Gullgerðarmenn Íslands

Í sumar birtist skýrsla þar sem Íslendingum var lofað gulli og grænum skógum, á við olíuauð Norðmanna, ef Landsvirkjun fengi bara að virkja nóg. Í gær og í dag birtust í fleiri fjölmiðlum fréttir um að tilteknir „sérfræðingar“ segi að tillögur um breytingar á Rammaáætlun gætu kostað íslenskt samfélag allt að 270 milljarða króna á næstu fjórum árum (og staðhæfingar „sérfræðinganna“ eru kynntar á Alþingi sem staðreyndir).

Það er reyndar sama fólkið sem kemst að þessum niðurstöðum í báðum tilfellum. Hér er um að ræða sannkallaða gullgerðarmenn, sem gerðu svipaðar skýrslur og komust að niðurstöðum í sama stíl fyrir fáum árum. Þá var viðfangsefnið reyndar íslenski verðbréfamarkaðurinn, sællar minningar, ekki síst bréf í bankanum sem þessir snillingar unnu hjá, og sem þeir töluðu upp daginn út og inn. Það er svolítið sérkennilegt að Landsvirkjun skyldi ráða fólk með þennan feril til að gera skýrslu um framtíðarsýn fyrirtækisins. Og sorglegur vitnisburður um íslenska fjölmiðla að þeir skuli athugasemdalaust birta guðspjöll þeirra.

Til skemmtunar er hér útdráttur úr kynningum á helstu starfsmönnum GAMMA, sem finna má í heild sinni á heimasíðu fyrirtæksins:

Agnar Tómas Möller hefur starfað á íslenskum fjármálamarkaði í 10 ár, fyrst hjá Búnaðarbanka Íslands og síðan Kaupþingi. Agnar byrjaði í greiningardeild með áherslu á íslensk skuldabréf. Árin 2004–2006 var hann í áhættustýringu Kaupþings og sá m.a. um þróun og forritun hugbúnaðar til stýringar á markaðsáhættu Kaupþings og eftirlit með markaðsáhættu bankans. Frá árinu 2006 til byrjunar árs 2008 vann Agnar í skuldabréfamiðlun Kaupþings. Árið 2008 var Agnar sjóðsstjóri GPS Invest, fjárfestingarfélags sem sérhæfði sig í fjárfestingum í íslenskum skuldabréfum. Einnig hefur Agnar sinnt kennslu við Háskóla Íslands og kennir m.a. nú námskeiðið Skuldabréf í meistaranámi í hagfræði.

Ásgeir [Jónsson] hóf starfsferillinn sem hagfræðingur hjá Verkamannafélaginu Dagsbrún árið 1994 og ritstjóri Vísbendingar árið 1995. Árið 2000 hóf hann störf á Hagfræðistofnun Háskóla Íslands og varð lektor hjá Hagfræðideild HÍ árið 2004. Ásgeir tók við starfi sem aðalhagfræðingur Kaupþings árið 2004 og forstöðumaður Greiningardeildar Kaupþings 2006 (síðar Arion Banki). Árið 2011 fór hann aftur í fulla stöðu sem lektor við HÍ samhliða því að vera efnahagsráðgjafi hjá GAMMA.

Gísli Hauksson er framkvæmdastjóri GAMMA. Gísli er með 12 ára reynslu af störfum á innlendum og erlendum fjármálamörkuðum. Gísli starfaði áður sem Director Fixed Income Sales (skuldabréfaviðskipti og afleiður) hjá Kaupþingi á Íslandi frá 2006 til febrúar 2008, frá 2004-2006 var hann Director Fixed Income and FX hjá Kaupþingi í London og þar áður í skuldastýringu Kaupþings (Búnaðarbanka Íslands áður). Árið 2008 var Gísli sjóðsstjóri GPS Invest, fjárfestingarfélags sem sérhæfði sig í fjárfestingum í íslenskum skuldabréfum.

Guðmundur Björnsson var forstöðumaður Afleiðuviðskipta Kaupþings frá 2005 fram í september 2008. Þar hafði hann yfirumsjón með verðlagningu og áhættuvörn vegna afleiðuviðskipta í tengslum við gjaldeyri, vexti og skuldabréf ásamt þróun á afleiðuvörum og afleiðutengdum skuldabréfum. Guðmundur er með 11 ára reynslu af afleiðuviðskiptum og hóf störf í afleiðuviðskiptum hjá Búnaðarbanka Íslands þar sem hann vann að þróun og hönnun afleiða.

Deildu færslunni