Mér finnst ég lifa í óraunverulegum heimi. Fyrir nokkrum dögum síðan frétti ég að Haukur frændi hafði farið til Sýrlands til að vinna með YPG – sýrlenskum Kúrdum.
Þessum fréttum fylgdi að Haukur væri dáinn! Haukur, frændi MINN, dáinn?

Haukur, sem ég, Lena og Darri fórum að veiða með í Lagafljóti á meðan við töluðum um hvað það væri óraunverulegt að Lagafljótsormurinn væri til. (Mér fannst það samt ekkert svo óraunverulegt fyrr en Haukur kom með öll rökin fyrir því.) Haukur sem stríddi mér þegar ég fór í fýlu afþví að ég neitaði hvað það voru miklar málfræðivillur í textunum hans Bubba! – kommon! Ég skildi nákvæmlega hvað Bubbi var að syngja svo það gat ekki verið svo hræðilega vitlaust!

Haukur sem ég held að sé sá eini í heiminum sem baðst mig alltaf fyrirgefningar á því að særa mig þó svo að ég ynni hart að því að sýna ekki að mér hefði sárnað. Þó svo að mér kannski sárnaði ekki neitt, en hefði getað gert það.

Haukur sem froðufelldi af reiði, tilbúinn að ganga í skrokk á fólki sem hafði beitt mig órétti.

Haukur sem vildi að fósturpabbi minn myndi kenna okkur jujitsu í sumarbústaðarferð í Kjósinni. Ég var viss um að ég gæti unnið hann í þessu þar sem ég hafði oft verið á æfingu með fósturpabba mínum og fengið smá kennslu hér og þar. Haukur rústaði mér í hvert skifti og ég fór í mega fýlu! Haukur sem ég vildi að væri bara frændi minn og okkar systkina því ég fann fyrir öfund þegar hann talaði um frændfólk sitt sem ég þekkti ekkert til.

Haukur sem hafði svo mikla réttlætiskennd að við Lena og Darri gátum sjaldan togað hann með okkur í einhvern prakkaraskap. (Yfirleitt blásaklausan prakkaraskap.) Haukur sem var svo fyndinn, hann hafði svo mikinn húmor og gat séð svo létt á hlutina, en á sama tíma tók hann öllu svo alvarlega og gat verið svo þungt hugsi að ég náði ekki inn til hans.

Haukur sem tók sér pásu frá að vera unglingur með mér og byggði virki úr sófanum heima hjá sér með yngri systkinum okkar. Haukur sem bjó heima hjá mér um tíma og flutti svo í hús sem var við hliðina á nágranna okkar svo við hittumst á hverjum einasta degi. Haukur okkar allra, Haukur MINN!

Ég trúi því reyndar ekki að hann sé dáinn, ég er ekki tilbúin að trúa því. Samt hef ég aldrei áður grátið jafn mikið og ég hef gert síðustu daga.

Hullan mín getur sett upp svipi sem minna mig svolítið á Hauk. Hún bendir með löngutöng, hann gerði það líka. Ég elska að taka eftir svona hlutum, en finnst það á sama tíma svo sorglegt og svo erfitt! Sama á við um allar þessar fréttir, greinar, blogg og komment sem fjalla um það hvað hann var frábær í alla staði, góður í gegn, falleg sál og yndislegur karakter! Þetta er svo yndislegt að lesa en á sama tíma svo erfitt!

Elsku Haukur minn. Ég sakna þín og er svo reið yfir þessu öllu! Þú varst og verður alltaf fyrir mér sönn Hetja. Sá allra besti. Ég er svo stolt af því, að þú sért frændi MINN.