Íslendingar eru afskaplega þjóðernissinnaðir. Við erum stolt af okkar menningararfi og höfum, af landfræðilegum og menningarlegum ástæðum, líklega sterkari þjóðarvitund en margir aðrir hópar sem með misgóðum rökum skilgreina sig sem þjóð. Þjóðernishyggja á Íslandi er þó ekki hatursfull og fasísk eins og oft vill verða, hún er aðallega bara dálítið sveitaleg og í aðra röndina krúttleg.

Á stríðsárunum leitaði fjöldi Gyðinga til Íslendinga og bað um hæli í landinu og vernd gegn ofsóknum. Íslendingar sögðu nei. Yfirvaldið vísaði þessu fólki frá og ekki nóg með það heldur voru ekki færri en 9 Gyðingar reknir úr landi (Þór Whitehead segir 12 en mér finnst ekki skipta ölllu máli hver talan var heldur hitt að þetta gerðist.) Kannski tókst einhverjum þessara einstaklinga að flýja á náðir betra fólks en Íslendinga en ætla má að margir þeirra hafi farið hingað:

Hvað heitir það á mannamáli að senda fólk í svona aðstæður? Það heitir „Ísland fyrir Íslendinga“, „raunhæfar hugmyndir um hvað við getum tekið við miklu veseni frá óviðkomandi fólki“, „Okkar fólk fyrst“. Það heitir hugsanlega hófsöm þjóðernishyggja og þó varla. Allavega ekki nazismi. Enginn er nazisti nema hann beri hakakross.

Handhafar ríkisvaldsins hafa aldrei viðukennt að íslenska ríkið beri neina ábyrgð á Gyðingaofsóknum. Ég er ekki hissa. Auðvitað er afsökunarbeiðni frá svo stórri stofnun lítils verð en auk þess getur ríkisvaldið ekkert viðurkennt fyrri mistök án þess að endurskoða um leið þá stefnu sem það rekur gagnvart flóttamönnum enn í dag.

Á árunum 1996-2010 leituðu 736 nauðstaddir flóttamenn á náðir Íslendinga. Og undarlegt nokk, ekki vegna þess að Ísland sé svo æðislegt, heldur í flestum tilvikum vegna þess að þeir voru stöðvaðir á leið til Kanada. 77 fengu aðstoð eftir að hafa setið í fangelsi fyrir að vera útlendingar og beðið svo milli vonar og ótta í marga mánuði, sumir í mörg ár, án þess að eiga möguleika á því að vinna, fara í skóla, stofna fjölskyldu, ferðast eða gera yfirhöfuð neitt nema hanga og bíða. Það voru semsagt 77 sem hlutu náð fyrir augum Íslendinga. Hinir voru látnir róa. 185 gáfust upp þegar þeir sáu fram á margra ára limbó án raunhæfrar vonar og drógu umsóknir sínar til baka eða flúðu eitthvert annað. Hinir 208 voru handteknir og fluttir nauðugir í þessar aðstæður:

Þaðan voru þeir svo reknir heim til að lifa við örbirgð eða stríðsástand, nauðungarhjónabönd, þrældóm, nauðungarvændi, fangelsun vegna skoðana sinna, pyntingar eða aðrar póltískar ofsóknir, oftast margt af þessu í senn, sumir voru jafnvel sendir út í opinn dauðann.

Og þetta heitir ekki nazismi, enda er það svo afskaplega ljótt orð. Það er engin helför að leyfa öðrum að kúga eða drepa skitna 18-28 menn á ári (eftir því hvort maður reiknar þá með sem fóru sjálfviljugur eða aðeins þá sem voru fluttir í járnum.) Þetta heitir að virða samninga við aðrar þjóðir (sem vilja auðvitað ólmar fá sem flesta flóttamenn til sín.) Þetta heitir raunsæi og hófsemi. Við gerum þetta ekkert af því að okkur sé illa við þetta fólk, heldur af því að það tilheyrir okkur ekki. Af því að okkars erum þjóð en þeir ekki.

Það er ægilega dýrt fyrir samfélagið að taka á móti flóttamönnum bara til að senda þá burt aftur. Fyrst þarf að útvega þeim fangavist á kostnað ríkisins, svo þarf að banna þeim að vinna og borga þeim í staðinn dagpeninga og hýsa þá á gistiheimili fjarri öllum stofnunum og samtökum sem vilja rétta þeim hjálparhönd og að lokum þarf að borga löggunni stórfé fyrir að rífa þá upp úr rúmi, handjárna þá og koma þeim í flug, sem vitanlega þarf að borga líka. Þetta er auðvitað bara rugl. Það væri miklu hagkvæmara að koma bara upp litlum klefa með góðu gasgrilli í fullorðinsstærð. Það mætti skreyta klefann með mynd af sauðkind til að gera hann þjóðlegri. Auk þess væri eflaust hægt að fá vaskan gassölumann, svokallaðan sölumann dauðans, til að gefa gasið, út á auglýsingu á RÚV. „Hæ, Gulli gas hér; við erum að gasa flóttamann, og svo bara grilla og tsjilla!“

Neinei, svoleiðis myndum við aldrei gera því nazismi þrífst ekki á Íslandi nema þá kannski í sköpunarhreyfingunni. Hér ríkir aðeins ósköp hófsamleg þjóðernishyggja. Þessi sem heldur Íslendingasögunum á lofti, finnst Skagafjörður fegursti staður á jarðríki og sendir útlendinga í klærnar á yfirvöldum sem handarhöggva þjófa og hýða fórnarlömb kynferðisofbeldis. Við erum nefnilega svo mikil krútt og svo borðum við líka SS pylsur. Í lopapeysum sko en ekki jökkum skreyttum hakakrossi eða neitt svoleiðis ógeð. Og það er ekki það að við viljum neinum illt. Við höfum bara svo rosalega mikið nóg með að hjálpa sjálfum okkur að við höfum ekkert efni á því að láta SS pylsuna standa í okkur á meðan við hugsum um manneskju sem heitir Wali Safi, sveltandi í Grikklandi eða manneskju sem heitir Ilyas Sultani í höndum taliba. Þetta er ósköp þjóðlegt allt saman.

Um daginn reiddist ég Stefáni Snævarr hrottalega. Hef verið frekar upptekin af vaxandi útlendingahatri á Íslandi undanfarið og sprakk gersamlega þegar ég sá fræðimann kalla það „alþjóðarembu“ að leggja sig fram um að uppræta alla þjóðrækni að því marki sem hún bitnar á manneskjum. Látum það vera þótt nýnazistakjánar bulli en þegar menn sem tekið er mark á fordæma ekki þjóðernishyggju þá er nú ástandið orðið svart. Mér fannst hann sem fræðimaður hreinlega ekki hafa neinn rétt til þess að sitja í fílabeinsturni og tala um þjóðernishyggju sem einhverskonar Framsóknarrómantík á sama tíma og útlendingahatur er að ryðja sér til rúms á Íslandi. Ég vænti ekki mikils af fræðimannasamfélaginu en það hefur þó ríkt nokkuð góð sátt um það meðal sagnfræðinga og heimspekinga að líta þjóðernishyggju neikvæðum augum, mér fannst Stefán vera að rjúfa einhverskonar hollustuhefð með því að blaka við alþóðasinnum og ég kallaði hann m.a.s. nazista.

Það var ómaklegt af mér því Stefán Snævarr er enginn nazisti. Ekki frekar en fólkið sem finnst Jónas Hallgrímsson svo þjóðlegur að það tekur engan séns á að klúðra ítölsku sonnettunni hans með því að bjarga lífi einhvers ókunnugs halanegra. Og líklega enn síður, því Stefán varar þó allavega við því að halda aðeins á lofti þeim verkum forfeðranna sem við erum stolt af en gleyma skömminni.

Þetta var ómaklegt af því að Stefán hefur að sjálfsögðu fullan rétt á að kalla það alþjóðarembu að vilja uppræta algerlega allt daður við þá hugmynd að menning okkar sé svo merkileg að það megi halda öðru fólki niðri vegna hennar eða þvinga það til að taka upp okkar venjur. Ég er því ósammála en ég hefði átt að svara á allt annan hátt. Það að slengja fram gildishlöðnu orði, bendir til tilfiningalegs uppnáms en ekki vilja til að halda uppi gagnlegum samræðum.

Þetta var ómaklegt af mér vegna þess að hlutverk háskólans og fræðimanna er ekkert og hefur ekki verið það sem ég vil að það sé, að vera broddfluga á samfélaginu, það er ekki hlutverk menntamanna heldur anarkista og skálda. Hlutverk fræðimannsins er ekki það að vera pólitískt afl, heldur að skrifa námsefni sem er til þess fallið að ala upp fleiri Framsóknarmenn (Framsóknarmenn í merkingunni miðjumoðarar sem halda að með því að taka enga alvöru afstöðu, komist þeir bara upp með að styggja engan, þetta fólk finnst í öllum flokkum.) Eina krafan sem ég get gert til fræðimanna er sú að þeir fari rétt með heimildir.

Þetta var ómaklegt af mér vegna þess að ég get ekkert ætlast til þess að Stefán eða neinn annar, hafi skilning á því hversvegna ofstækisfullir alþjóðasinnar álíta að eina leiðin til að skapa friðsamlegt samfélag í Evrópu, sé að hafna algerlega öllum hugmyndum um að okkar fólk og siðir og menningararfur séu eitthvað merkilegri en menning annarra.

Það er ekki við öðru að búast en að fólk fari að efast um að maður sé með réttu ráði þegar maður er farinn að sjá nazima í jafn lúðalegri þjóðrembu og því að líta á SS pylsur sem sameiningartákn. Og já, ég er að reyna að koma því til skila að þetta ofstækisfulla viðhorf mitt, að þjóðernishyggja sé ekki skárri undir merkjum hófs og skynsemi, á sér háalvarlegar ástæður. Ég vil helst að sem flestir viti hvers vegna mér finnst þjóðernishyggja vera einhver mesta meinsemd sem fyrirfinnst í vestrænum samfélögum í dag og ég vil líka gjarnan koma til skila þeirri skoðun að háskólafólk, fjölmiðar og jafnvel stofnanir eins og kirkjan, ættu að hætta að gefa sig út fyrir að vera hlutlaus. Ég er hinsvegar ekki að reyna að réttlæta það að hafa notað orðið nazismi um allar tegundir þjóðernishyggju. Ég átti ekkert með það og allra síst í samfélagi sem lítur ekki á það sem neitt athugavert að brjóta kerfisbundið gegn mannréttindum flóttafólks. Samfélagi sem heldur að nazismi sé bara það að reka útrýmingarbúðir en ekki að senda fólk í þær. Auk þess er það rétt hjá Hermanni Stefánssyni að það er varasamt að gengisfella hugtök og þótt mér finnist öll þjóðernishyggja ógeðfelld þá er í alvöru langur vegur á milli þess að veifa fána og reka útrýmingarbúðir.

Ég biðst því afsökunar á því að hafa kallað Stefán Snævarr nazista. Ekki af því að ég hafi áhyggjur af því að hann vilji lögsækja mig, (það er honum eftir sem áður velkomið því hvorki óttast ég yfirvaldið né ber ég sérstaka virðingu fyrir álit þess á því hvað megi segja) heldur vegna þess að ég missti stjórn á skapi mínu og kom illa fram við hann að ósekju.

admin

Recent Posts

Óþvegni ruddinn frá Nasaret

Mér hefur alltaf, frá því að ég var 7-8 ára, þótt Jesús frekar áhugaverður karakter.…

54 ár ago

Launasvik með andlitslyftingu

Það er ekkert nýtt að þeir sem vilja bæta ímynd sína taki upp ný orð…

54 ár ago

Facebook greiðir starfsfólki með geðröskun miskabætur

Facebook hefur samþykkt að greiða samanlagt 52 milljónir bandaríkjadala miskabætur til starfsfólks sem hefur fengið áfallastreituröskun vegna…

54 ár ago

Eru ráðherrar undanþegnir tveggja metra reglunni?

Mynd Ríkisútvarpsins frá blaðamannafundi í Safnahúsinu á Hverfisgötu í gær hefur vakið nokkrar vangaveltur á ritstjórn…

54 ár ago

Eru álfar kannski menn?

Kórónan hefur svo sannarlega kippt stórum hluta allrar starfsemi samfélagsins úr sambandi. Ein afleiðingin er…

54 ár ago

Daily Mail fær gæðavottun frá íslenska ríkinu

Tjáningarfrelsið á undir högg að sækja, líka í Evrópu. Og nú höfum við fengið staðfestingu…

54 ár ago