Ég verð stöðugt meira hissa á vinnubrögðum lögreglunnar. Þetta er auðvitað bara venjulegt fólk, sem getur gert mistök en lögreglan er ekki bara venjulegt fyrirtæki heldur opinber stofnun sem fer með viðkvæm mál og má ekki gera of mörg alvarleg mistök. Þessvegna hefði ég haldið að vinnureglur sem og siðareglur væru mjög skýrar og þeim vel fylgt eftir. Ég hélt líka að hjá stofnun eins og lögreglunni væri algerlega á hreinu hver á að gera hvað.

Svo virðist þó ekki vera. T.d. eru engar heimildir til um það á hvaða tíma var komið með fólkið á lögreglustöðina á Selfossi. Engin vistunarskýrsla finnst eða neitt sem varðar það fólk eftir að það var handtekið. Engin lögregluskýrsla var gerð um málið fyrr en daginn eftir. Skýringarnar sem þjónar laganna gefa á þessari handvömm eru allar á þann veg að sé ekki á þeirra ábyrgð eða að þeir héldu að einhver annar myndi gera það. Ég býst við að lögreglan í Árnesssýslu hafi almennt í nógu öðru að snúast en að sinna vinnunni.

Hjá lögreglunni í Reykjavík liggja vistunarskýrslur fyrir en það gleymdist alveg að gefa öðrum en mér sjálfri fyrirmæli um að víkja af vettvangi (þ.e.a.s. mér var sagt að færa bílinn og sagðíst ég myndu gera það um leið og fólkið væri farið undan honum). Einnig gleymdist að kynna okkur tilefni handtökunnar fyrr en við vorum komin til Reykjavíkur, 2 tímum eftir að ég var handtekin.

Engin skýring hefur heldur fengist á því, hvorki frá Reykjavík né Selfossi, hversvegna var talið nauðsynlegt að halda okkur í 5-9 klukkustundir, sem er langt umfram þann tíma sem venja er að halda fólki sem ekki er undir áhrifum vímuefna og/eða ástæða til að telja að sé hættulegt.

Það verður líka að teljast með ólíkindum að í öðru eins smámáli, þar sem er ekki einu sinni krafist fangelsisvistar heldur aðeins smávægilegra sekta, skuli óvenjulegar undantekningar hafa verið leyfðar. Ekki bara það að fresta máli eftir að aðalmeðferð hefst (sem gerist nánast aldrei) heldur gerðist það einnig hér að fulltrúi Orkuveitu Reykjavíkur fékk að flytja málið að hluta. Orkuveitan er ekki aðili málsins og þar sem krafan frá henni lá fyrir skriflega var í raun engin ástæða til að leyfa þetta. Það er til í dæminu að tjónþoli og þó oftar réttargæslumaður mæti fyrir rétt og haldi uppi einkaréttarkröfum í opinberu máli en Ragnar kannast ekki við slíkt hvorki úr Hérðaðsdómi Reykjavíkur né Hæstarétti nema í kynferðisglæpamálum og öðrum mjög alvarlegum ofbeldismálum. Ekki svo að skilja að þetta skipti neinu máli. Orkuveitan hefur ekki getað fært nein rök fyrir því að hún hafi orðið fyrir tjóni svo kröfunni verður nánast örugglega vísað frá en það er samt nokkurrar athygli vert að við skulum fá svipaða meðferð í dómsferlinu og grunaðir kynferðibrotamenn.

Ég vildi að ég gæti birt málflutning Ragnars Aðalsteinssonar, ræðuna alla. Hann er frábær verjandi, hefur svo sannarlega unnið heimavinnuna sína og ég held að eftir öll þau dæmi sem hann hefur tínt til frá Hæstarétti, frá mannréttindadómstól Evrópu og frá ýmsum dómstólum víða í Evrópu, þar sem miklu stærri mál féllu mótmælendum í hag, þá finnst mér hreinlega ótrúlegt að þessu máli skuli ekki hafa verið vísað frá strax.

 

Eva Hauksdóttir

Recent Posts

Óþvegni ruddinn frá Nasaret

Mér hefur alltaf, frá því að ég var 7-8 ára, þótt Jesús frekar áhugaverður karakter.…

54 ár ago

Launasvik með andlitslyftingu

Það er ekkert nýtt að þeir sem vilja bæta ímynd sína taki upp ný orð…

54 ár ago

Facebook greiðir starfsfólki með geðröskun miskabætur

Facebook hefur samþykkt að greiða samanlagt 52 milljónir bandaríkjadala miskabætur til starfsfólks sem hefur fengið áfallastreituröskun vegna…

54 ár ago

Eru ráðherrar undanþegnir tveggja metra reglunni?

Mynd Ríkisútvarpsins frá blaðamannafundi í Safnahúsinu á Hverfisgötu í gær hefur vakið nokkrar vangaveltur á ritstjórn…

54 ár ago

Eru álfar kannski menn?

Kórónan hefur svo sannarlega kippt stórum hluta allrar starfsemi samfélagsins úr sambandi. Ein afleiðingin er…

54 ár ago

Daily Mail fær gæðavottun frá íslenska ríkinu

Tjáningarfrelsið á undir högg að sækja, líka í Evrópu. Og nú höfum við fengið staðfestingu…

54 ár ago