Það fór nú aldrei svo að við fengjum ekki trúverðugar skýringar á uppákomunni í Kópavogi á dögunum. Sjálfstæðismaðurinn sem kynnti sig sem lögreglumann og hótaði að henda hælisleitendum út hefur nú útskýrt hvað gerðist. Hann ætlaði sér að segja; „I was a policeman“ en þar sem hann er ekki sérfræðingur í ensku varð honum það á að nota nútíðarmynd sagnarinnar að vera.
Að vísu er sögnin að vera með því allra fyrsta sem börnum er kennt þegar þau hefja enskunám í grunnskóla og enska hefur verið skyldunámsgrein frá árinu 1946. Skýringin gæti verið sú að umræddur Sjálfstæðismaður er kominn á eftirlaun og hefur líklega hafið störf hjá lögreglunni áður en farið var að gera þá kröfu að lögreglumenn hefðu að baki grunnskólagöngu.
Hér sannast að hlutirnir eru alls ekki alltaf eins og þeir líta út fyrir að vera. Samkvæmt 116. gr. almennra hegningarlaga varðar það refsingu að taka sér opinbert vald. Nú vitum við að það var alls ekki það sem vakti fyrir hinum borgaralega friðarstilli, heldur fann hann aðeins hjá sér þörf til að ræða ferilská sína. Það verður að teljast trúleg skýring enda hefur Dale Carnegy bent á að flest fólk telji starfsferil sinn einhverja áhugaverðurstu sögu sem sögð hefur verið. Hver hefur ekki lent í því að hóta fólki valdbeitingu með orðunum: „ég var einu sinni flugfreyja“ eða „ég var einu sinni byggingaverkamaður“? Það er ekki nema von að maður sem ekki er sérfræðingur í ensku klikki á þátíðinni þegar frásagnargleðin grípur hann.
Hið nýja orðatiltæki sem bæjarstjóri Kópavogs tók upp á sama fundi virðist þó ekki eiga sér rætur í takmarkaðri tungumálakunnáttu. Að eigin sögn orti bæjarstjóri orðatiltækið „í hita leiksins“. Nánar tltekið sagði bæjarstjóri; „þessir tveir herramenn hérna eru lögreglan, svo við munum bara nota þá“. Ef ekki væri hér um orðatiltæki að ræða, mætti ætla að með þessu hafi bæjarstóri gefið til kynna að hann myndi hvetja fyrrverandi lögreglumenn til þess að taka sér opinbert vald. Það er refsivert sbr. 121. gr. almennra hegningarlaga:
Hver, sem opinberlega hvetur menn til refsiverðra verka, skal sæta … 1) fangelsi allt að 2 árum, eða sektum, ef málsbætur eru, nema brot hans varði þyngri refsingu að lögum.
Til allrar gæfu var alls ekkert slíkt sem vakti fyrir bæjarstjóra, hann tók bara svona til orða.