Eins og ég er mótfallin ríkisvaldi, hef ég samt samúð með alþingismönnum og öðrum stjórnmálamönnum. Þetta eru andstyggileg störf að því leyti að það er nánast útilokað að gera neitt sem ekki er líklegt að verði gagnrýnt harkalega.

Stjórnmálamenn eru daglega gagnrýndir fyrir að hlusta ekki á almenning. Þegar einhver þeirra svo gerir það og tekur jafnvel undir þær skoðanir sem fram koma, er hann ásakaður um lýðskrum.

Dorrit Moussajeff klifraði yfir girðingu í gær og vitanlega hlýtur það að vera athyglissýki og lýðsskrum. Það er fyrirfram útilokað að hún sé einfaldlega forvitin um það hvað er eiginlega að gerast og vilji fá einhverjar upplýsingar frá fyrstu hendi. Fáum dettur í hug að hún hafi sjálf efast um að stjórnskipulag okkar og hagkerfi sé réttlátt og heillist því af þeim sem gagnrýna það. Engar líkur á að hún hafi sjálf lítinn skilning á því að skrímsli sem heita hagkerfi, verðtrygging og stýrivextir geti ráðskast með líf fólks og gert íbúa svo auðugs lands að öreigum og hafi því samúð með fólkinu sem heimtar skýringar. Og síst dettur fólki í hug að hún hafi jafnvel einhverjar upplýsingar sem hún veit ekki hvað hún á að gera við.

Ég sá að einhver mannvitsbrekkan var líka að hnýta í hana fyrir að fara inn í kristna kirkju. Ef hún hefði ekki gert það hefði hún eflaust verið gagnrýnd fyrir trúarhroka.

Þegar forsetafrú klifrar yfir girðingu er hægt að horfa á það frá amk þremur sjónarhornum. Kannski er hún að snobba niður á við og finnur til sín við að fá knús og klapp á bakið frá þeim sem finnst hún vera að sýna sér heiður með því. Ekki sé ég að það skaði neinn. Kannski er hún bara að ögra Ólafi. Só? Og kannski er eitthvað jákvætt við það að fígúra í virðingarstöðu sýni þeim áhuga sem mótmæla ákvörðunum alþingis.

Það sem ég hef engan séð gagnrýna enn er þó hin undarlega frétt um að lögreglan hafi reynt að stoppa hana. Var lögreglan ekki þarna til að varna því að óður múgurinn kæmist að alþingishúsinu? Hvaða heimild hefur lögreglan til að hindra ferðir Dorritar Moussajeff? Auðvitað hefur hún það ekki og reyndar sé ég það ekki á myndbandinu að neinn hafi reynt að hindra hana. Er DV nokkuð að ljúga eða vantar eitthvað í myndskeiðið? Það er allavega á hreinu að löggan var ekki þarna til að verja Austurvöll fyrir Dorrit.

Þessi gjörningur Dorritar er merkilegri en ætla mætti við fyrstu sýn. Ef þetta hefði verið öfugt, ef eitthvert noboddý í hagkaupskápu hefði klifrað yfir girðinguna hinummegin frá, hefði viðkomandi verið handtekinn, járnaður og laminn í löggubílnum (það virðast vera stöðluð vinnubrögð lögreglunnar að lemja fólk á leiðinni á stöðina.) Þegar aftur á móti fín kona í fínni kápu klifrar í „öfuga“ átt og lætur bara ekkert stoppa sig, þá hriktir nú aldeilis í stoðum valdsins. Þessi girðing er semsagt ekki heilög? Það má semsagt ekki lemja alla sem fara yfir hana? Og hvað ef má fara yfir hana úr þessari átt? Má þá samt handtaka, járna og lemja þá sem fara yfir hana úr hinni áttinni.

Í gær vakti Dorrit Moussajeff athyglisverða spurningu; hvað gerist ef þingmenn og aðrir ráðamenn neita að taka þátt í aðskilnaðarhyggjunni? Hvað ef 3 þingmenn, 10 þingmenn eða 20, fara út og klifra yfir girðinguna, yfir til fólksins sem vill breytingar, ekki skítareddingar heldur raunverulegar breytingar? Hvað ef fólk neitar að taka girðingar alvarlega? Annað sem kom í ljós, sá sem kemur til fólksins er ekki grýttur og barinn, heldur kysstur og knúsaður. Fólk er ekki eins hættulegt og ætla mætti, það bara vill ekki láta hundsa sig.

Hvort sem Dorrit Moussajeff er lýðskrumari eða hetja, þá vakti hún þessa spurningu, meðvitað eða ómeðvitað. Löggan hefur ekkert vald til að stöðva hana, þingmenn eða neinn annan í því að ganga frá alþingishúsinu og út á Austurvöll og kannski er það einmitt það sem þarf að gerast. Kannski er besta leiðin til að bylta kerfinu ekki sú að „okkars“ rjúfum borða og girðingar og göngum (eða ryðjumst) inn í byggingar þess og aðrar tákmyndir, heldur að „þeir“ komi út.

admin

Recent Posts

Óþvegni ruddinn frá Nasaret

Mér hefur alltaf, frá því að ég var 7-8 ára, þótt Jesús frekar áhugaverður karakter.…

54 ár ago

Launasvik með andlitslyftingu

Það er ekkert nýtt að þeir sem vilja bæta ímynd sína taki upp ný orð…

54 ár ago

Facebook greiðir starfsfólki með geðröskun miskabætur

Facebook hefur samþykkt að greiða samanlagt 52 milljónir bandaríkjadala miskabætur til starfsfólks sem hefur fengið áfallastreituröskun vegna…

54 ár ago

Eru ráðherrar undanþegnir tveggja metra reglunni?

Mynd Ríkisútvarpsins frá blaðamannafundi í Safnahúsinu á Hverfisgötu í gær hefur vakið nokkrar vangaveltur á ritstjórn…

54 ár ago

Eru álfar kannski menn?

Kórónan hefur svo sannarlega kippt stórum hluta allrar starfsemi samfélagsins úr sambandi. Ein afleiðingin er…

54 ár ago

Daily Mail fær gæðavottun frá íslenska ríkinu

Tjáningarfrelsið á undir högg að sækja, líka í Evrópu. Og nú höfum við fengið staðfestingu…

54 ár ago