Veira gengur nú ljósum logum um heimsbyggðina og veldur ýmiss konar usla og hörmungum. Hún er sögð stökkbreytast hratt, sem kann að skýra ólík áhrif hennar á fólk. Eitt alsérkennilegasta afbrigðið virðist einkum hafa lagst á fréttastofur íslenskra fjölmiðla, dáleitt starfsfólkið og fengið það til að dansa gleiðbrosandi undir flautuleik sóttvarnayfirvalda með svipuðum afleiðingum og í Hameln forðum tíð, þegar börnin eltu flautuleikarann sem áður hafði tekist að frelsa bæinn undan annars konar plágu.
Fréttastofa RÚVsins okkar allra hefur ekki farið varhluta af þessari sýkingu, og leikur grunur á að þar hafi veiran jafnvel smitast með hugsanaflutningi. Svo rammt kveður að sýkinni þar að jafnvel eru sagðar fréttir af stórmerkilegum klukkum sem sýni ótrúlega nákvæman réttan tíma, allt upp í tvisvar á sólarhring. Ein frétt af því tagi birtist til dæmis í gær:
Spálíkan Háskólans virðist hafa náð ótrúlegri nákvæmni hvað varðar heildarfjölda smita hér á landi. Þann 2. apríl var því spáð að alls myndu átján hundruð smitast. … Nú hafa alls 1.799 greinst með sjúkdóminn.
Heillaðri af hinum undursamlega flautuleik láðist fréttakonunni að horfa á klukkuna nógu lengi til að sjá að hún var á fleygiferð fram og tilbaka. Fjórum dögum eftir þessa nákvæmu spá var nefnilega allt í einu spáð að 2.100 myndu smitast, og tíu dögum áður var spáin 2.500. Tæpum tveim vikum eftir „nákvæmu“ spána var spáin svo lækkuð niður í 1.700 (en daginn áður voru greind smit orðin um 1.720).