Helgina 8-9 júní héldum við málþing um hugsjónir Hauks Hilmarssonar. Málþingið fór fram í glæsilegum ráðstefnusal íslenskrar erfðagreiningar. Vinir Hauks fluttu fyrirlestra um þau málefni sem Haukur helgaði líf sitt, Dean Ferrell spilaði á kontabassann og Jamie McQuilkin stóð fyrir fjöldasöng. Frænkur Hauks báru fram glæsilegar veitingar og þar sem veðrið var frábært fóru flesir með kaffið sitt út í hléum.
Þetta var i alla staði vel heppnað, fjöldi gesta kom frá útlöndum sérstaklega til að taka þátt í viðburðum helgarinnar og mæting á málþingið var stórfín. Ekki færri en 150 manns mættu á hluta dagskrárinnar og stór meirihluti var með okkur allan tímann.
Á laugardagskvöldið komu svo vinir Hauks saman í Öskjuhlíðinni og áttu þar saman góða stund.
Á sunnudeginum stóð Lalli sjúkraliði fyrir miðbæjargöngu frá lögreglustöðinni við Hlemm, með viðkomu á ýmsum stöðum sem tengjast Hauki persónulega og einnig beinum aðgerðum sem hann tók þátt í, svosem hústökum og fánaaðgerðum.
Við enduðum gönguna á útifundi á Austurvelli þar sem málefni flóttafólks voru í forgrunni og Hauks var minnst sem baráttumanns fyrir landamæralausum heimi og einstaks hugsjónamanns og vinar.
Á sunnudagskvöldið enduðum við svo á minningardagskrá í Þjóðleikhússkjallaranum fyrir fjölskyldu og vini. Fjölskylda Hauks og eldhús fólksins sáu um veitingar og vinir Hauks fluttu ljóð, tónlist og minningarorð.
Allt var þetta mögulegt vegna þess að margir lögðu hönd á plóginn við undirbúning og gáfu vinnuframlag sitt lögðu til veitingar, hýstu erlenda gesti, lánuðu húsnæði undir viðburðina, hjálpuðu okkur að auglýsa viðburðina og styrktu verkefnasjóðinn okkar. Það var ekki að sjá að þetta væri gert af neinum vanefnum en við hefðum aldrei haft efni á því að gera þetta allt, hvað þá svona glæsilega, ef við hefðum þurft að borga fyrir allt vinnuframlag, húsnæði, auglýsingar og annað tilheyrandi. Við þökkum öllum sem hafa stutt okkur í orði, verki og með fjárframlögum en sérstakar þakkir fá eftirtaldir:
Vafalaust hafa einhverjir sem verðskulda sérstakar þakkir gleymst í þessari upptalningu en svo skiptir líka verulegu máli að eiga myndir til minningar. Myndirnar með þessari færslu tóku Bergljót Þorsteinsdóttir og Ásgeir Ásgeirsson. Bergljót tók myndirnar frá málþinginu, miðbæjargöngunni og útifundinum á Austurvelli. Ásgeir tók myndirnar frá minningardagskránni. Ef einhver lumar á fleiri góðum myndum frá þessari helgi sem við megum nota, þá endilega hafið samband.