Þessi fundahefð á sér sennilega rætur í menningu sem ég hef kynnst nánar hér í Aþenu. Tempóið er annað. Fólk er ekkert að flýta sér og það leggur vinnu í að tala saman. Eins og ég hef áður nefnt er ekki undantekning að hafa skoðun á hlutunum og það þykir sjálfsagt að geta tjáð þær.

Þegar ég gef mig á tal við fólk úti á götu, t.d. til þess að spyrja til vegar, er ekki óalgengt að detta inn í samtal og fólk nennir ekki lengi að hanga í chit chatti. Ef ég spyr t.d. hvort það sé satt að lögreglan hætti sér ekki inn í Exarchiu segja unglingarnir ekki eitthvað eins og: „Já, það er geðveikt“ heldur tala í 10 mínútur um að í rauninni sé mun meiri focus á Exarchiu hjá lögreglunni en fyrir 2008, hún sé með pósta allt í kringum hverfið og geri regluleg raid. Síðan fylgja kanski spekulasjónir um að menn hæpi hverfið upp, að hvaða leyti menningin þar sé frjáls og að hvaða leyti ekki, ásakanir um að þarna þrífist xenophobia eða eitthvað í þeim dúr.

Ég hef oft orðið vitni að því, þegar einhver vill tjá skoðun sem honum er mikilvæg og þótt slíkar einræður fari iðulega fram á grísku er nægilega mikið sjónarspil að fylgjast með því til þess að nenni að fylgjast með af athygli. Viðkomandi byrjar sem þáttakandi í samræðu nokkurra einstaklinga þegar spurning eða athugasemd kveikir í honum. Hann byrjar að tala aðeins hærra og hraðar og eftir 10-20 málsgreinar er hann búinn að stilla sér upp með spekingslegum svip og farinn að láta dæluna ganga af geislandi sannfæringarkrafti og ákafa.

Staðhæfingarnar bunast útur honum án hikorða eða tafs í 2 – 3 mínútur, en þá dregur hann síðasta atkvæðið örlítið á langinn og sveigir hljómfallið niður. Eftir sekúndu hlé kemur eitt hikorð og svo önnur þriggja mínútna romsa. Þetta er endurtekið nokkrum sinnum án nokkurrar pásu og á meðan steinheldur vinahópurinn kjafti og hlustar af athygli.

Ég verð að viðurkenna að þótt þetta eigi eflaust sínar neikvæðu hliðar, þegar þarf að taka flóknar ákvarðanir sem snerta persónulega tjáningu einstaklingsins lítið, þá er ég frekar heillaður af þessari menningu. Ég myndi til að mynda skjóta blint á það án þess að hugsa það frekar, að grísk ungmenni viti almennt meira og hugsi víðar en íslensk.


Fleira hefur drifið á daga mína en þetta verður að duga að sinni
Bestu kveðjur til ykkar allra.

Share to Facebook