Í gærkvöldi birti Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, eftirfarandi á Facebook-síðu sinni:
Stjórnarskrármálið sýnir eitt afar skýrt: Samfylkingin er alvöru jafnaðarmannaflokkur.
Við stöndum fyrir skynsamlegar og færar leiðir í þessu máli rétt eins og öllum öðrum. Og eins á öllum tímum er við að eiga sameinað afturhald: Þá sem engu vilja breyta og últramennina sem berjast af hörku gegn áfangasigrum til að geta upplifað fróun yfir eigin hetjudauða þegar málið siglir í strand en kæra sig kollótta yfir því hvort yfir höfuð muni verða mögulegt að vinna málefninu fylgi á síðari stigum.
Þetta er saga jafnaðarmanna á öllum tímum – og svikabrigslin eru eins og lóukvak á vori: Staðfesta að við erum á réttri leið!
Það er eiginlega óþarfi að hafa mörg orð um þetta; Árni segir hér allt sem segja þarf um leiðtogahæfileika sína og afstöðu sína til þeirra sem vilja (eins og meirihluti almennings) fá nýja stjórnarskrá samþykkta á þessu þingi, þar á meðal afstöðu sína til sumra þeirra sem tilheyra þingflokki Samfylkingarinnar.
Það er athyglisvert að sjá ummælin við þessa yfirlýsingu Árna á Facebook-síðu hans; þau eru nánast öll á eina lund, og bæði mjög gagnrýnin og yfirleitt málefnaleg. Hvorki Árni né stuðninsmenn hans reyna að svara gagnrýninni. Hitt er ekki síður sláandi, að Árni Páll hefur ekki, frekar en aðrir á sama máli, útskýrt hvernig hann sér fyrir sér að farið verði að því að „vinna málefninu fylgi á síðari stigum“.
Af hverju hefur Árni Páll aldrei þurft að útskýra af hverju hann haldi að fjandmenn nýrrar stjórnarskrár verði meðfærilegri á næsta þingi en þessu? Er ekki augljóst að Sjálfstæðis- og Framsóknarmenn verða varla í veikari stöðu á næsta þingi en þeir eru núna, og að engri hugsandi (og heiðarlegri) manneskju dettur í hug að þeir muni þá hætta að hatast við þær breytingar sem frumvarpið gerir ráð fyrir?
Árni Páll virðist staðráðinn í að láta það verða sitt fyrsta verk sem formanns Samfylkingarinnar að drepa stjórnarskrármálið. Ekki nóg með það; hann reynir að kenna öðrum um, fólki sem hann fer um niðrandi orðum, sem augljóslega eiga einnig við fólk í hans eigin þingflokki sem hefur barist einarðlega fyrir því að róa málinu í höfn. Spurningin er hvort formennska Árna Páls í Samfylkingunni, og Samfylkingin sem annað en smáflokkur, muni lifa það stríð af.