sem flokkast sem risna og fríðindi hjá hinu opinbera.

-Hætta að hegða okkur eins og kóngar þótt einhver útlendingur komi í opinbera heimsókn. Það þarf ekki að bjóða skrilljón manns til veislu, 3-4 fulltrúar ættu að vera alveg nóg og íslensk kjötsúpa á Bessatöðum eða í ráðherrabústaðnum er fullboðleg í trantana á þeim.

-Afleggja öll ferðalög forseta og ráðherra til útlanda. Þeir hafa engu því að sinna sem má ekki afgreiða bréflega.

-Leggja niður alla þá starfsemi á ríkisfjölmiðlum sem hefur eingöngu afþreyjingargildi. Ríkisútvarpið sinni skyldu gagnvart almannavörnum, haldi úti fréttastofu og sinni því menningarhlutverki sem aðrir miðlar gera ekki. Engir framhaldsþættir eða b-myndir frá Hollywood.

-Ríkið hætti rekstri bifreiða fyrir valdastéttina og útvegi í staðinn strætókort og reiðhjól fyrir þá stjórnendur sem taka við (sem vitanlega hefðu ekki meiri völd en svo að hægt væri að setja þá af hvenær sem er). Fyrrum prestar gætu fengið vinnu við að gera upp notuð reiðhjól fyrir þá.

-Ríkið steinhætti að láta byggja hallir úr marmara og gleri, það er bara nóg komið af prjálinu.

-Leggja niður listamannalaun og alla ríkisstyrki til lista og menningar (að undanskilinni kennslu og tómstundastarfi fyrir börn, unglinga, aldraða og öryrkja), enda á ríkið aldrei að komast í aðstöðu til að hafa áhrif á það hverskonar list er sköpuð og hverskonar list nær athygli eða hvaða listamenn.

-Leggja niður allar greiðslur ríkisins til pólitískrar starfsemi. Fyrir kosningar (ef við höldum þá því kerfi að kjósa) fái hver flokkur samanlagt sína 3 klukkutíma til að kynna sig og sína stefnuskrá í fjölmiðlum og opnir borgarafundir með fulltrúum allra flokka verði haldnir á hverjum stað á kostnað ríkisins, en að öðru leyti verði lagt bann við kosningaáróðri og auglýsingum á opinberum vettvangi.

-Engin króna frá ríkinu renni til uppbyggingar stórfyrirtækja.

-Algjörlega verði tekið fyrir brottkast fiskjar og annarri sóun á matvælum. Verslanir og fyrirtæki í matvælaiðnaði fái smávægilegar greiðslur fyrir að skila inn mat á síðasta söludegi og þessi matur sem er allt í lagi með en yrði annars hent, verði notaður til eldamennsku á sjúkrastofnunum, í skólamötuneytum o.fl. stofnunum á vegum ríkisins. Ýmis þurrvara er vel nothæf löngu eftir síðasta söludag og ef mikið fellur til af ferskvöru má frysta helling af því. Þótt það þyki rýra gæðin þá erum við fjandinn hafi það fátæk og ættum að andskotast til að horfast í augu við það.

-Nýsköpunarsjóður verði lagður niður.

-Guðfræðideild Háskólans verði lögð niður.

-Mig verkjar í hjartað en í fúlustu alvöru; Menn læri heimspeki á eigin kostnað. Séu einhverjir Sókratesar tilbúnir til að uppfræða æskuna um rökfræði, siðfræði og mælskulist, má launa þeim með fríu fæði (sem annars yrði hent) og fríu húsnæði sem einhver útrásarvíkinganna hefur yfirgefið.

Þetta eru nú nokkar sparnaðarleiðir sem mér koma í hug svona í fljótu bragði. Ef einhverjum líður betur með það þá getum við kallað þær hagræðingu. Reikni nú einhver út hve mikið þessi hagræðing mun spara okkur, áður en ég rita næsta kafla af Leiðum til lausna.

 

admin

Recent Posts

Óþvegni ruddinn frá Nasaret

Mér hefur alltaf, frá því að ég var 7-8 ára, þótt Jesús frekar áhugaverður karakter.…

54 ár ago

Launasvik með andlitslyftingu

Það er ekkert nýtt að þeir sem vilja bæta ímynd sína taki upp ný orð…

54 ár ago

Facebook greiðir starfsfólki með geðröskun miskabætur

Facebook hefur samþykkt að greiða samanlagt 52 milljónir bandaríkjadala miskabætur til starfsfólks sem hefur fengið áfallastreituröskun vegna…

54 ár ago

Eru ráðherrar undanþegnir tveggja metra reglunni?

Mynd Ríkisútvarpsins frá blaðamannafundi í Safnahúsinu á Hverfisgötu í gær hefur vakið nokkrar vangaveltur á ritstjórn…

54 ár ago

Eru álfar kannski menn?

Kórónan hefur svo sannarlega kippt stórum hluta allrar starfsemi samfélagsins úr sambandi. Ein afleiðingin er…

54 ár ago

Daily Mail fær gæðavottun frá íslenska ríkinu

Tjáningarfrelsið á undir högg að sækja, líka í Evrópu. Og nú höfum við fengið staðfestingu…

54 ár ago