Auður Styrkársdóttir skrifaði í gær grein í Kvennablaðið sem hún nefnir „Rangfærslur um kosningaréttinn“ og telur sig þurfa að „leiðrétta það sem rangt er farið með“ í grein eftir Steinunni Ólínu og annarri eftir mig, um kosningarétt kvenna og karla.
Það eina sem hún fjallar um í minni grein, og sem hún segir sjálf að snúist um smekk (og þar með ekki um rétt eða rangt), er hvort það hafi verið rétt hjá mér að tala um það sem „almennan“ rétt þegar konur 40 ára og eldri fengu kosningarétt. (Það gerðist ekki 1915, eins og löngum hefur verið haldið fram, heldur 1916, eins og Steinunn Ólína greinir hér frá, og athyglisvert að það fólk sem hefur rannsakað þetta mál og talað svo mikið um það skuli ekki hafa áttað sig á þessu.)
Það er vissulega rétt hjá Auði að auk aldurstakmarkana (upphaflega við 40 ár) voru sett fleiri skilyrði fyrir kosningarétti, svo sem að manneskja mætti ekki hafa verið svipt fjárræði eða hafa „óhreint“ sakavottorð. Það má því alveg til sanns vegar færa sem Auður segir að ég hafi notað orðið „almennur“ of frjálslega um þann kosningarétt sem konur 40 ára og eldri fengu 1916, sem og jafngamlir karlar sem áður höfðu ekki notið hans, af því að þeir voru verkamenn eða vinnumenn.
En það ætti hins vegar að vera ljóst af því sem ég sagði að ég var að benda á að það voru ekki bara konur yfir 40 ára aldri sem fengu þarna kosningarétt í fyrsta sinn, heldur líka margir karlar á sama aldri. Að lakast settu karlarnir í samfélaginu voru að þessu leyti alveg jafn kúgaðir og konur almennt. Og að þrátt fyrir allt það sem skrifað hefur verið og talað um mikilvægi þessa áfanga hefur nánast aldrei verið minnst á þessa karla, sem tilheyrðu þeim lægstsettu í samfélaginu.
Alveg sérstaklega var ég að vekja athygli á því sem mér finnst vera „söguförðun“ í umfjölluninni um þetta mál, að það er jafnan talað eins og þessir lægst settu karlar skipti engu máli. Þannig er það nefnilega oft enn þann dag í dag, að þeir karlar sem verst hafa það í samfélaginu eru síst í betri stöðu en lægst settur konurnar, og á þessu virðist lítil breyting hafa orðið, enda eiga þessir karlar sér fáa málsvara. Og „jafnréttisbarátta“ þeirra sem aldrei tala um annað en meinta mismunun gagnvart konum er ekki meiri jafnréttisbarátta en svo að karlar eru þar einfaldlega ekki taldir með.
Auður segir líka að það hafi verið 14% karla sem fengu kosningarétt 1916, og setur spurningamerki við það hvort það hafi verið „stór hluti“ karla (eins og Steinunn Ólína talaði um). Auðvitað má deila um það hvað sé stórt í þessu samhengi, en ég sé ekki tilganginn í því. Það sem máli skiptir er að þessi 14% karla höfðu ekki kosningarétt áður, sem var jafn ósæmilegt gagnvart þeim eins og það var gagnvart konum. Þetta hlutfall karla samsvarar nú um 18 þúsund körlum yfir átján ára aldri. Það sem verið var að ræða er hliðstætt því að 18 þúsund karlar á kosningaaldri hefðu ekki kosningarétt í dag, vegna þess að þeir væru of fátækir. Engum dytti í hug í dag að það væri ekki stórkostlegt mannréttindabrot, og fáum myndi detta í hug að gera að umræðuefni hvort þar væri um að ræða „stóran hlut“ karlmanna. Nema kannski gallhörðum femínistum …
Það er ekki úr vegi að hafa í huga í þessu sambandi að 14% er einmitt mjög nálægt því að vera hlutfall svartra í Bandaríkjunum í dag.
Fyrir utan ofangreint segir Auður bara þetta um það sem ég skrifaði:
„Um annað í grein Einars Steingrímssonar get ég ekki fjallað, enda fremur á sviði tilfinningaskoðana en staðreynda og býður ekki upp á rökræður.“
Auður telur sem sagt að það séu „tilfinningaskoðanir“ að ég
- geri athugasemdir við að þessum staðreyndum um kosningarétt karla er lítt haldið á lofti í málflutningi þeirra aðila (þ.á.m. Auðar) sem standa að hátíðahöldunum vegna kosningaréttar kvenna,
- haldi fram að um spillingu hafi verið að ræða þegar Ásta R. þingforseti beitti sér fyrir því að Alþingi fjármagnaði stöðu framkvæmdastjóra vegna hátíðahaldanna, sótti sjálf um og fékk starfið (í „samkeppni“ við 74 aðra), starf sem var úthlutað af forsætisnefndinni sem hún hafði skömmu áður veitt forstöðu,
- spyrji hvers konar jafnréttisstefna það sé hjá Reykjavíkurborg að ætla að jafna laun hæstsettu embættismanna hennar, en láti sér ekki detta í hug að hækka lág laun leikskólakennara sem nánast allir eru konur.
Burtséð frá því hvað átt sé við með að þetta séu „tilfinningaskoðanir“ þá er athyglisvert að nota slíkan stimpil til að afgreiða skoðanir. Þetta er nefnilega klassísk aðferð karlrembusvína við að gera lítið úr skoðunum kvenna …
Ljósmynd efst í grein eftir Frederick W.W.Howell.Fólkið á Holti á Síðuí Vestur-Skaftafellssýslu um 1900. Heimild/Lemúrinn.is