Verkefnið fólst í því að halda sjálfsmorðssveitum frá íbúðarhverfi í Raqqah. Þegar þeir fengu tilkynningu um grunsamlegan bíl áttu þeir að skjóta viðvörunarskoti. Ef það hafði ekki áhrif átti að skjóta á bílinn. Að sögn félaga Hauks kom aldrei til þess. Fátt er meira niðurlægjandi fyrir sjálfsmorðssveit en að sprengja ekkert nema sjálfa sig.

Í október 2018 var mér boðið til Rojava ásamt foreldrum annarra alþjóðaliða sem hafa látið lífið í baráttunni gegn Islamska ríkinu og ofsóknum Tyrkja gegn Kúrdum. Ég afþakkaði. Þótt ég styðji málstað Kúrda heilshugar langar mig ekkert í einhverskonar pílagrímsferð sem snýst aðallega um píslarvottablæti. Ferð þar sem áróðursmeistarar stjórna ferðinni og velja þær upplýsingar sem ég fæ aðgang að.

Mig langar samt að koma til Raqqah. Mig langar að sjá með eigin augum veginn sem Haukur var að verja. Standa á sama stað og hann stóð og ímynda mér hvernig það er að fá tilkynningu; „sjálfsmorðssveit á leiðinni!“ Ímynda mér hvernig tilfininning það er að sjá bíl, fullan af sprengiefni nálgast, skjóta viðvörunarskoti og sjá bílinn snúa við. Ég ímynda mér að það hafi verið blendnar tilfinningar. Hjúkk, þeir komust allavega ekki inn í íbúðarhverfi í dag. Fokk þeir eiga sprengjunar ennþá og reyna sjálfsagt einhverja aðra inngönguleið, kannski einhverja sem er verr varin. Fyrr eða síðar þarf ég að fara til Rojava. En ég verð að gera það á eigin forsendum og ekki undir stjórn PR manna YPG.

Sjálfsmorðsþjónustan á markað í Bandaríkjunum

Og það kemur að því. Einn af mínum allra bestu vinum heitir Þorkell Ágúst Óttarsson. Hann þekkti Hauk frá fæðingu og bjó hjá okkur eitt sumar þegar strákarnir voru litlir. Þegar Haukur komst á unglingsaldur myndaði hann sjálfstæða vináttu við Kela.

Keli hefur gert fjölda stuttmynda, þar af eina sem hann tileinkar Hauki (þótt sú mynd sé ekki um Hauk). Fyrsta myndin hans í fullri lengd, Sjálfsmorðsþjónustan, var valin besta myndin í kvikmyndasamkeppninni Monkey Bread Tree, 2017, (besta mynd óháð kostnaði) auk þess sem Keli var tilnefndur til verðlauna fyrir bestu kvikmyndatökuna. Monkey Bread Tree keppnin er ætluð sjálfstæðum kvikmydaframleiðendum, ekki bara áhugafólki, og það eru aðeins 3 tilnefningar í hverjum flokki, þannig að þetta verður að teljast afskaplega góður árangur.

Bandarískt kvikmyndafyrirtæki keypti svo sýningarréttinn og myndin kemur út þann 11. júní nk. undir nýju nafni. Hér má sjá stiklu úr myndinni og hér er viðtal sem ég tók við Kela fyrir Kvennablaðið á sínum tíma.


Mynd um Hauk næst

Fyrir nokkrum mánuðum hafði Keli samband við mig og lýsti áhuga sínum á því að gera heimildamynd um lífshlaup og pólitískan aktífisma Hauks. Saga Hauks er áhugaverð út af fyrir sig en auk þess er varla hægt að hugsa sér betra tækifæri til að kynna hugsjónir hans, hugmyndafræðina og þær aðferðir sem hann aðhylltist. Eitt af því sem þyrfti helst til þess að ná að gera efninu nægilega góð skil er að fara til Rojava og tala við fólk á staðnum. Kafa dýpra en mögulegt var í þætti Kveiks, varpa ljósi á þá útfærslu lýðræðisins sem Haukur vildi ljá fulltingi sitt og skoða úr hvaða jarðvegi þær hugmyndir eru sprottnar. Við Keli höfum rætt möguleikann á því að fara saman í þá ferð.

Söfnun í verkefnasjóðinn hefur farið afskaplega vel af stað. Á aðeins 6 dögum náðum við lágmarkinu af áheitum sem þarf til þess að við fáum greiðslurnar. Átakinu lýkur ekki fyrr en 5. júní og nú er ég svo bjartsýn að ég er farin að vona að við getum lagt eitthvað til heimildamyndarinnar. Kannski flugmiða til Sýrlands.

Hvar er Haukur? Það veit enginn og sennilega verður þeirri spurningu aldrei svarað. En við reynum.

Hver var Haukur? Líklega geta allir sem kynntust honum gefið eitthvert svar við því en líklegt finnst mér að þau verði mörg og mismunandi. Það er ekki til eitt rétt svar við því en við reynum að draga fram sem flest sjónarmið.

Hvað vildi Haukur? Það vita fáir en það er hægt að svara því. Og ég hef trú á að Kela takist að gera því skil.

Ég þakka öllum sem hafa styrkt verkefnasjóðinn og hvatt aðra til þess. Við höfum fengið mörg rausnarleg framlög og eigum nú fyrir kostnaði við málþingið. En litlu framlögin skipta líka heilmiklu máli og það á enginn að þurfa að setja sig á hausinn til að geta lagt nafn sitt við verkefnasjóðinn. Hver fimmhundruðkall skiptir máli. Og þótt það skipti kannski ekki sköpum um það hvort við getum ráðist í fleiri verkefni í framtíðinni segir jafnvel ein evra okkur a.m.k. að þú standir með okkur.

Ómar Sverrisson tók myndina af Hauki árið 2012

Söfnunarreikningur: 528-14-530 – kt 010973-3179