Ritstjórn Kennablaðsins skrifar
Í tilefni af heimsókn Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra, til Berlínar, bauð sendiráð Íslands í borginni til jafnréttisráðstefnu í samkomusal norrænu sendiráðanna, Felleshus, á mánudag. Katrín hélt framsöguerindi á ráðstefnunni þar sem hún reifaði þróun jafnréttismála á Íslandi, þá sigra sem þegar hafa unnist og þær áskoranir sem hún sagði framundan. Meðal þess sem hún sagðist gefa gaum um þessar mundir eru þær hættur sem geta verið fólgnar í því þegar jafnrétti kynja er orðið meginstraums-viðfangsefni: í dag, sagði hún, segjast allir vera femínistar, hvar í flokki sem þeir standa.
Stiklað á stóru um sigra og áskoranir
Katrín reifaði lög um jafnlaunavottun, mikilvægi kvenfyrirmynda í stjórnmálum og kynjahlutfalla í stjórnum fyrirtækja, auk þess sem hún fjallaði um #metoo-bylgjuna og áhrif hennar á Íslandi: „Metoo-byltingin skók íslenskt samfélag“ sagði hún. Þó að sögurnar sem þar kæmu fram væru óhjákvæmilega allt sögur einstaklinga væri mikilvægt að lærdómurinn sem dreginn yrði af þeim væri ekki bundinn við einstaklinga, heldur snerist um samfélagslegar og menningarlegar breytingar sem verði að eiga sér stað.
Í pallborðsumræðum eftir framsöguerindið tóku einnig þátt Kristín Hjálmtýsdóttir, framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi, Lisi Maier frá Deutscher Frauenrat og Tijen Onaran frá samtökunum Women in Digital. Þá tók sendiherra Íslands í Þýskalandi, Martin Eyjólfsson, einnig þátt, og sagði frá eigin lærdómum af jafnréttisbaráttunni, meðal annars hvað nýskeð rakarastofuráðstefna hefði verið upplýsandi og gagnleg.
Spurningar úr sal um Hauk og Afrin
Í lok dagskrárinnar var opnað fyrir spurningar úr sal. Fyrsta spurning frá áhorfendum snerist um viðfangsefni sem ekki hafði komið við sögu á ráðstefnunni en spyrjandi benti á að hefði sterk tengsl við dagskrána: barátta kúrdískra hreyfinga, þar á meðal kvennasveitanna YPJ, fyrir „róttæku kynjajafnrétti“ á sjálfsstjórnarsvæði Kúrda í Sýrlandi.
Spyrjandi benti á að útlit væri fyrir að íslenskur ríkisborgari, Haukur Hilmarsson, hefði látið lífið í þágu þeirrar baráttu, ekki af hendi óvinarins sem hann fór til að berjast við, það er ISIS og skyldra fylkinga, heldur hefði hann fallið í árás frá bandalagsríki Íslendinga í NATO, Tyrklandi.
Að loknum tilfinningaþrungnum inngangi færði spyrjandi fram tvær spurningar: sú fyrri var hver afstaða íslenskra stjórnvalda væri til innrásar Tyrklands í Afrin og hvers vegna stjórnvöld hefðu ekki fordæmt innrásina. Síðari spurningin var hvað íslensk stjórnvöld aðhefðust nú til að komast að raun um afdrif Hauks Hilmarssonar, hvort þau beittu Tyrkland einhverjum þrýstingi í málinu.
Katrín svarar: Höfum gagnrýnt, gerum okkar besta
Forsætisráðherra svaraði síðari spurningunni að venju með því að íslensk stjórnvöld geri allt sem hægt er í máli Hauks – og benti á að fyrr um daginn hefði hún nefnt mál hans við Angelu Merkel, sem hefði heitið stuðningi þýskra stofnana við eftirgrennslan í málinu.
Spurningunni um afstöðu íslenskra stjórnvalda til innrásarinnar í Afrin svaraði Katrín svo til að þau hefðu verið „afar gagnrýnin á framferði Tyrklands í garð Kúrda“. Spyrjanda þótti svarið ekki fullnægjandi og ítrekaði spurninguna, sem Katrín svaraði aftur á sama veg. Þegar spyrjandi spurði í þriðja sinn, með tveimur valkostum: „Eruð þið fylgjandi eða mótfallin innrásinni?“ – vék Katrín sér aftur undan með því að segjast þegar hafa svarað. Stöðluð lína íslenskra stjórnvalda í málinu virðist því nú vera sú að þau hafi verið „afar gagnrýnin á framferði Tyrklands í garð Kúrda“, um leið og þau þó neita að lýsa yfir andstöðu við innrásina.
Að þessum spurningum og svörum loknum hélt dagskráin í fundarsalnum áfram með hefðbundnu sniði.