Ég hitti manneskju sem talar opinskátt um það að stéttastríðið muni verða leitt til lykta eftir yfirtöku verkalýðsins á vopnaframleiðslunni, sem muni leiða til allsherjar vopnaðrar andspyrnu sem ríkið muni ekki eiga hernaðarleg andsvör við. Fyrstu tilraunir þessarar andspyrnu muni óhjákvæmilega mistakast en sökum þess hversu útbreidd hún verði, muni hún á endanum velta valdinu úr sessi og hefja uppbygginguna, laus við valda vacum, vegna þess að allir verði vopnaðir.
Mér finnst í hæsta máta hæpið að svo rótgróin hreyfing, sem þó er ekki stærri en hún er, muni með tímanum ná að tryggja hugmyndafræðilega einingu, sem myndi gera slíka yfirtöku mögulega. En jafnvel þótt svo væri, virðist hernaðarplanið fullkomlega galið. Að ætla að heyja skæruhernað gegn iðnvæddustu og best þjálfuðu herjum heims, án skipulagðra herdeilda, án nokkurrar reynslu af hernaði (höfum hugfast að flestir anarkistar reyna að koma sér undan herþjónustu, öfugt við flesta aðra) … það hljómar bara ekki mjög girnilega að taka þátt í þess háttar hópsjálfsmorði.
Sérstaklega ekki ef litið er til þess að fyrstu tilraunir byltingarinnar muni misheppnast samkvæmt kenningunni sem er lagt upp með. Af hverju ætti maður að ríða á vaðið í því stríði? Hugmyndin stangast fullkomlega á við það litla sem ég hef lært um strategíu, en þar virðist grunnhugmyndin alltaf vera að skjótur, alger og umfram allt auðveldur sigur, byggður á beinskeyttum, óvæntum og ákveðnum árásum sé eina planið sem nokkurt vit sé í að leggja upp með.
Ef stéttastríð hefur geysað í meira en öld og sennilega lengur þá ætti hver og einn að sjá að hingað til hefur verkalýðsstéttin nánast óslitna reynslu af því að tapa en ekki vinna auðvelda sigra með snjöllum árásum. Óvinurinn er margfallt sterkari, ótrúlega skipulagður, með aðgang að öllum heimsins resoursum og úrræðum, hugmyndafræðilega samstíga og með margra áratuga reynslu af auðveldum sigrum á verkalýðnum. Hann hefur fullkomna hugmynd um stærð hreyfinganna sem vilja sigra hann og getur att þeim hverri gegn annarri – þótt þess gerist reyndar oft ekki þörf þar sem þær sjá sjálfar um að ala á ósætti og innri átökum.
Ég sé þetta bara ekki alveg gerast.