Áhugaverð umræða um mál Pauls Ramses hefur farið fram á tjásukerfi Gunnars Th. Gunnarssonar síðustu daga. Gunnar varpar fram þeirri spurningu hvort Gervasoni málið sé að endurtaka sig. Ég útiloka ekkert þann möguleika. Flóttamenn í heiminum eru einfaldlega of margir til þess að sé raunhæft að gera ráð fyrir því að allir sem hingað leita séu sómamenn og drengir góðir.

Hitt finnst mér merkileg kenning að Paul Ramses sé ótíndur glæpamaður og skúrkur mikill, sem þrátt fyrir það hafi ekkert að óttast í heimalandi sínu. Enda ríki þar friður og spekt. Miðað við það litla sem ég veit um ástandið í Kenía, þá stríðir sú hugmynd að glæpamenn séu öruggir þar, einfaldlega gegn almennri skynsemi. Þess ber að geta að Gunnar tekur sjálfur fram að hann ætli ekki að dæma um málið. Ég er því ekkert sérstaklega að beina orðum mínum til hans, heldur vísa ég á skrif hans vegna umræðunnar í kjölfarið.

Mér virðist misskilningur um eðli mótmælanna vegna Ramses nokkuð útbreiddur, allvega á meðal moggabloggara (og það er rétt að komi fram að þessi svokallaða vinstri elíta sem Gunnar vísar til, er reyndar fólk úr öllum flokkum. Sem betur fer eru til sjálfstæðismenn sem virða mannréttindi) en sumir telja ranglega að allir vinstri menn vilji að Paul Ramses sé veitt hæli hér án nokkurra skilyrða og án þess að málið sé kannað. Það er sjálfsagt til fólk sem hefur þá afstöðu, rétt eins og er til fólk sem vill stökkva öllum útlendingum á burt, af því bara. Flestir eru nú sem betur fer með pínulítið betri raunveruleikatengingu.

Ástæðan fyrir þeirri miklu reiðibylgju sem hefur gripið um sig er ekki sú að Jesús hafi birst í skýjum himinsins og lýst því yfir að Paul Ramses sé vammlaus maður og sannarlega Guði þóknanlegur, heldur sú að opinber stofnun skuli senda mann sem segist vera í lífshættu burt, án þess að skoða málið.

Ef nágranni þinn bankar upp á hjá þér og segist vera í lífshættu, þá hlýturðu að byrja á því að tryggja öryggi hans og athuga svo hvað er hæft í því. Þú lokar ekki bara á nefið á honum og segir honum að hætta þessu rugli.

Loftur Altice Þorsteinsson, sem hefur tekið þátt í umræðunni á bloggi Gunnars, gefur upp eftirfarandi tengil

http://www.icenews.is/index.php/2008/07/08/kenyan-refugee-deported-from-iceland-moral-soul-searching-follows/

og skorar á fólk að lesa tjásurnar tvær. Önnur þeirra er frá íslenskri konu og hin frá manni sem heitir Nimo og virðist vera frá Kenía en búsettur hér. Ekki kemur fram hvenær hann kom eða hvað hann er að gera hér. Þessar tvær athugasemdir (einu heimildirnar sem ég hef séð um meintan skúrkshátt Pauls) eru vissulega nokkurrar athygli verðar en ef Útlendingastofnun hefur byggt ákvörðun sína á slíkum sögum, þá væri við hæfi að það kæmi fram. Þvert á móti gefur Útlendingastofnun það út að hún hafi ákveðið að taka málið ekki fyrir. Það er það sem þessi mótmæli snúast um, af því að siðaðar manneskjur bjarga fyrst og spyrja svo.

Ég get ekki gefið upp nöfn og kennitölur þeirra sem eru ofsóttir í Kenía. Ég veit ekki mikið um Kenía eða ástandið þar, en samkvæmt heimildum frá mannréttindasamtökum sem eru greinilega starfandi í einhverri allt annarri Keníu en þeirri sem hinir ónefndu heimildamenn Ómars Valdimarssonar þekkja, þá eru fleiri en Paul Ramses hræddir og hafa góða ástæðu til þess. Alda ofbeldis og glæpa gengur enn yfir landið og það að embættum sé úthlutað af ættrækni telst ekki einu sinni til spillingar. Fjöldi flóttafólks óttast enn að snúa til heimila sinna, þrátt fyrir valdboð ríkisstjórnarinnar þar um. Ef friður, spekt og mannúð einkennir Nairobi um þessar mundir, hvað er fólk þá svo hrætt við að það kjósi að hafast við í tjöldum fjarri heimilum sínum? Fjöldi manna situr í fangelsi án dóms eða einu sinni ákæru og Odinga og Kibaki bítast um hvað eigi að gera við þá. Meðlimir ríkisstjórnarinnar hafa kynt undir ættbálkaerjum og það hlýtur að teljast ævintýraleg hugmynd að samstarf þeirra sé til þess fallið að tryggja öryggi og frelsi í landinu.

Ég er alveg sammála Gunnari, Lofti og fleirum um að við þurfum að vanda okkur þegar við tökum á móti flóttafólki. Við eigum ekki að veita hverjum sem koma vill hæli án þess að kanna málið. Glæpamenn reyna örugglega að spila á kerfið og allt það.

Það er alveg hugsanlegt að Paul Ramses hafi eitthvað óhreint í pokahorninu. Vísum því Paul Ramses endilega burt ef hann reynist vera ótíndur glæpamaður sem á vísa mannúðlega meðferð í heimalandi sínu. En að vísa burt fólki sem kemur úr þessum aðstæðum;

http://hrw.org/english/docs/2008/06/16/kenya19137.html

http://www.hrw.org/photos/2008/kenya0308/

http://www.iht.com/articles/2008/05/06/africa/kenya.php

http://hrw.org/english/docs/2008/05/22/kenya18922.htm

http://hrw.org/english/docs/2008/04/03/kenya18421.htm

http://www.hrw.org/english/docs/2007/03/30/kenya15624.htm

og segist vera í lífshættu, án þess að kanna málið, það er bara ekki í lagi.

Eitt í viðbót, ég man ekki hvort það var í fréttum eða bara á einhverri bloggsíðu sem kom fram að Alþjóðahúsið hefði undir höndum gögn sem styddu þann framburð Pauls að hann sé ofsóttur. Getur einhver upplýst mig?

 

admin

Recent Posts

Óþvegni ruddinn frá Nasaret

Mér hefur alltaf, frá því að ég var 7-8 ára, þótt Jesús frekar áhugaverður karakter.…

54 ár ago

Launasvik með andlitslyftingu

Það er ekkert nýtt að þeir sem vilja bæta ímynd sína taki upp ný orð…

54 ár ago

Facebook greiðir starfsfólki með geðröskun miskabætur

Facebook hefur samþykkt að greiða samanlagt 52 milljónir bandaríkjadala miskabætur til starfsfólks sem hefur fengið áfallastreituröskun vegna…

54 ár ago

Eru ráðherrar undanþegnir tveggja metra reglunni?

Mynd Ríkisútvarpsins frá blaðamannafundi í Safnahúsinu á Hverfisgötu í gær hefur vakið nokkrar vangaveltur á ritstjórn…

54 ár ago

Eru álfar kannski menn?

Kórónan hefur svo sannarlega kippt stórum hluta allrar starfsemi samfélagsins úr sambandi. Ein afleiðingin er…

54 ár ago

Daily Mail fær gæðavottun frá íslenska ríkinu

Tjáningarfrelsið á undir högg að sækja, líka í Evrópu. Og nú höfum við fengið staðfestingu…

54 ár ago