Viku eftir að ég legg af stað frá Íslandi sit ég í blokkaríbúð í miðbæ Aþenu og skrifa blogg. Hafði hugsað mér að vera heldur duglegri við það, en hvað um það. Áður en ég fór hafði Assad sett tölvuna mína upp uppá nýtt með windows stýrikerfi. Á Krít tókst mér tvisvar að kveikja á henni og báðar sessionir enduðu með skæru ljósasjói um allan skjá. Síðan þá hefur hún neitað að kveikja á sér og ég sæti lagi að komast í tölvur annarra þangað til ég hef keypt nýja.
Velkomnir
Flugið frá Íslandi gekk vel, allar vélar á réttum tíma og ekkert vesen. Engu að síður frekar lýjandi ferðalag. Þegar ég gekk í gegnum Gatwick-flugvöll sá ég endurtekið kveðju á veggnum sem ég tók ekki til mín fyrr en ég hafði fundið mér stað til þess að leggjast niður:
Welcome Benevenuti Wilkommen Velkomnir
Það var fyrst þá sem ég áttaði mig á því að kynjagleraugnalausri google þýðingunni væri á einhvern hátt beint til mín sérstaklega. Af hverju Ísland? Af hverju er skítlega litla Ísland í þessum ófrýnilega hópi?
Ég lenti á Krít úrvinda af þreytu en ófær um svefn, hafandi hengt hausinn nokkrum sinnum í flugvélunum.
Krít
Það fyrsta sem ég tók eftir á Krít voru snarbrött, hvít fjöll blettuð einhverskonar trjágróðri. Allt sem fyrir augu bar var fallegt á einn veg eða annan. Pastel-lituð hús með sólpöllum á þakinu. Endalaus og fjölbreyttur gróður, fullt af ólívutrjám. Á leið frá flugvellinum keyrðum við framhjá NATO herstöð sem félögum mínum er af einhverjum ástæðum frekar í nöp við.
Ég fór sem leið lá upp í Rosa Nera hústökuna þar sem ráðstefnan fór fram að mestu. Þar hvarf mér öll þreyta. Umræðum morgunsins var að ljúka og kominn hádegismatur. Allur matur alla dagana, sem og vín, bjór og raki var eldaður á staðnum og borinn fram gegn frjálsum framlögum.
Vínmenning
Vínmenning Grikkja er til mikillar fyrirmyndar. Drykkja hefst í hádeginu og stendur fram á nótt í aflíðandi kúrfu, þar sem hún eykst hægt og rólega fram að miðnætti en þá fer fólk líka að hægja á og er ekki nema í miðlungi sósað þegar það fer í rúmið. Á Krít brugga menn heimsins versta rauðvín og geyma það í 16 ár. Það þarf að neyða fyrstu tvö gösin ofan í sig en þá uppgötvar maður að þetta er í rauninni svakalega gott og drekkur það sjálfviljugur upp frá því, jafnvel frekar en bjór eða brennivín.
Rosa Nera
Rosa Nera er gömul villa sem hefur verið hústaka í 12 ár. Hún stendur á hæð fyrir ofan gömlu höfnina á Chania með sjávarútsýni eins og úr fyrsta flokks túristabæklingi. Hún er vel þekkt og vel liðin í hverfinu og mikil miðstöð fyrir menningarstarfsemi anarkista.
Húsið sjálft er ákaflega falleg gömul bygging, há og reisuleg, máluð í mjúkum, gulum lit og byggð í ferning þannig að hún myndar húsagarð í miðjunni þar sem fólk matast og djammar. Á neðri hæðinni er bar, eldhús, fundarsalur og fleira í þeim dúr en á efri hæðinni herbergi þar sem íbúarnir búa og gestir eru hýstir. Í kringum fordyrnar eru háar súlur og á þeim hvíla flennistórar svalir, stærri en íbúðin mín.
Samtalskúltúr
Því miður er hústakan full þegar mig ber að og ég er keyrður ásamt ítölskum og grískum félaga í íbúð í bænum. Gestgjafi okkar er stórkostlega viðkunnanleg, ung kona í arkitektanámi og við eyðum fyrstu klukkutímunum okkar saman í að kryfja stjórnmalaástand Balkansskagans.
Þessi fyrstu kynni mín af lókalnum verða lýsandi fyrir samskipti mín við alla sem ég hitti næstu vikuna. Reglan er að allir, já allir, sem ég hef hitt, eru opnir fyrir samtali og meira en það, mjög færir í samræðum. Allir sem ég hef hitt so far, hafa mótaðar skoðanir á því sem ég spyr um og koma þvi skýrt og skilmerkilega frá sér. Hafi þeir ekki mótaða skoðun á tilteknu málefni þá lagast það þegar þeir hafa annað hvort fengið frekari upplýsingar eða velt málinu fyrir sér í smá stund. Allir virðast hafa ákveðnar hugmyndir um eigin aðstæður og leitast við að spyrja krefjandi spurninga um mínar. Þetta er ekki eingöngu bundið við anarkistana sem ég hef hitt, þótt það verði að viðurkennast að þeir eru í meirihluta þeirra sem ég hef rætt við.