Mér finnst sorglegt þegar áhugaverðir pistlahöfundar sem hafa hugrekki til að varpa fram óvenjulegum hugmyndum og spyrja óþægilegra spurninga, verða svo oft fyrir persónulegum árásum og skítkasti að þeir neyðast til að loka á möguleikann á að senda inn athugasemdir til að komast hjá því að taka 4 vinnudaga í viku í að verja sig.

Sóley Tómasdóttir gafst upp. Mér þótti það miður, því hún hefur svo sannarlega hrist upp í landanum með róttækum skoðunum sínum. Ég hef sennilega oftar en ekki verið ósammála Sóleyju Tómasdóttur en ég met hana mikils fyrir hugrekki sitt, fyrir að koma inn hjá mér efasemdum um ýmislegt sem ég hef tekið sem gefnu (ekkert örvar mig jafn mikið og að þurfa að takast á við mína eigin fordóma) og fyrir að halda uppi umræðu um kvenréttindi og fleiri mál sem þurfa athygli. Ég hef stundum skrifað færslur þar sem ég hef sett fram skoðanir sem eru algerlega á skjön við hennar og haft gaman af að finna galla á málflutningi hennar. Ég reyndi hinsvegar sjaldan að taka þátt í umræðum á blogginu hennar, vegna þess að sú umræða var oft svo langt frá því að vera málefnaleg. Oft fór umræðan óraveg frá efni færslunnar og einkenndist af stórfurðulegri illgirni manna sem fundu hjá sér hvöt til að ausa yfir Sóleyju persónulegum dónaskap, gera henni upp skoðanir sem hún hafði ekki sett fram eða leiða umræðuna að einkalífi hennar.

Mér finnst undarlegt að fólk skuli halda að slík framkoma sé verðugt innlegg í umræðuna en mér sýnist bloggið hans Ómars Ragnarssonar vera hægt og rólega á sömu leið. Ég læt eitt dæmi nægja íbili: Fyrir viku skrifaði Ómar færslu sem var ætlað að vekja mjög svo þarfa umræðu um það hvort ástæða sé til að endurskoða greftrunarsiði okkar. Þetta er ögrandi hugmynd og eðlilegt að hún veki hörð viðbrögð. Og allt í lagi með það. Þeim sem finnst hugmyndin út í hött er að sjálfsögðu fullkomlega heimilt að lýsa andúð sinni á henni. Mér finnst m.a.s. í lagi að þeir sem telja að Ómar sé vitleysingur segi það hreint út, svo fremi sem þeir rökstyðja það.

Það ber hinsvegar vott um rökþrot, dómgreindarskort og jafnvel illgirni þegar fólk getur ekki rætt hugmyndina án þess að draga persónulega eldsneytisnotkun Ómars Ragnarssonar í marga áratugi inn í umræðuna. Það sem hófst sem umræða um greftrunarsiði er allt í einu orðið að diskússjón um það hvaða bíla Ómar Ragnarsson hefur átt í gegnum tíðina, og hvort hann hafi gengið og langt í því að gríninu meðan hann vann sem skemmtikraftur. Ég á ekki eitt einasta orð! Jú annars; ætli orðið fávitar! nái ekki nokkrunveginn yfir það sem ég vildi sagt hafa. Mér finnst illmenni of töff þótt það sé vissulega ákveðin tegund af lítilmótlegri vonsku sem knýr fólk af þessu tagi.

Ég hef áhyggjur af blogginu hans Ómars. Það eru ekki margir bloggarar sem hafa bæði hugarflug og hugrekki til að pota í smáborgarann í okkur og vekja umræðu um viðkvæm mál. (Sem er auðvitað ekki það sama og að runka sér á persónulegum harmleikjum eða dreifa hatursáróðri eins og ennþá viðgengst á hinum fyrirlitlega, lítt ritstýrða moggabloggsvef þótt Skúli hafi loksins verið stoppaður af.) Það er dýrmætt að sjá mörg ólík sjónarhorn á sama efnið og netið er ágætur vettvangur til harðra skoðanaskipta (sem er auðvitað allt annað en persónulegt skítkast.) Ég hef áhyggjur af því að fámennur hópur ómálefnalegra skítadreifara muni á endanum neyða Ómar til að loka kommentakerfinu. Það þætti mér sorglegt.

 

admin

Recent Posts

Óþvegni ruddinn frá Nasaret

Mér hefur alltaf, frá því að ég var 7-8 ára, þótt Jesús frekar áhugaverður karakter.…

54 ár ago

Launasvik með andlitslyftingu

Það er ekkert nýtt að þeir sem vilja bæta ímynd sína taki upp ný orð…

54 ár ago

Facebook greiðir starfsfólki með geðröskun miskabætur

Facebook hefur samþykkt að greiða samanlagt 52 milljónir bandaríkjadala miskabætur til starfsfólks sem hefur fengið áfallastreituröskun vegna…

54 ár ago

Eru ráðherrar undanþegnir tveggja metra reglunni?

Mynd Ríkisútvarpsins frá blaðamannafundi í Safnahúsinu á Hverfisgötu í gær hefur vakið nokkrar vangaveltur á ritstjórn…

54 ár ago

Eru álfar kannski menn?

Kórónan hefur svo sannarlega kippt stórum hluta allrar starfsemi samfélagsins úr sambandi. Ein afleiðingin er…

54 ár ago

Daily Mail fær gæðavottun frá íslenska ríkinu

Tjáningarfrelsið á undir högg að sækja, líka í Evrópu. Og nú höfum við fengið staðfestingu…

54 ár ago