Einu sinni var ævintýramaður sem hafði yndi af því að þvælast um heiminn og kanna nýjar slóðir. Eitt árið dvaldi hann á eyðiey og þegar hann kom heim og sagði vinum sínum ferðasöguna, langaði fleiri að ferðast þangað.

Einn þeirra sem urðu spenntir fyrir lýsingunum á eynni var landi hans sem átti í útistöðum við yfirvöld vegna skattamála. Hann var líkast til rekinn úr landi vegna skattsvika en flestir afkomendur hans telja  þó að hann hafi snáfað burt að eigin frumkvæði.

Hvort heldur er fann hann eyðilandið og þar sem ekkert vegabréfaeftirlit var þar, gat hann sest þar að og lifað í friði fyrir hverskyns yfirvaldi.

Vinur hans sem hafði drepið mann (að eigin áliti með réttu þar sem hann hafði banað honum í hefndarskyni) og átti yfir höfði sér hroðalegar pyntingar og dauða, flúði svo til sama lands. Þeir hétu Golli og Grímur þessir vafasömu anarkistar og stuðboltinn sem lenti á eyjunni á undan þeim; eyddi sumrinu í laxveiði og fyllirí og gleymdi að heyja, hét Flóki.

Smámsaman byggðist landið upp af flóttamönnum og flækingjum. Glæpamönnum, raunverulegum eða meintum, sem áttu yfir höfði sér ómannúðlegar refsingar, og mönnum sem flúðu ofsóknir, valdníðslu, skattpíningu og spillingu yfirvalda í heimalandi sínu. Sumir voru bara ævintýramenn eða þrautpíndir bændur sem leituðu meiri lífsgæða og sumir voru aðallega að elta ættingja sína. Flestir þeirra sem fóru af frjálsum vilja voru vel stæðir en margir þrælar og blásnauðir húskarlar voru einnig með í för.

Flóttinn frá Noregi var ekkert auðveldur. Þótt siglingin væri ekki löng var hún hættuleg og einhverjir dóu á leiðinni yfir hafið. Sumir voru verr búnir en aðrir og kiknuðu undan álaginu, dóu úr læknanlegum sjúkdómum eða horféllu í nýju landi. Menn sem áttu í útistöðum drápu hver annan, það voru þess tíma gengjastríð. En margir lifðu af og bjuggu börnum sínum betri framtíð og hinir höfðu þó allavega reynt. Á Íslensku heitir það sjálfsbjargarviðleitni.

Ég veit ekki hvaðan þessi mynd er upphaflega en heimildum ber ekki saman um hvort hún á að sýna útför Baldurs eða komu Kveld-Úlfs til landsins. Kveld-Úlfur var aldraður þegar hann fór út til Íslands (til þess að vera hjá sonum sínum) og lést á leiðinni.

Og enn flykkjast flóttamenn til landsins. Fólk sem sætir ofsóknum. Stríðshrjáð fólk. Fólk sem býr við valdníðslu sem það getur ekki sætt sig við þótt mannréttindasáttmálar og alþjóðalög taki ekki til þeirra brota og fólk sem er að leita betri lífskjara eða bara að elta ástvini sína. Einn og einn glæpon líka.

En þar sem afkomendur Gríms og Golla eru svo hræddir um að allir sem ekki eru komnir af víkingum séu afætur og hryðjuverkamenn, reyna þeir að hrekja sem flesta þeirra burt. Og tekst það oftar en ekki enda þykir það ekki lengur merki um hugrekki og dugnað að leggja á sig hættuför í leit að betra lífi.

Innanríkisráðherra og aðstoðarkona hans eru hreint ekki í uppáhaldi hjá mér þessa dagana en það eru þó allavega góðar fréttir að þau séu að íhuga möguleikann á því að draga úr mannréttindabrotum gagnvart flóttamönnum. Það er þá vonandi til einhvers að hafa meinta vinstri menn í valdastöðum. Og þegar Halla er búin að taka sér ár í að komast að þeirri niðurstöðu að ekki sé rétt að refsa fólki fyrir að flýja heimkynni sín, væri ósköp huggulegt af þeim Ögmundi að afleggja mannréttindabrot gagnvart þeim sem þegar hafa setið í fangelsi fyrir sjálfsbjargarviðleitni.

admin

Recent Posts

Óþvegni ruddinn frá Nasaret

Mér hefur alltaf, frá því að ég var 7-8 ára, þótt Jesús frekar áhugaverður karakter.…

54 ár ago

Launasvik með andlitslyftingu

Það er ekkert nýtt að þeir sem vilja bæta ímynd sína taki upp ný orð…

54 ár ago

Facebook greiðir starfsfólki með geðröskun miskabætur

Facebook hefur samþykkt að greiða samanlagt 52 milljónir bandaríkjadala miskabætur til starfsfólks sem hefur fengið áfallastreituröskun vegna…

54 ár ago

Eru ráðherrar undanþegnir tveggja metra reglunni?

Mynd Ríkisútvarpsins frá blaðamannafundi í Safnahúsinu á Hverfisgötu í gær hefur vakið nokkrar vangaveltur á ritstjórn…

54 ár ago

Eru álfar kannski menn?

Kórónan hefur svo sannarlega kippt stórum hluta allrar starfsemi samfélagsins úr sambandi. Ein afleiðingin er…

54 ár ago

Daily Mail fær gæðavottun frá íslenska ríkinu

Tjáningarfrelsið á undir högg að sækja, líka í Evrópu. Og nú höfum við fengið staðfestingu…

54 ár ago