Nú, á fjórtánda degi leitarinnar að Hauki Hilmarssyni, sem fréttist þann 6. mars að hefði fallið í árásum tyrkneska hersins á Afrin í Sýrlandi, fer vaxandi sú gagnrýni á íslensk stjórnvöld að þau hafi hagað leitinni með hangandi hendi.
Eins og Eva Hauksdóttir, móðir Hauks, gerir grein fyrir í bloggfærslu á laugardag er vitað að Tyrkir gerðu loftárás á svæðið milli þorpanna Badina og Demilya þann 24. mars, þegar Haukur er sagður hafa látist. Frá loftárásinni hefur ekki spurst til Hauks. Samherjar hans hafa ekki komist inn á svæðið til að sækja lík fallinna félaga. Kúrdar og Tyrkir hafa hirt lík andstæðinga sinna til að geta skipst á þeim síðar. Þó er einnig vitað að Tyrkir hafa tekið stríðsfanga úr hópum Kúrda, sem Haukur barðist með.
Haukur hefur ekki fundist frá því að fréttin barst, hvorki lífs néð liðinn. Þá hafa ekki fengist svör frá tyrkneskum yfirvöldum um hvort þau hafa hann eða líkamsleifar hans í fórum sér. Engin bein vitni hafa komið fram að andláti hans. Ríkislögreglustjóri lítur því enn sem komið er á málið sem mannshvarf. Það gera aðstandendur Hauks einnig og hafa bent á að á meðan andlát hans er óstaðfest er sá möguleiki vel hugsanlegur að hann sé á lífi, í haldi Tyrkja. Ef svo er, er sennilegt, miðað við frásagnir úr átökunum, að hann sæti harðræði og pyntingum.
Guðlaugur Þór Þórðarson fékkst til fundar við aðstandendur Hauks viku eftir að fyrsta fréttin barst og hafði í kjölfarið frammi fyrstu ummæli sín um hvarf hans. Segist hann hafa rætt við tyrkneskan starfsbróður sinn, en um viðbrögð við umleitan sinni hefur hann aðeins látið þau orð falla að þau hafi „ekki verið neikvæð … að við getum í sjálfu sér ekki kvartað undan viðbrögðum Tyrkja.“
Fram kom í frétt Stundarinnar föstudaginn 16. mars að íslensk yfirvöld hefðu fram að því ekki haft samband við tyrkneska Varnarmálaráðuneytið í eftirgrennslan sinni. Eftir að fréttin birtist var hún leiðrétt til hálfs, svo að segja: María Mjöll Jónsdóttir, staðgengill upplýsingafulltrúa hafði samband við miðilinn til að koma því á framfæri að hún gæti hvorki játað né neitað því hvort embættismenn Utanríkisráðuneytisins hafi haft samband við tyrkneska Varnarmálaráðuneytið, en hún gæti þó staðfest að það hefði ráðherra sjálfur ekki gert.
Sama upplýsingadeild lagði nokkurt kapp á það, fyrr í sömu viku, að fjölmiðlar fengju myndir af settlegum fundi Ásmundar Einars Daðasonar, félagsmálaráðherra, með fjölskyldumálaráðherra Tyrklands, sem þar hefði lofað honum að minnast á mál Hauks við utanríkisráðherra landsins … Þetta var eftir að fullyrt var að beint símasamband væri komið á, milli utanríkisráðherra landanna tveggja.
Eftir fund með Katrínu Jakobsdóttur í liðinni viku hefur móðurbróðir Hauks sagst binda vonir við að forsætisráðherra og starfsmenn á hennar vegum séu í raun af vilja gerð til að hafa uppi á Hauki. Enn sem komið er verða aðrir að taka viljann fyrir verkið.
Aðstandendur Hauks segja að þær upplýsingar sem þeim hefur þó tekist að nálgast í málinu hafi að langmestu leyti borist eftir óformlegum leiðum, við þeirra eigin eftirgrennslan, fram hjá ráðuneytunum og íslenskum stofnunum frekar en með fulltingi þeirra. Ásgeir H. Ingólfsson, rithöfundur og blaðamaður, dregur reynsluna saman með svofelldum orðum:
Ímyndið ykkur að þú eða einhver ykkar nánustu deyið við óvenjulegar og dularfullar aðstæður, hvort sem er hér heima eða erlendis. Já, eða týnist og enginn viti hvort þú eða þessi nákomni séuð lífs eða liðinn. Við þekkjum alveg dæmin, við vitum alveg að venjulega eru öllu til tjaldað, allt er sett í gang sem er mögulega hægt að setja í gang.
Nema …
Nema auðvitað að þú eða einhver ykkar nánustu hafi í lifanda lífi leyft sér að gagnrýna valdið. Valdið sem núna getur ákveðið að leita – eða leita ekki. Þá veistu að hefndin getur orðið sinnuleysi, það að leita með hangandi hendi, hringja í launalausa ræðismenn en sleppa því að heyra í ráðuneytum og hermálayfirvöldum. Þá veistu að dauði þinn eða hvarf þitt er eitthvað sem yfirvöld munu humma fram af sér eins lengi og þau mögulega geta. Þangað til það er orðið of seint.
Ásgeir Ásgeirsson tók myndina