Það hefur verið skítkalt í Glasgow síðustu vikurnar og ég legg til að Global Warming verði rekinn. Þetta er bara engin frammistaða. Nújæja, það þýðir víst ekkert að láta það brjóta sig niður svo við erum að fara til Úganda um mánaðamótin. Þar er fullkomið veðurfar árið um kring, svona á bilinu 20-25°C og við verðum hjá vini sem þekkir allar aðstæður. Ég píndi Eynar til að fá sér snjallsíma bara af því að ég vil hafa myndavél sem ég ræð við. Helst vildi ég auðvitað hafa Ingó með en það er nú eins og það er.

– Gerirðu þér grein fyrir því að við erum að fara til Afríku? Við erum að fara í safarí-ferð, það eru gíraffar og meira að segja fílar í þjóðgarðinum. Kannski sjáum við apa, kannski ljón! segi ég á innsoginu og reyni að hugsa sem minnst um barnaþrælkun, hommahatur og pólitískar ofsóknir.
– Ég hef séð bæði apa og ljón í sjónvarpinu segir Eynar og lætur sér fátt um finnast, rétt eins og apar og ljón séu álíka spennandi og moskítóflugur. Maðurinn hefur aldrei komið í dýragarð og segist ekki hafa neina þörf fyrir það á tímum internets. Samt heldur hann því fram að maður sjái landslag ekki almennilega nema brölta upp á fjall og finnst ég stórskrýtin þegar ég segist hafa séð bæði fjöll og sjó á póstkorti. Sem betur fer eru líka fossar á svæðinu svo Eynar getur þá horft á fossa á meðan ég horfi á fílana.

Ég er að fara að hitta þennan

– Einhverntíma langar mig að fara til Egyptalands, segi ég. Eynar er svosem til í það en í augnablikinu er hann spenntari fyrir Grikklandi. Langar mig þangað? Fokk já!
– Svo þurfum við að fara til Bandaríkjanna. Þú þarft að sjá Berkeley, segir Eynar. Heldur svo áfram að tala um Grikkland. Kannski ættum við að fara þangað á næsta ári?

Mig langaði aldrei sérstaklega að ferðast fyrr en ég fór til Palestínu 2008. Ég hefði auðvitað gjarnan viljað það ef ég hefði fengið happdrættisvinning en ég hafði ekkert efni á að ferðast og það er tilgangslaust að vera spenntur yfir einhverju sem er ekki raunhæft. Ég fór til Palestínu af því að mig langaði að styðja málstað Palestínumanna en ekki af ferðaþrá en ferðin varð miklu áhugaverðari en mér hafði dottið í hug og síðan hefur mig langað að sjá meira. Einhverntíma.

Einhverntíma ætla ég að sjá meira af Mið-Austurlöndum. Einhverntíma ætla ég til Egyptalands. Einhverntíma ætla ég að sjá Grænland, Grikkland, Bandaríkin, Indland, Kína, Austur Afríku…

Og allt í einu rennur það upp fyrir mér: Þetta „einhverntíma“ er komið.

Deila færslunni

Eva Hauksdóttir

Share
Published by
Eva Hauksdóttir

Recent Posts

320 dögum síðar

Benjamin Julian tók myndina Sennilega hefur mér aldrei orðið minna úr verki en árið 2018.…

54 ár ago

Góðra vina fundur

Mér finnst þessi mynd svo táknræn. Katrín Jakobsdóttir í snertifæri við bæði Theresu May og Erdoğan.…

54 ár ago

Fjórum mánuðum síðar

Í dag er ársfjórðungur síðan fréttist að bandamenn okkar í Nató hefðu drepið Hauk í…

54 ár ago

My Reply to Turks’ Hatemail

Dear Erdoğan worshippers who have been sending me hate mail Do you really think that…

54 ár ago

Svar mitt við haturspóstum Tyrkja

Originally published in English Kæru Erdoğandýrkendur sem hafið sent mér haturspósta Haldið þið virkilega að…

54 ár ago

Yfirlýsing vegna fánabrennu

Kallað hefur verið eftir skýringum á því tiltæki að brenna tyrkneska fánann framan við Utanríkisráðuneytið…

54 ár ago