Ég var í 3ja bekk í grunnskólanum í Njarðvík.

Kennarinn minn, Ester, hélt vinnubók eins drengjanna á lofti og fyrirlitningin skein af henni. Það voru grautarklessur á bókinni.
-Grautarklessur, hafiði vitað annað eins! 
Drengurinn sökk lengra og lengra niður á meðan hún flutti fyrirlestur um meðferð bóka og almenna snyrtimennsku og æ síðan hefur mér verið ljóst að þeim verður snarlega úthýst úr himnaríki sem klessa graut á bækur. Aldrei klessi ég graut á bækur. Ég þori ekki einu sinni að skrifa í þær.

Flóran er falleg bók. Einhverjum datt í hug að búa til nýtt listaverk úr henni með því að klína hana út í mat. Það hljómar satt að segja eins og mjög vont listaverk. Allavega hefði hún Ester ekki tekið þá skýringu gilda að nemandinn ósiðlegi hefði verið að fremja listgjörning þegar hann sullaði graut á bókina sína.

En á hinn bóginn; ef er hægt að banna fólki að klína graut á bók opinberlega, er þá ekki líka bannað að fara illa með bækur heima hjá sér? Kemur löggan ef ég sulla graut á vinnubókina mína? Eða þarf það að vera óvenjufalleg bók til að teljast lögbrot? Má sulla graut á ljótar vinnubækur á opinberum vettvangi?

Eru bókabrennur ólöglegar? Má ég setja gömlu vinnubækurnar á áramótabrennu? En aðrar bækur? Ljótar bækur? Hvað með 3ja árgang af Mannlífi? Kemur löggan ef ég kveiki í klámblaði opinberlega? Eða þarf það að vera falleg bók til að teljast glæpur?

Ég má ekki búa til grautarlistaverk úr blómabók, gott og vel, fínt að hafa það á hreinu. En má ég yrkja kvæði um Bjart í Sumarhúsum? Má ég skrifa skopstælingu á þekktu verki? Af hverju eru Spaugstofumenn ekki bak við lás og slá? Má snúa út úr verkum annarra ef útkoman er fyndin en ekki ef hún er subbuleg? Má ég myndskreyta kvæði eftir Einar Ben? Má ég skreyta það með ljótum myndum? Mega myndirnar vera úr graut? Mega leikstjórar staðfæra leikverk og setja gamla atburði í nýtt samhengi? Brýtur maður sæmdarrétt stjórnmálamanns með því að teikna af honum skopmynd og afhjúpa tvískinnung eða heimsku með beinni tilvitnun í bók eða grein eftir hann?

Undarlegar eru kröfur dagsins. Pólitískur húmor skal vera smekklegur takk og listamenn sem byggja á list annarra eða setja hana í nýtt samhengi, skulu ekki dirfast að draga í efa viðteknar hugmyndir um fegurð. Blóm SKULU teljast fögur. Grautarklessur SKULU teljast ljótar og ósmekklegar.

Er virkilega hægt að banna tilraunir til að kollvarpa rótgrónum hugmyndum? Er hægt að banna vonda list?

admin

Recent Posts

Óþvegni ruddinn frá Nasaret

Mér hefur alltaf, frá því að ég var 7-8 ára, þótt Jesús frekar áhugaverður karakter.…

54 ár ago

Launasvik með andlitslyftingu

Það er ekkert nýtt að þeir sem vilja bæta ímynd sína taki upp ný orð…

54 ár ago

Facebook greiðir starfsfólki með geðröskun miskabætur

Facebook hefur samþykkt að greiða samanlagt 52 milljónir bandaríkjadala miskabætur til starfsfólks sem hefur fengið áfallastreituröskun vegna…

54 ár ago

Eru ráðherrar undanþegnir tveggja metra reglunni?

Mynd Ríkisútvarpsins frá blaðamannafundi í Safnahúsinu á Hverfisgötu í gær hefur vakið nokkrar vangaveltur á ritstjórn…

54 ár ago

Eru álfar kannski menn?

Kórónan hefur svo sannarlega kippt stórum hluta allrar starfsemi samfélagsins úr sambandi. Ein afleiðingin er…

54 ár ago

Daily Mail fær gæðavottun frá íslenska ríkinu

Tjáningarfrelsið á undir högg að sækja, líka í Evrópu. Og nú höfum við fengið staðfestingu…

54 ár ago