Ég ætla að leyfa mér að gera eftirfarandi tillögur um breytingar á jólahaldi Íslendinga.

1) Ég fékk nefnilega þá bráðsjöllu hummmmmynd að í stað þess að klæmast á harmi sjúkra, einstæðra og fátækra yfir jólin, þá tökum við Íslendingar allt árið 2005 í það að vera góð við náungann og þá einkum hungraða og hrjáða, þjakaða og þjáða. Byrja strax 1. janúar og gera 1 góðverk á dag. Ekkert endilega ógurlega stórt, bara svona að setja 50 kall í einhvern sjóð, gefa Rauða Krossinum fötin sem við notum ekki, brosa til nýbúa, passa þroskaheft barn svo foreldrarnir fái smáhvíld og solleis. Svo má t.d. ættleiða einhverja einmana ömmu og heimsækja hana á elliheimilið, ekkert endilega á jólunum heldur kannski bara 3. febrúar eða 18. ágúst. Ef manni leiðast gamalmenni má redda sér með því að borga einhverjum framhaldsskólanemum sem eru að safna fyrir útskriftarferð fyrir að sinna ömmunni. Þannig verða allir glaðir.

Svo þegar jólin koma næst, þá getum við bara notið þeirra í friði. Slappað af, eldað fínan mat, boðið fjölskyldunni í kaffi og skipst á gjöfum án þess að vera að skíta á okkur af samvikubiti yfir öllum sem eiga hvorki vini, ljósaseríu né hamborgarhrygg og geta ekki einu sinni keypt gleraugu handa börnunum sínum, hvað þá legókastala. Harmaklám verður bannnað í Ríkisútvarpinu þessa daga. Þeir sem endilega vilja armæðast yfir fólki sem á bágt geta bara runkast við það á einhverjum öðrum útvarpsstöðvum og látið okkur hin í friði.

Í alvöru talað; mér finnst voða sorglegt að svona margir eigi bágt en get því miður ekki stoppað stíðsbrölt Bandaríkjamanna eða útvegað Regnbogabörnum vini með því að þjást af samviskubiti. Það er heldur ekki mér að kenna þótt aðrir þjáist svo það er ekki einu sinni rökrétt að ég sé með sektarkennd yfir því. Ég gæti sjálfsagt kostað helling af þrælabörnum í nám með því að neita mér um nýjar nærbuxur, búa þrengra og éta meira af hrísgrjónum og minna af kjöti. Ég mun samt sem áður hér eftir sem hingað til láta mig og mína ganga fyrir og ég er hundleið á þeim armæðuprelátum sem ár eftir ár reyna að eyðileggja jólin fyrir mér með því að koma inn hjá mér vanlíðan í hvert sinn sem ég sting upp í mig konfektmola.

2) Í stað þess að jólin verði skilgreind sem hátíð barnanna, verði þau gerð að hátíð hins vinnandi manns og börnum verði kennt að bera dálitla virðingu fyrir þeim sem kosta uppeldi þeirra og skólagöngu og nota jólin til að æfa sig í umburðarlyndi, þakklæti, örlæti og öðrum góðum siðum.

Ég hitti systur mína í jólaboði hjá pabba okkar í gær og hún sagði nokkuð athyglisvert. Hún lýsti yfir efasemdum um ágæti þess að gefa börnum jólagjafir fram að fermingu eins og algengt er, og benti á að hún væri í rauninni miklu nánari systkinum sínum en börnunum þeirra. Sagði að sig langaði stundum að færa systrum sínum og vinkonum gjafir án þess endilega að gefa öllum börnunum þeirra eitthvað líka enda fengju þau sjálfsagt miklu fleiri gjafir en fullorðna fólkið. Svei mér þá ef þetta viðhorf á ekki bara rétt á sér.

Ég er ekki að leggja til að við tökum jólin frá börnunum. Að sjálfsögðu lofum við litlu krílunum okkar að taka þátt í piparkökubaksti, pakka inn jólagjöfum og heilsa jólasveininum í Kringlunni. Auðvitað setja þau líka skóinn út í glugga. Það er samt sem áður algjör óþarfi að koma inn hjá þeim þeirri hugmynd að það sé eðlilegt að jólasveinaslektið láti lýsa sig gjaldþrota í byrjun janúar þótt einhver krakkaormur hegði sér skikkanlega þessa 13 daga á ári. Ef foreldrar vilja ofdekra börnin sín gerið það þá endilega. Ykkar börn, ykkar uppeldisvandi. En vinsamlegast sýnið þá tillitssemi að spilla þeim í eigin nafni, takk fyrir og látið jólasveinana vera tákn hlýlegrar kæti og hóflegrar gjafmildi en ekki þjóna Mammóns. Það er heldur engin ástæða til að ætla að börn bíði skaða af því þótt jólin snúist ekki eingöngu um þau og þeirra óskir. Börn hafa ekkert illt af því að vera stöku sinnum spurð að því hvað þau haldi að mamma vilji að þau geri fyrir hana, hvað bróður þeirra langi að fá í jólagjöf og hvað afa finnist skemmtilegt að horfa á í sjónvarpinu en ekki bara hvað þau vilji sjálf.

Þegar hann Darri minn var 7 eða 8 ára sagði hann einu sinni við mig:
-Af hverju er alltaf sagt í útvarpinu svona asnalegt; “jólin eru hátíð barnanna” eru þau ekki fyrir alla?
Á því augnabliki fannst mér eins og einhver þáttur uppeldisins hefði bara heppnast þó nokkuð vel.

Eva Hauksdóttir

Recent Posts

Óþvegni ruddinn frá Nasaret

Mér hefur alltaf, frá því að ég var 7-8 ára, þótt Jesús frekar áhugaverður karakter.…

54 ár ago

Launasvik með andlitslyftingu

Það er ekkert nýtt að þeir sem vilja bæta ímynd sína taki upp ný orð…

54 ár ago

Facebook greiðir starfsfólki með geðröskun miskabætur

Facebook hefur samþykkt að greiða samanlagt 52 milljónir bandaríkjadala miskabætur til starfsfólks sem hefur fengið áfallastreituröskun vegna…

54 ár ago

Eru ráðherrar undanþegnir tveggja metra reglunni?

Mynd Ríkisútvarpsins frá blaðamannafundi í Safnahúsinu á Hverfisgötu í gær hefur vakið nokkrar vangaveltur á ritstjórn…

54 ár ago

Eru álfar kannski menn?

Kórónan hefur svo sannarlega kippt stórum hluta allrar starfsemi samfélagsins úr sambandi. Ein afleiðingin er…

54 ár ago

Daily Mail fær gæðavottun frá íslenska ríkinu

Tjáningarfrelsið á undir högg að sækja, líka í Evrópu. Og nú höfum við fengið staðfestingu…

54 ár ago