Ekki það að ég sé eini gagnrýnandi anarkistahreyfingarinnar. Um kvöldið sest ég með félögum sem ég hitti í göngunni og ræði málin. Málin eru reyndar rædd frekar oft hér um slóðir. Félagi Nikos er fyrstur til að blammera stöðu hreyfingarinnar.

„Forréttindi okkar eru orðin að fangelsi okkar“ segir hann, „við höfum gert málamiðlanir til þess að eiga afdrep fyrir tónleika og partý. Það er ekki það sem anarkismi gengur út á heldur að breyta samfélaginu. Við unnum réttinn til að yfirtaka stórar byggingar eins og Rosa Nera á 10. áratugnum. Síðan þá höfum við ekkert þróast. Ég er ekki á móti málamiðlunum. Ég gæti sætt mig við kurteislegt málfar til þess að ná til fólks en við erum að gera málamiðlanir bara til að vera til. Þetta er auðvelda leiðin.“

Hann heldur áfram:
„Það eru byltingarmöguleikar í samfélaginu, verkalýðsfélögunum … þar getum við valdið skaða. Stjórnvöldum finnst gott að hafa okkur hér, bara að slappa af.“

Félagi hans Panos (sem Nikos titlar æðsta prest Dadaisku Pornostroikunnar) kemur að sinni skýringu á þessu ástandi.

„Grikkland er land sjálfsfróaranna (Griska – malakos)“
Með þessu meinar hann að hér þrífist menning á alveg ótrúlegum málamiðlunum sem þjóni ekki nema yfirborðskenndum og ófullnægjandi markmiðum. Hann nefnir sem dæmi að Grikkir vinni oft allt að 2 ár, án þess að fá nokkurn tíma útborgað. Þetta stafi af félagslegri skilyrðingu sem nánast gegnsýri samfélagið. Fólk vilji ekki gefa foreldrum sínum þá hugmynd að það sé latt og láti þess vegna bjóða sér þetta mánuðum saman, í von um að fá kanski einhvern tíma útborgað.

Þetta á ekki einungis við um ungu kynslóðina og hlýtur að eiga sér margþættar skýringar. Ég hitti um daginn menntaðan skjalaþýðanda sem vann fyrir aþenskan dómstól. Hann hafði orðiði að hætta starfi sínu vegna þess að hann fékk ekki útborgað.

„Þetta er draumakirkjugarður“ andvarpar Nikos.

Þegar ég spyr hann hvort hann hafi hug á því að vinna annars staðar svarar hann neitandi. Þrátt fyrir vandann hér, hefur hann engan áhuga á því að búa í þeim félagslega kulda sem viðgengst á norðlægari slóðum. Við ræðum muninn á Norður-Evropu og ég spyr hvers vegna andspyrna sé svo mun algengari hér en þar.

„Kapítalismi hér er minna þróaður en í norðrinu. Fólkið hér er hlýrra og það gefur færi á uppreisn. þegar lífskjör hér hrapa, man fólkið hamingjuríkt líf og reynir að halda í það. Í norðrinu hefur þetta gleymst síðustu 30 árin. Fyrir 30 árum voru svipaðar uppreisnir í Bretlandi, en nú hefur það gleymst. Þess vegna vil ég ekki flytja til Evrópu.“

Share to Facebook