Aðild mín að meintu hryðjuverki gegn Alþingi

Ég hef sent frá mér eftirfarandi bréf


Ríkislögreglustjóri; Haraldur Johannessen
Ríkissaksóknari; Valtýr Sigurðsson/Lára V. Júlíusdóttir
Forseti Alþingis; Ásta R. Jóhannesdóttir


Yfirlýsing um aðild að uppákomunni í Alþingishúsinu þann 08.12.2008

Ég, Eva Hauksdóttir (kt.010767-5559) lýsi hér með yfir beinni aðild minni að þeim atburði sem varð í Alþingishúsinu þann 8. desember 2008, þegar almennir borgarar nýttu sér lögvarinn rétt sinn til að mæta á þingpalla en voru bornir út og sumir handteknir, síðar sakaðir um að stefna sjálfræði þingsins í hættu.

Aðild mín felst í þátttöku í skipulagningu aðgerðarinnar, m.a. því að skrifa yfirlýsingu sem fólkið sem fór inn í Alþingishúsið hugðist lesa upphátt á þingpöllum og dreifingu þeirrar yfirlýsingar, ásamt öðru plaggi þar sem hvatt er til fleiri slíkra aðgerða. Auk þess hvatti ég fólkið eindregið til að fara á þingpallana í þessum tilgangi og lýsti síðar yfir stuðningi mínum við aðgerðina á mörgum vefsíðum þar sem fjallað var um málið.

Greinargerð

Þann 8. desember 2008 sat ég fund 34 almennra borgara sem töldu nauðsynlegt að koma stjórnvöldum í skilning um að þau hefðu brugðist hlutverki sínu og bæri því að víkja. Áttu þeir sem fundinn sátu fátt sameiginlegt, annað en að álíta tímabært að grípa til róttækari aðgerða en hefðbundinna útifunda, til að koma á viðunandi stjórnarfari í landinu. Var markmiðið með fundinum að skipuleggja eina slíka aðgerð.

Strax í upphafi fundarins kom fram sú skoðun að þar sem hópurinn væri stór, margir væru að sjást í fyrsta sinn og sumir hefðu aldrei tekið þátt í róttækum mótmælaaðgerðum, væri nauðsynlegt að hafa aðgerðina einfalda. Einnig vildi sá sem tók til máls vera þess fullviss að aðgerðin yrði innan ramma laganna. Hlaut þessi skoðun almennar undirtektir. Jafnframt var þó talið nauðsynlegt að ganga lengra en að veifa skilti og hrópa slagorð enda höfðu yfirvöld ekki tekið minnsta mark á slíkum aðgerðum sem þúsundir manna höfðu staðið í, þá á þriðja mánuð. Ýmsar hugmyndir komu fram en sú sem varð fyrir valinu fólst í því að fjölmenna á þingpalla og hvetja þingmenn til að segja skilið við stjórnkerfi sem greinilega þjónaði hagsmunum auðmanna betur en almenningi. Var lagasafn skoðað og auk þess rifjuð upp atvik þar sem almennir borgarar höfðu mætt á þingpalla í fortíðinni og töldu allir viðstaddir það hafið yfir vafa að almenningi væri heimilt að mæta á þingpalla.

Ég tók sjálf að mér að semja tillögu að yfirlýsingu sem breyttist svo lítillega eftir að hún var borin undir aðra fundarmenn. Niðurstaðan varð svohljóðandi.

Alþingi á að vera vettvangur samráðs og lýðræðis. Hlutverk Alþingis er að setja lög, almenningi til verndar og heilla. Alþingi sem þjónar hagsmunum auðvaldsins og bregst skyldum sínum gagnvart almenningi er ekki Alþingi fólksins.

Þetta hús þjónar ekki lengur tilgangi sínum, þessvegna skorum við á ykkur þingmenn að ganga héðan út.

Þessa yfirlýsingu prentaði ég út í ca 100 eintökum og tók þátt í að dreifa henni á götum úti. Ætlunin var að þeir sem færu upp á þingpallana læsu yfirlýsinguna upp en þar sem brotið var á rétti fólks til að ganga upp á pallana varð ekkert af því.

Einnig skrifaði ég annan texta sem var ætlað að útskýra aðgerðina eftir á og hvetja til fleiri aðgerða af svipuðu tagi. Þeim texta hef ég týnt en efni hans var á þá leið að þegar stjórnvöld hunsi hróp almennings fyrir utan opinberar byggingar, þá sé rökrétt að fara þangað inn og freista þess að ná áheyrn. Þessum texta var dreift í um 50 eintökum.

Ég reiknaði lengi með því að hinum fíflalega málatilbúnaði á hendur níu einstaklingum úr hópi um 30 manns sem fóru inn í Alþingishúsið þennan dag, yrði vísað frá dómi. Svo er þó að sjá sem Alþingi og ríkissaksóknari séu staðráðin í því að halda uppi pólitískum ofsóknum á hendur því fólki sem dirfist að mótmæla valdhöfum. Einn þáttur í kúgunaraðgerðum yfirvalda gagnvart lýðræðinu er að halda til streitu ákærum á hendur níu manns sem valdir voru af handahófi úr hópi um 30 friðsamra mótmælenda.

Nú hefur loksins komið fyrir almenningssjónir myndbandsupptaka sem sýnir svo ekki verður um villst, að það sem raunverulega gerðist þennan dag var hvorki til þess fallið að skerða sjálfræði Alþingis né fól í sér ofbeldi af nokkrum toga og ætti það að fullvissa hvern hugsandi mann um fáránleika þessara málaferla. Enda þótt málið sé allt of ómerkilegt til að eiga erindi við dómstóla og það hefði aldrei hvarflað að mér að lýsa yfir nokkurskonar ’sekt’, hefði þetta gerst í siðmenntuðu samfélagi, get ég ekki látið pólitískar ofsóknir á hendur félögum mínum viðgangast án þess að mín aðild komi fram.

Ég ítreka því aðild mína eins og henni er lýst hér að ofan og fer þess á leit að mér verði send stefna á heimilisfangið

Bytoften 7a, Bovrup
6200 Aabenraa
Danmörk.
Með kveðju (en án tiltakanlegrar virðingar)
Eva Hauksdóttir

Eva Hauksdóttir

Recent Posts

Óþvegni ruddinn frá Nasaret

Mér hefur alltaf, frá því að ég var 7-8 ára, þótt Jesús frekar áhugaverður karakter.…

54 ár ago

Launasvik með andlitslyftingu

Það er ekkert nýtt að þeir sem vilja bæta ímynd sína taki upp ný orð…

54 ár ago

Facebook greiðir starfsfólki með geðröskun miskabætur

Facebook hefur samþykkt að greiða samanlagt 52 milljónir bandaríkjadala miskabætur til starfsfólks sem hefur fengið áfallastreituröskun vegna…

54 ár ago

Eru ráðherrar undanþegnir tveggja metra reglunni?

Mynd Ríkisútvarpsins frá blaðamannafundi í Safnahúsinu á Hverfisgötu í gær hefur vakið nokkrar vangaveltur á ritstjórn…

54 ár ago

Eru álfar kannski menn?

Kórónan hefur svo sannarlega kippt stórum hluta allrar starfsemi samfélagsins úr sambandi. Ein afleiðingin er…

54 ár ago

Daily Mail fær gæðavottun frá íslenska ríkinu

Tjáningarfrelsið á undir högg að sækja, líka í Evrópu. Og nú höfum við fengið staðfestingu…

54 ár ago