Um kvöldið fórum við í kröfugöngu til stuðnings flóttafólki og almennt til að sýna að við séum til. Ég hafði heyrt töluvert um stemninguna á þess háttar viðburðum áður. Löng og vel ort slagorð kveðin í sífellu, aðeins meira líf en á Skítlandi. Engu að síður gat ég ekki hætt að velta fyrir mér ástandi þessarar hreyfingar. Við vorum óneitanlega nokkuð mörg, en þetta var ráðstefna sem hafði dregið til sín óvenju marga anarkista á einn stað og í samanburði við Ísland var hópurinn ekki hlutfallslega stærri en þegar vel lætur í No Borders mótmælum þar, kanski 400 manns.

Þótt á Krít sé talsverður fjöldi flóttamanna var ekki einn flóttamaður í göngunni.

Viðbrögð vegfarenda voru þau sömu og ég á að venjast. Hundsun, háð, pirringur … Ég sá engan sérstakan tilgang með þessari göngu annan en þá helst að gefa heiminum hugmynd um frekar ómerkilega stærð hópsins.

Ég vingaðist við nokkra félaga úr þessum mótmælum. Einn þeirra er Kýpverji sem sagði mér að á hans heimaslóðum telji hreyfingin varla meira en 50 manns í 800.000 manna samfélagi. Aðrir sem ég ræddi við um það töldu það ofmat. Hann sagði 90% Kýpverja ekki hafa hugmynd um að mikill fjöldi flóttamanna búi við ömurlegar aðstæður á eynni, og það þótt hún sé staðsett í flæðarmáli Tyrklands og Mið-Austurlanda.

Meðvitundin um smæð hreyfingarinnar er endurtekin aftur og aftur næstu daga. Það kemur mér ofurlítið á óvart hversu mikil áhersla er lögð á þetta atriði í ljósi þess að Grikkland á sennilega met í anarkistaframleiðslu. Undarlegra þykir mér þó að heyra pólitískar áherslur þeirra. Nú á ég eftir að ræða sérstaklega við Antifa og Inserectionistana, en langalgengast er að fólk kalli sig anarcist comunista. (Fatta þegar ég skrifa þessi orð að ég þarf að tékka á hvort einhver munur sé talinn vera á anarco comunisma og anarcist comunisma). Syndicalismi virðist almennt illa liðinn sem umbótastefna en ekki byltingarstefna og ekki fer mikið fyrir grænum anarkistum eða anarca feministum.

tumblr_inline_noy711tBMs1spaok3_500

Anarkist-kommúnimsi þessi verður sennilega ekki auðveldur í framkvæmd en allflestir virðast þó allavega vilja stefna að honum og margir segjast trúa á hann. Öfugt við flesta gagnrýnendur stefnunnar efast ég ekki alvarlega um að þetta fólk sé fært um að skipuleggja flest svið daglegs lífs af meiri sanngirni og með meiri og beinni lýðræðisþáttöku en nú gerist. það sem ég hef áhyggjur af er sjálf yfirtakan á samfélaginu.

Orðfar og hugmyndir anarkist-kommúnistanna sem ég hef hitt og lesið minnir mig á pólitískar greiningar frá því snemma á síðustu öld. Ég veit ekki hvort ég á að vera hrærður eða hneykslaður á því að sjá að fólk er enn að gera sér vonir um almenna stéttasamstöðu, en það er svolítið síðan mér fór að finnast orðræða um pólitískan mátt og vitund veraklýðsstéttarinnar óaðlaðandi. Segi allavega fyrir sjálfan mig að mér finnst meira spennandi að horfa í einstök málefni og stefna að fyrirsjáanlegum skammtímasigrum.

Share to Facebook