Gististaður flóttafólks í Aþenu. Mynd: Freedom House á Flickr

Þegar Haukur var í Grikklandi árið 2016 skrifaði hann bréf þar sem hann kom sérstaklega inn á stöðu barna á flótta. Þetta hafði hann að segja:

… og þessi umræða um unga karlmenn sem skilja fjölskyldur sínar eftir er enn eitt dæmið um firringuna. Hér liggja fjölskyldur á götunni […] börn sem sofa á torgum innan um aðra heimilislausa, þ.m.t. alvöru glæpamenn, innan um sorp, sem ekkert pláss er fyrir í yfirfullum gámum, innan um mannasaur því það eru engin almenningsklósett fyrir allt þetta fólk. Sum með eitt teppi undir sér, sum með ekkert. […] Sex ára börn passa yngri börn á meðan foreldrarnir reyna að ná í mat. Ef þau eiga þá foreldra. Stundum vakna þau upp við það að búið er að handtaka pabba þeirra.

Svo geta þessir níðingar hent þessum greyjum úr landi undir því yfirskini að það verði að halda fjölskyldum saman. Því fátt er hollara ungum börnum en að missa möguleikann á mannsæmandi lífi. Það eina sem við getum gert fyrir þau sem koma með yfirfullum bátum er að gefa þeim súpu og á meðan vappa starfsmenn Sameinuðu þjóðanna um og taka niður upplýsingar til að gera skrár fyrir skrifræðið […] SÞ eru jafn gagnslausar og Rauði krossinn. Hústökur eru það eina sem við getum gert hér fyrir utan […] en það er ekki hægt að hjálpa nema örfáum og það eru ekki ungir, hraustir karlmenn sem ganga fyrir.

Í erindi sínu á útifundi Leikmanna án landamæra talaði Guðmundur Karl um stöðu flóttabarna og viðbrögð Evrópuríkja.

Yfir 300 börnum sem höfðu sótt um alþjólega vernd hér á landi hefur verið vísað úr landi frá 2013. Rökstuðningur dómsmálaráðherra er á þá vegu að hagsmunum barna sé best borgið með fjölskyldunni. Þetta er í sjálfu sér alveg rétt. En þá er verið að taka ákvörðun um hvað sé best barninu í hag útfrá stöðu foreldra. Þetta er skýrt brot á fyrsta hluta, annari grein, fyrstu málsgrein barnasáttmála sameinuðuþjóðanna:

Aðildarríki skulu virða og tryggja hverju barni innan lögsögu sinnar þau réttindi sem kveðið er á um í samningi þessum, án […] án tillits til […] aðstæðna foreldris þess eða forráðamanns.

Hvað getur þú gert til að hjálpa? Stutta svarið sem ég á við þessu, og það sem skiptir líklega mestu máli er að láta skoðun sína í ljós. Börnin skortir ekki lagarammann til að fá réttláta meðferð, hann er til staðar. Það skortir málsvara það skortir pólitískan vilja.

Að hjálpa börnum á flótta er einfaldlega ekki nógu vinsælt. En við getum gert það vinsælt með því að láta hátt í okkur heyra þegar réttlætiskennd okkar hringir viðvörunarbjöllum.

Orð eru öflug. Orðin þín eru þitt ofurafl. Þú getur breytt lífi einstaklinga, þú getur skapað stefnur í átt að betri heimi.

Guðmundur Karl skeytti saman þessu myndbandi

 

 

 

Share to Facebook