Ástþór Magnússon forsetaframbjóðandi er umræddur maður. Umræddur en ekki sérlega umdeildur. Umræðan hefur að mestu leyti verið samhljóma dómar um að maðurinn sé fyrst og fremst vitleysingur og hafi auk þess óþægilegt augnaráð.

Þannig eru nú bara dómar götunnar og lítið við því að gera þótt tiltekinn maður verði fyrir persónulegu skítkasti á umræðusíðum á netinu eða yfir kaffibolla í heimahúsum. Það er hins vegar ósæmilegt þegar hver fjölmiðillinn á fætur öðrum lætur starfsfólk sitt komast upp með að sýna einstaklingi rakinn dónaskap þegar yfirlýst hlutverk fjölmiðla er að gefa þjóðinni kost á að kynna sér málflutning hans.

Mér er nokk sama hvað þáttastjórnendum ljósvakafjölmiðla og blaðamönnum kann að finnast um Ástþór Magnússon sem persónu. Það kemur mér ekkert við hvort þetta fólk álítur hann vitleysing eða eitthvað annað, ég er einfær um að mynda mér skoðun. Það kemur mér ekkert við hvort þeim sem tekur viðtal við hann finnst skynsamleg eða óskynsamleg ákvörðun hjá Ástþóri að fara í forsetaframboð með jafn lítið fylgi og skoðanakannanir benda til. Það er ekki hlutverk fjölmiðla að segja mér hvaða álit tiltekinn fréttamaður hefur á því hvort forsetaframboð Ástþórs Magnússonar sé heppileg fjárfesting eða ekki.

Það er einfaldlega ekki í verkahring fjölmiðla að reyna að ala frambjóðendur upp eða leiða ákveðnum manni fyrir sjónir hversu vonlaus staða hans sé og þegar við bætist að stöðugt er gripið fram í fyrir honum og spurningar orðaðar bæði dónalega og í truntulegum tón, þá er öll fagmennska fyrir bí. Það er alveg nóg fyrir mig að fjölmiðlar tilkynni mér hversu mikið fylgi forsetaframbjóðenda mælist samkvæmt könnunum, ég get dregið mínar ályktanir án þess að þáttastjórnandi klifi á staðhæfingum á borð við „Ástþór, þú hefur ekkert fylgi, það vill enginn fá þig sem forseta“ eins og gerðist t.d. hvað eftir annað í útvarpsþætti síðasta laugardag. Það er auðvitað sjálfsagt að spyrja forsetaframbjóðanda kurteislega hverju hann vilji svara þeirri gagnrýni sem kemur fram. Beinskeyttar spurningar eru eðlilegar og nauðsynlegar svo framarlega sem viðmælandanum er sýnd eðlileg kurteisi. Það er hinsvegar óþolandi þegar fjölmiðlafólk tekur að sér að reyna að tala um fyrir forsetaframbjóðanda eins og uppreisnargjörnum unglingi líkt og stjórnandi Kastljóssins gerði t.d. um daginn.

Hvað sem mönnum kann að þykja um forsetaframboð Ástþórs Magnússonar og aðrar gjörðir hans, er hann í framboði til forsetaembættisins. Ekkert hefur komið fram sem bendir til annars en að hann eigi fullan rétt á því að taka ákvörðun um að fara í framboð og standa eða falla með þeirri ákvörðun. Hann á sem frambjóðandi og sem manneskja heimtingu á því að fjölmiðlafólk sýni honum sömu virðingu og öðrum frambjóðendum og gefi honum sama tækifæri til að kynna hugmyndir sínar og stefnumál. Og það sem meira er; ég sem kjósandi, lesandi og áheyrandi á líka rétt á hlutlausri og faglegri umfjöllun. Mér finnst framkoma fjölmiðla við Ástþór Magnússon, forsetaframbjóðanda og manneskju, til háborinnar skammar.

Eva Hauksdóttir

Recent Posts

Óþvegni ruddinn frá Nasaret

Mér hefur alltaf, frá því að ég var 7-8 ára, þótt Jesús frekar áhugaverður karakter.…

54 ár ago

Launasvik með andlitslyftingu

Það er ekkert nýtt að þeir sem vilja bæta ímynd sína taki upp ný orð…

54 ár ago

Facebook greiðir starfsfólki með geðröskun miskabætur

Facebook hefur samþykkt að greiða samanlagt 52 milljónir bandaríkjadala miskabætur til starfsfólks sem hefur fengið áfallastreituröskun vegna…

54 ár ago

Eru ráðherrar undanþegnir tveggja metra reglunni?

Mynd Ríkisútvarpsins frá blaðamannafundi í Safnahúsinu á Hverfisgötu í gær hefur vakið nokkrar vangaveltur á ritstjórn…

54 ár ago

Eru álfar kannski menn?

Kórónan hefur svo sannarlega kippt stórum hluta allrar starfsemi samfélagsins úr sambandi. Ein afleiðingin er…

54 ár ago

Daily Mail fær gæðavottun frá íslenska ríkinu

Tjáningarfrelsið á undir högg að sækja, líka í Evrópu. Og nú höfum við fengið staðfestingu…

54 ár ago