Ríkið hefur ákveðið að fjórfalda framlag sitt til svokallaðra „afreksíþrótta“. Ekki til íþróttahreyfingarinnar almennt heldur til afreksíþrótta. 300 milljóna aukaframlag í tiltölulega fámennan hóp sem gerir ekkert sérstakt gagn. Hversvegna í fjandanum? Ég spurði að því á Fésinu í gær og ekki stóð á svörum. Netverjar töldu þetta gott mál af því að íþróttamenn eru svo góðar fyrirmyndir fyrir börn og unglinga og af því að það er svo gott fyrir þjóðarsálina þegar Íslendingum gengur vel í íþróttum á alþjóðavettvangi.

Þetta aukaframlag hefur náttúrulega ekkert með fyrirmyndir að gera. Styrkur til afreksfólks skilar sér ekki í bættri lýðheilsu og ef markmiðið væri að bæta lýðheilsu eða efla áhuga meðal barna þá hefði verið ákveðið að setja þennan pening í barnastarf eða greiða niður aðgang almennings að íþróttastarfi.

Seinni skýringin er mun sennilegri. Það er vissulega gaman og gott fyrir sameiningarandann að Íslendingur skori mark eins og sýndi sig rækilega þegar Íslendingar streymdu í tugþúsundatali á Arnarhól til að hrópa huh! En heldur fólk í alvöru að ríkisstjórnin ætli að setja 300 milljónir í það eitt að gleðja okkur? Heldur fólk virkilega að það búi ekkert meira að baki?

Áður en við gírum okkur upp fyrir næsta hóprunk skulum við staldra við og spyrja hvað er unnið við að hafa lýðinn á samfelldu þjóðrembufylleríi í marga daga. Hverjum er það til hagsbóta að þjóðin missi hreinlega áhugann á öllu öðru en gengi afreksmanns eða íþróttaliðs á stórmóti? Hverjum kemur það til góða þegar blaðamenn sinna nánast engu öðru en einu íþróttamóti í marga daga? Þegar 14 fréttir af 16 snúnast um eitt mark? Það skyldi þó ekki vera að sú hugmynd Rómverja, að með því að sjá lýðnum fyrir brauði og leikum sé hægt að komast upp með gerræðislega stjórnarhætti og slælega þjónustu, sé ennþá í fullu gildi?

Það er svo umhugsunarvert að karlalandsliðið í fótbolta skoraði þetta sögufræga mark án 300 milljóna aukaframlags. Ef þjóðrembuhóprunk á Arnarhóli og tveggja vikna frí frá áhuga fjölmiðla á brölti stjórnvalda kostar 100 milljónir, hvað fá ráðamenn þá fyrir 300 millur í viðbót?

Eva Hauksdóttir

Recent Posts

Óþvegni ruddinn frá Nasaret

Mér hefur alltaf, frá því að ég var 7-8 ára, þótt Jesús frekar áhugaverður karakter.…

54 ár ago

Launasvik með andlitslyftingu

Það er ekkert nýtt að þeir sem vilja bæta ímynd sína taki upp ný orð…

54 ár ago

Facebook greiðir starfsfólki með geðröskun miskabætur

Facebook hefur samþykkt að greiða samanlagt 52 milljónir bandaríkjadala miskabætur til starfsfólks sem hefur fengið áfallastreituröskun vegna…

54 ár ago

Eru ráðherrar undanþegnir tveggja metra reglunni?

Mynd Ríkisútvarpsins frá blaðamannafundi í Safnahúsinu á Hverfisgötu í gær hefur vakið nokkrar vangaveltur á ritstjórn…

54 ár ago

Eru álfar kannski menn?

Kórónan hefur svo sannarlega kippt stórum hluta allrar starfsemi samfélagsins úr sambandi. Ein afleiðingin er…

54 ár ago

Daily Mail fær gæðavottun frá íslenska ríkinu

Tjáningarfrelsið á undir högg að sækja, líka í Evrópu. Og nú höfum við fengið staðfestingu…

54 ár ago