Fyrir rétt rúmu ári lýstu GRECO (samtök ríkja gegn spillingu) því yfir að nauðsynlegt væri að aðskilja íslensku lögregluna og Sjálfstæðisflokkinn. Ekki fer sögum af viðbrögðum ríkisstjórnarinnar við þeirri ábendingu.

Í dag birti Vilhjálmur Þorsteinsson myndskeið frá fundi í Kópavogi þar sem Sjálfstæðisflokkurinn fjallaði um þriðja orkupakkann. Uppbrot varð á fundinum þegar hælisleitandi reyndi að ná athygli starfandi dómsmálaráðherra sem var stödd á fundinum. Flóttamenn sem dvelja á Ásbrú hafa undanfarið reynt ýmsar friðsamlegar aðferðir til að ná áheyrn ráðamanna en orðið lítt ágengt. Ekki varð þeim meira ágengt í þetta sinn.

Á myndskeiðinu sjást fundargestir þagga niður í manninum með því að segjast vera lögreglumenn og hóta að bera þá út af fundinum sem ekki hafi sig hæga. Ekki sýna þessir menn lögregluskilríki. Bæjarstjóri áréttar að óþarft muni að hringja á lögreglu þar sem lögreglan sé í salnum. Ekki gera ráðherrar né aðrir neinar athugasemdir við það. En flóttamenn þagna.

Uppákoma þessi leiðir hugann að 3. mgr. 13. gr. lögreglulaga:

[Við framkvæmd starfa sinna skulu handhafar lögregluvalds bera á sér sérstök skilríki. Ráðherra ákveður útlit, efni og notkun lögregluskilríkja með reglugerð. 1)2)

Ennfremur segir í 6. gr. reglugerðar um lögregluskilríki og notkun þeirra:

Óeinkennisklæddur lögreglumaður við störf skal að jafnaði gera viðkomandi borgara það ljóst, að hann sé lögreglumaður, áður en hann ber upp erindi sitt. Þetta getur hann gert með því að framvísa lögregluskilríkjunum.

Þessum reglum var ekki fylgt. Hvernig skyldi nú standa á því? Eru þessir menn ekki örugglega lögreglumenn? Af hverju drógu þeir þá ekki bara upp stjörnurnar eins og lög kveða á um?

Kannski eru þeir bara venjulegir fúskarar eða hrokafullir páerflipparar sem telja sig ekki þurfa að fara að lögum. Vonandi er það skýrining því 116. grein almennra hegningarlaga hljóðar svo:

Hver, sem tekur sér eitthvert opinbert vald, sem hann ekki hefur, skal sæta sektum eða [fangelsi allt að 1 ári] 1) eða, ef miklar sakir eru, fangelsi allt að 2 árum.

Eru þessir menn sem þarna tóku að sér að þagga niður í fólki (sem hefur neytt flestra löglegra og friðsamlegra leiða til að ná athygli yfirvalda) lögreglumenn eður ei? Ef ekki þá hafa þeir brotið hegningarlög. Ef þeir eru lögreglumenn hafa þeir brotið lögreglulög. Það er nú bara þannig.

Við mælum með frábærri grein Benjamins Julian, „Vð erum lögreglan„. Ennfremur tökum við undir með GRECO og mælum með aðskilnaði lögreglu og Sjálfstæðisflokks.

Share to Facebook