Benjamin 

Mér finnst mjög andstyggilegt að Ögmundur Jónasson hafi í dag boðið uppá klukkutíma lofræðu um staðfestu sýrlenska ríkisins og óréttlætið sem Bashar al Assad hefur þurft að líða. Það hefði verið furðulegur gjörningur alla daga ársins, enda er Assad á lífi og við hestaheilsu á meðan uppreisnarmenn gegn einræði hans og almennir borgarar verða fyrir tunnubombum. En á degi sem þessum er það ekki furðulegt, heldur bíræfið og grimmt. Haukur Hilmarsson var drepinn á víglínu uppreisnarmanna, fólks sem barðist gegn einræði, fasisma, þjóðernishyggju, karlrembu og heimsku. Hann dó við að verja heimavígi uppreisnarinnar í Kúrdistan. Assad, á hinn bóginn, rembist við að sölsa undir sig restina af landinu sem hann álítur sína persónulegu eign.

Allir sem þekktu Hauk hljóta að vita afstöðu hans gagnvart yfirmönnum ríkja, ríkisvaldinu og lögreglunni, stofnununum sem Vanessa Beeley taldi upp eina á eftir annarri og sagði hafa sýnt svo mikla „staðfestu“ gegn ásókn uppreisnarmanna. Hún sagði arabíska vorið í Sýrlandi vera lygi og uppreisnarmennina vera terrorista.

Hersveitir YPG eru ekki terroristar og samfélag þeirra í Rojava, sýrlenska Kúrdistan, er ekki eign Assad. Þar hefur orðið lýðræðisbylting við erfiðustu aðstæður allt frá 2012. Ríkjunum umhverfis finnst þeim ögrað, og þau óttast svipaðar uppreisnir minnihlutahópa hjá sér. Tyrklandsforsetinn vill útrýma þessari tilraun sunnanvið landamærin. Í dag sagði hann að þegar hann hefði lokið sér af í Afrin myndi hann ganga frá hinum kúrdísku borgunum. Evrópulönd, sem borga Tyrklandi fyrir að halda flóttamönnum úr álfunni, hafa litið undan. Enginn hjálpar Kúrdum þegar það verður pólitískt óheppilegt. Svoleiðis hefur það verið gegnum aldanna rás, enda er sagt í Kúrdistan að „enginn er vinur nema fjöllin.“ Öll spjót standa á þeim.

Kannski var á einhverjum degi ársins hægt að hlusta á málstað Assad í þessu stríði. Kannski var á einhverjum degi hægt að hlusta á mál Vanessu Beeley, sem kennir meðal annars George Soros um uppreisna í Sýrlandi, og byrjaði fyrirlesturinn með mynd af fyrirsögninni: „To save Syrians, let Assad win“. Fáni Assads hékk á púltinu og þessi glæra var uppá vegg, stórum björtum stöfum, þegar nafn Hauks Hilmarssonar var dregið inní þennan ömurlega gjörning. Haukur, vinur minn, sem hataði einræði og yfirvald og móralska uppgjöf. 

https://www.facebook.com/photo.php?fbid=2105733272786994&set=a.744385772255091.1073741837.100000510252775&type=3&theater