Lagði smábörn í veg vinnuvéla

Samarendra Das heimsótti mig í morgun. Við spjölluðum lengi saman og hann sýndi mér heimildamynd sem hann gerði um ástandið í Orissa.

Samarendra er sjálfur frá Orissa og það er frábært að fá upplýsingar frá fyrstu hendi. Í myndinni er t.d. sýnt hvernig fólk sem hefur misst beitilönd fyrir búfénað og ræktarlönd, dregur fram lífið með því að ferðast hátt upp í fjöll og höggva sundur harðan jarðveg til þess að grafa upp rætur.  Við sjáum eitraða rauðleðjupytta þar sem áður þreifst líf í tjörnum og svifrykið sem sest yfir það litla ræktarland sem eftir er og spillir neysluvatni. Eitt myndskeiðið sýnir fólk í mótmælasetu á landi sem á að taka frá því til þess að dótturfyrirtæki Alcan geti orðið enn ríkara, voldugra og ógeðslegra en það er í dag. Þegar fólkið færir sig ekki, kemur löggan og lemur það með löngum bambusprikum. Ég vissi ekki fyrr að það væru til myndir af því.

Viðtöl við heimamenn eru sláandi. Eitt þeirra er við ungan mann sem segir að það sé vonlaust að frá fram svör um það hversu mikið báxít eigi að taka og hvort framkvæmdir muni standa í 5 ár, 9 ár eða 25 ár. Það er bara ekki vandamál Alcan hversu margar kynslóðir þurfa að svelta þeirra vegna. Eitt viðtalið stakk mig sérstaklega en þar er það gamall maður sem segir frá. Hann er hágrátandi og sýnir líkama sinn þakinn marblettum eftir barsmíðar lögreglunnar sem óð inn á heimili hans til að láta hann vita hvaða afleiðingar það geti haft að mótmæla því að fólk sé rekið burt af heimilum sínum. Annað viðtal sem vert er að nefna er við konu sem í örvæntingu sinni lagði smábörn í veg fyrir vinnuvélar og tókst þannig a.m.k. að fresta framkvæmdum. Hún skýrir tiltækið á þann veg að ef hún hefði bara lagst fyrir þær sjálf hefðu þeir líklega drepið sig en verði landið tekið þá bíði fjölskyldunnar ekkert nema hungurdauði hvort sem er.

En þetta kemur okkur nú ekki við eða hvað? Starfsmenn Alcan á Íslandi fá nefnilega alltaf svo ágæta jólagjöf frá fyrirtækinu. Og svo verðum við líka að átta okkur á því að ef við bjóðum ekki fyrirtæki sem pína og svelta einhverja vesalinga á Indlandi velkomin, þá þurfum við öll að flytja í torfkofa og leggjast á fjallagrasabeit úti í móa, alveg eins og við gerðum árið 1966 þegar ekkert álver var á Íslandi.

 

admin

Recent Posts

Óþvegni ruddinn frá Nasaret

Mér hefur alltaf, frá því að ég var 7-8 ára, þótt Jesús frekar áhugaverður karakter.…

54 ár ago

Launasvik með andlitslyftingu

Það er ekkert nýtt að þeir sem vilja bæta ímynd sína taki upp ný orð…

54 ár ago

Facebook greiðir starfsfólki með geðröskun miskabætur

Facebook hefur samþykkt að greiða samanlagt 52 milljónir bandaríkjadala miskabætur til starfsfólks sem hefur fengið áfallastreituröskun vegna…

54 ár ago

Eru ráðherrar undanþegnir tveggja metra reglunni?

Mynd Ríkisútvarpsins frá blaðamannafundi í Safnahúsinu á Hverfisgötu í gær hefur vakið nokkrar vangaveltur á ritstjórn…

54 ár ago

Eru álfar kannski menn?

Kórónan hefur svo sannarlega kippt stórum hluta allrar starfsemi samfélagsins úr sambandi. Ein afleiðingin er…

54 ár ago

Daily Mail fær gæðavottun frá íslenska ríkinu

Tjáningarfrelsið á undir högg að sækja, líka í Evrópu. Og nú höfum við fengið staðfestingu…

54 ár ago