Á meðan fólkið sem bauð sig fram til þingsetu undir merkjum umhverfisvænnar vinstri hreyfingar keppist við að koma meiri völdum á færri hendur, sitja kjósendur aðgerðalausir og bíða eftir að ‘eitthvað’ gerist. Þeir fáu sem nenna og þora að láta ‘eitthvað’ gerast, vita nú af reynslunni að þeir eru of fáir til að ná árangri. Ekki einu sinni kannabisræktendur ná almennilegum árangri og eru þeir þó öllu fleiri en aðgerðasinnar á Íslandi.

Eitthvað gerðist reynar í janúar. Eitthvað sem hefði getað breytt íslenskum stjórnmálum. Eitthvað sem hefði getað dregið úr spillingu, leynimakki og valdníðslu. Ekkert breyttist þó, vegna þess að flestum var engin alvara með pottaglamrinu. Flestir voru bara í fýlu yfir tilhugsuninni um að jólavísareikningurinn félli í gjalddaga. Þeir vildu ekki breyta pólitíkinni, þeir vildu bara halda sukkinu áfram. Nú þegar þeir hafa fengið loforð um að þeir geti haldið áfram að sukka og látið börnin sín um að taka afleiðingunum af efnahagsstefnu Sjálfstæðisflokksins, er allur vindur úr þeim. Börnin borga, förum út í sólina með hvítvínsflösku og slöppum af.

Eitthvað gerðist já. Þjóðin krafðist kosninga og ekki mikils þar fram yfir. Nokkrar hræður fóru fram á lýðræði í þeirri merkingu að lýðurinn fengi að ráða einhverju og gegnsæi varð tískuorð. Um tíma var hugmyndin um stjórnlagaþing vinsæl. En þjóðin, eða stærstur hluti hennar, gyrti sjálfviljugur niður um sig um leið og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn viðraði dindilinn, og bað ekki um meira en kosningar. Og þjóðin fékk nákvæmlega það sem hún bað um.

Ég er að verða dálítið leið á skítakommentum um að ég hafi flúið land. Landflótta fólk flýr neyðarástand; stríð, ofbeldi, örbirgð. Ég flúði ekki land, ég bara fór. Ég vil ekki sætta mig við frekari svik og lygar af hálfu valdhafa, hvort sem það eru stórfyrirtæki, bankarnir eða ríkið. Ég myndi ekki búa með einhverjum sem kæmi illa fram við mig, ég myndi ekki vinna hjá einhverjum sem kæmi illa fram við mig og hví ætti ég þá að vilja tilheyra ríki sem kemur illa fram við mig? Ég er líka grautfúl út í þá undarlegu skepnu Almenning. Ef ég ætti maka sem væri alveg til í að leyfa einhverjum skíthælum að taka veð í framtíðartekjum barnanna, bara ef hann sjálfur þyrfti sem minnst að borga, þá færi ég frá þeim maka. Og ég myndi ekki líta á það sem flótta því maður flýr nefnilega ógn en ekki aumingja.

Ég fór. Ég hef setið í sólinni og sötrað hvítvín í sumar, rétt eins og kjósendurnir sem bíða en íslenska ríkið fær þó allavega ekki krónu í vask af þeim hvítvínsflöskum sem ég drekk. Það skiptir íslenska efnahagsundrið auðvitað engu máli þótt það missi af nokkrum krónum frá mér, ekki fremur en það skiptir Bónus neinu máli þótt Pólverjagrey segi upp, það er víst nóg af öðrum launaþrælum sem hægt er að níðast á. En það skiptir mig máli. Það skiptir mig máli að geta sagt sjálfri mér að ég sé ekki lengur með í svona asnalegu leikriti.

admin

Recent Posts

Óþvegni ruddinn frá Nasaret

Mér hefur alltaf, frá því að ég var 7-8 ára, þótt Jesús frekar áhugaverður karakter.…

54 ár ago

Launasvik með andlitslyftingu

Það er ekkert nýtt að þeir sem vilja bæta ímynd sína taki upp ný orð…

54 ár ago

Facebook greiðir starfsfólki með geðröskun miskabætur

Facebook hefur samþykkt að greiða samanlagt 52 milljónir bandaríkjadala miskabætur til starfsfólks sem hefur fengið áfallastreituröskun vegna…

54 ár ago

Eru ráðherrar undanþegnir tveggja metra reglunni?

Mynd Ríkisútvarpsins frá blaðamannafundi í Safnahúsinu á Hverfisgötu í gær hefur vakið nokkrar vangaveltur á ritstjórn…

54 ár ago

Eru álfar kannski menn?

Kórónan hefur svo sannarlega kippt stórum hluta allrar starfsemi samfélagsins úr sambandi. Ein afleiðingin er…

54 ár ago

Daily Mail fær gæðavottun frá íslenska ríkinu

Tjáningarfrelsið á undir högg að sækja, líka í Evrópu. Og nú höfum við fengið staðfestingu…

54 ár ago