Yfirlýsing frá Landlækni (sem lesa má hér) vegna frumvarps til laga um verulegar takmarkanir á innflutningi bifreiða til einkanota:
Rannsóknir sýna að bifreiðaslys valda gríðarlegu tjóni á heilsu þeirra sem í þeim lenda, og einnig gífurlegum kostnaði heilbrigðiskerfisins vegna umönnunar og endurhæfingar þeirra sem lifa af. Einnig hafa rannsóknir sýnt að aðstandendur þeirra sem lenda í bifreiðaslysum og láta lífið eða örkumlast eru að öllu jöfnu undir miklu andlegu álagi í langan tíma, stundum áratugum saman þegar um er að ræða fólk sem verður ósjálfbjarga af völdum slíkra slysa. Þetta veldur ekki einungis lakari andlegri heilsu, sem einnig veldur kostnaði í heilbrigðiskerfinu, heldur má gera ráð fyrir að mikill fjöldi vinnustunda tapist vegna umönnunar aðstandenda.
Rannsóknir hafa einnig sýnt að því fleiri bifreiðir sem eru í umferð, því fleiri eru slysin. Það er því ljóst að með því að takmarka verulega innflutning á bifreiðum mun bifreiðaeign landsmanna minnka til muna á tiltölulega stuttum tíma.
Afleiðingarnar af færri bifreiðum í umferð verða því ótvírætt umtalsverð fækkun alvarlegra slysa, og lækkun kostnaðar í heilbrigðiskerfinu.
Auk þess sem að ofan greinir hafa rannsóknir sýnt að hæfileg dagleg hreyfing hefur í för með sér mikla heilsubót, og ljóst er að því færri sem eiga eigin bifreiðir því meira mun fólk þurfa að ganga. Fækkun bifreiða til einkanota mun augljóslega auka göngur almennings og bæta þar með lýðheilsu.
Því styður landlæknir eindregið framkomið frumvarp um að innflutningur einkabifreiða verði takmarkaður, með það að markmiði að einkabifreiðum verði fækkað um 50% á næstu tíu árum.