21. mars 2006

Ég vaknaði upp frá pólitísku draumamóki við það að mamma gólaði upp yfir sig að við YRÐUM AÐ FARA!!!“

Ég píndi mig hetjulega í eðlisfræði og sálfræði en slapp við spænsku vegna þess að í dag fór fyrsti hópurinn í skelfilegt munnlegt próf. Hræðilegu fréttirnar eru að á morgun kemur að mér.

Eftir skóla fór ég í Þjóðleikhúsið og sótti miða. Í næstu viku verður örleikrit eftir mig flutt af leiklistarnemum meðal annara verka.

Svo ég segi aðeins frá mótmælunum á laugardaginn, þá voru þau fámenn og lágvær, enda ekki nema von þegar minnst er smáræði eins og yfirlýsingu árásarstríð Íslands á hendur þjóð sem ekki ógnar Íslandi.

***

Hugleiðingar Evu

Færslan hér að ofan er elsta dagbókarbrot Hauks sem ég hef varðveitt. Væntingar Hauks um þáttöku í mótmælum gegn Íraksstríðinu sem og mat hans á því hvernig til tókst voru ekki í neinum takti við raunveruleikann en þessi ummæli hans varpa dálitlu ljósi á karakter hans og hugarheim. Hann skildi bara ekkert í því að fólk gæti verið værukært gagnvart heimsvaldastefnu og að það teldi kurteisleg mótmæli líkleg til árangurs.

Örleikritið sem hann nefnir var eitt af fimm verkum sem fengu viðurkenningu í örleikritasamkeppni framhaldsskólanna 2006. Ef ég man rétt fékk Haukur þriðju verðlaun. Því miður er leikritið hans týnt. Það er mikill skaði því efni og efnistök varpa ljósi á síðustu daga hans, 12 árum síðar. Þetta er einræða byltingarforingja á flótta. Hann rekur ástæður þess að nauðsynlegt var að gera byltingu, segir frá hugmyndafræðinni og hugsjónunum að baki og hvernig hreyfingin hans náði að fóta sig. En hugsjónirnar víkja fljótt og hann lýsir grimmdarverkum sem hann og menn hans frömdu. Hann reynir að réttlæta þau en við vitum að hann veit betur. Vopnin snúast svo í höndunum á honum og hann les fréttir af leitinni að sér í blöðunum. Það var Bjarni Snæbjörnsson sem fékk hlutverk byltingarforingjans og fór gífurlega vel með hlutverkið.

Það er mjög ólíkegt að handritin séu til hjá Þjóðleikhúsinu. Leikstjórinn, Ingibjörg Þórisdóttir man eftir þessu og hefur reynt að hafa upp á textanum. Það hefur ekki borið árangur ennþá. Ef svo ólíklega vill til að einhver hafi varðveitt handritið þá yrði ég óendalega þakklát fyrir upplýsingar.

Þetta er eina umfjöllunin um þessa keppni sem ég hef fundið og Haukur er ekki nefndur þar. Hún birtist í Mogganum 29. mars 2006.