Við Darri fórum á kosningaskrifstofurúnt í gær. Fórum reyndar bara á þrjá staði, til VG, Samfó og Sjallanna. Ætluðum líka að kíkja á þá framsæknu en það var nú bara lokað hjá þeim.

Niðurstaðan er þessi:

Vg ætla að standa vörð um velferðarkerfið og stórefla nýsköpun í atvinnulífinu. Já og klappa gamla fólkinu. Og stórauka nýsköpun í atvinnulífinu. Einnig koma á stjórnlagaþingi og auka gegnsæi og stórauka nýsköpun í atvinnulífinu. Og hundsa ESB, ganga úr Nató og vera umhverfisvæn.

Sjálfstæðismenn ætla að standa vörð um velferðarkerfið og stórefla nýsköpun í atvinnulífinu. Já og klappa gamla fólkinu. Þeir ætla líka að gjörbreyta störfum Alþingis og auka gegnsæi. Og reisa álver af umhverfisástæðum. Guðlaugur Þór prýðir nú baksíðu kosningabæklingsins og þykir það mikil framför frá því að hafa hann á forsíðu. Þetta er reyndar ekki eina málið sem ég er sammála Sjálfstæðisflokknum um en án nokkurs vafa það mikilvægasta.

Samfó ætlar að standa vörð um velferðarkerfið og stórefla nýsköpun í atvinnulífinu. Já og klappa gamla fólkinu. Aukinheldur koma á stjórnlagaþingi og auka gegnsæi og hefja aðildarviðræður við ESB. Það Samfylkingarfólk sem ég talaði við vissi ekki hver stefna flokksins væri í umhverfismálum og lái því hver sem vill.

Ég kíki á restina í dag eða á morgun. Bara svona til gamans. Ég held svosem að hvaða flokkur sem er gæti stjórnað landinu af viti ef hann fengi til þess óskorað vald og þyrfti ekki að verja tímanum í froðusnakk, þras og misdónalegar hreytingar á orðunum ‘háttvirtur þingmaður’ og ‘hæstvirtur ráðherra’. (Ég mæli svona í framhjáhlaupi með að Alþingi taki upp hræsniskvóta og menn fái aðeins að nota þessi orð í litlu mæli en taki upp alþýðlegra orðfar á borð við ‘hlandstaðni skítaleppur’ og ‘rassgarnartottandi vangebblingur’ í staðinn.)

Jájá, ég held í alvöru að ég gæti treyst hvaða flokki sem er til að stjórna landinu þannig að meirihlutinn yrði þokkalega sáttur ef aðeins sá flokkur fengi alræðisvald í 4 ár. En því miður, ég er á móti alræðisvaldi, jafnvel þótt niðurstaðan yrði jeppi á hvert heimili, útrásarvíkingar látnir vinna við að skræla m&m, Ísland úr Nató og ríkið stæði alfarið kostnað af heilbrigðisþjónustu. Og þótt meirihlutinn yrði ánægður með að þurfa aldrei að hugsa neitt, þá bara hefur meirihlutinn ekki alltaf rétt fyrir sér.

admin

Recent Posts

Óþvegni ruddinn frá Nasaret

Mér hefur alltaf, frá því að ég var 7-8 ára, þótt Jesús frekar áhugaverður karakter.…

54 ár ago

Launasvik með andlitslyftingu

Það er ekkert nýtt að þeir sem vilja bæta ímynd sína taki upp ný orð…

54 ár ago

Facebook greiðir starfsfólki með geðröskun miskabætur

Facebook hefur samþykkt að greiða samanlagt 52 milljónir bandaríkjadala miskabætur til starfsfólks sem hefur fengið áfallastreituröskun vegna…

54 ár ago

Eru ráðherrar undanþegnir tveggja metra reglunni?

Mynd Ríkisútvarpsins frá blaðamannafundi í Safnahúsinu á Hverfisgötu í gær hefur vakið nokkrar vangaveltur á ritstjórn…

54 ár ago

Eru álfar kannski menn?

Kórónan hefur svo sannarlega kippt stórum hluta allrar starfsemi samfélagsins úr sambandi. Ein afleiðingin er…

54 ár ago

Daily Mail fær gæðavottun frá íslenska ríkinu

Tjáningarfrelsið á undir högg að sækja, líka í Evrópu. Og nú höfum við fengið staðfestingu…

54 ár ago