Þá vitum við hvar þolmörk vörubílstjóra liggja. Mér hefur þótt það áhugaverð spurning hvað þurfi til að við fáum að vita um þolmörk almennings gegn ríkisstjórn sem álítur að gengishrun gjaldmiðilsins komi henni ekki við. Þótt því sé enn ósvarað hafa vörubílstjórar endurvakið trú mína á uppreisnareðli mannsins.

Ég held ekki að neinir ‘atvinnumótmælendur’ muni sjá um að skamma Geir og félaga út af verðbólgu- og vaxtagrýlunni. Þessar fáu hræður sem nenna að standa í mótmælum hafa yfirleitt meiri áhuga á mannréttinda- og umhverfismálum en efnahagsmálum. Þessa dagana skiptist fámennur hópur á um að sjá til þess að Víðimelurinn sé vel mannaður lögreglumönnum í hádeginu. Það þarf auðvitað að vernda kínverska sendiherrann gegn þessu hættulega fólki en þarna hafa verið allt að þrír mótmælendur daglega. Síðasta laugardag voru mótmælin auglýst og þá mættu milli 50 og 60 manns í hádeginu, margir með börnin sín. Þá þurfti ekki færri en 5 lögreglubíla til að halda andófsmönnunum í skefjum (þ.e. einn metra frá tröppunum, án þess að nokkur skýring hafi fengist á því fyrirkomulagi) enda sumir vopnaðir pappaskiltum með áletrunum á borð við „stop the massacre“ og „free Tibet“ og sér hver maður að slíkar kröfur eru til þess fallnar að valda óþarfa truflun og óþægindum á gangstéttinni fyrir framan kínverska sendiráðið á laugardegi. Ég reikna með að mæta á Víðimelinn næsta laugardag. Það mun ekki skila neinu. Ekki fremur en eitt lítið skref skilar manni á löngu ferðalagi á leiðarenda, það er ekki þar með sagt að það skipti ekki máli.

Mótmælendurnir á Víðimelnum eru mestmegins hundsaðir. Ennþá. Það er líklega stærsta ástæðan fyrir því hve fáir mæta á mótmælafundi, þeir vekja litla athygli og svo eru margir sem þola ekki að láta gera grín að sér. „First they ignore you, then they ridicule you, then they fight you, then you win,“ sagði Mahatma Gandhi. Það er samt erfiðara að hundsa stóra vörubíla sem loka Ártúnsbrekkunni en nokkra búddista og lopapeysuhippa sem eru ekki einu sinni nógu margir til að loka inngangnum í kínverska sendiráðið. Húrra fyrir stórum farartækjum og þeim sem aka þeim.

Ævintýralegar hækkanir á húsnæðisverði, eldsneyti og nú á næstu vikum á matvælaverði, sem þegar er það hæsta í heimi, hafa ekki vakið meiri viðbrögð hjá almenningi en dálítið bloggtuð en vörubílstjórar eru þó allavega orðnir nógu pirraðir á bensínverðinu til að sýna það í verki. Kannski -ef verðbólgan fer á almennilegt flug. Kannski -þegar tugir fjölskyldna missa heimili sín og hundruð einstaklinga verða gjaldþrota. Kannski þá komumst við að því hvar þau liggja, þolmörk almennings gagnvart ríkisstjórn sem segir að efnahagsástandið komi henni ekki við.

Ég efast um að þessir þolinmóðu mótmælendur á Víðimelnum hafi tíma og orku til að skipuleggja mótmæli sem tengjast efnahagsástandinu en við vitum allavega hvar löggæslulið Reykjavíkurborgar mun halda sig í hádeginu á laugardaginn. Semsagt, ef einhver hefur áhuga á að hertaka stjórnarráðið eða kasta krónupeningum í klósettið í Alþingishúsinu (krónan er verðlaus hvort sem er), þá getum við allavega haft ofan af fyrir löggunni á meðan.

admin

Recent Posts

Óþvegni ruddinn frá Nasaret

Mér hefur alltaf, frá því að ég var 7-8 ára, þótt Jesús frekar áhugaverður karakter.…

54 ár ago

Launasvik með andlitslyftingu

Það er ekkert nýtt að þeir sem vilja bæta ímynd sína taki upp ný orð…

54 ár ago

Facebook greiðir starfsfólki með geðröskun miskabætur

Facebook hefur samþykkt að greiða samanlagt 52 milljónir bandaríkjadala miskabætur til starfsfólks sem hefur fengið áfallastreituröskun vegna…

54 ár ago

Eru ráðherrar undanþegnir tveggja metra reglunni?

Mynd Ríkisútvarpsins frá blaðamannafundi í Safnahúsinu á Hverfisgötu í gær hefur vakið nokkrar vangaveltur á ritstjórn…

54 ár ago

Eru álfar kannski menn?

Kórónan hefur svo sannarlega kippt stórum hluta allrar starfsemi samfélagsins úr sambandi. Ein afleiðingin er…

54 ár ago

Daily Mail fær gæðavottun frá íslenska ríkinu

Tjáningarfrelsið á undir högg að sækja, líka í Evrópu. Og nú höfum við fengið staðfestingu…

54 ár ago