Nýlega kom fram þingsályktunartillaga „um sameiningu háskólastofnana og rekstur tveggja öflugra háskóla.“ Fyrir henni talaði Baldur Þórhallsson, varaþingmaður Samfylkingarinnar, og prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. Þessi tillaga er ansi barnaleg og lýsir auk þess litlum skilningi á góðu háskólastarfi. Í henni segir meðal annars (og maður spyr sig hvort enn sé árið 2007): „Þannig verði starfræktar tvær vísindastofnanir á landinu með nokkrar starfsstöðvar sem hafi getu til að vinna að rannsóknum og bjóða upp á háskólakennslu eins og best gerist í heiminum.“
Skilningsleysi flutningsmanna felst í því að á Íslandi búa 320 þúsund manns, hér er hlutfallslega álíka margt fólk í háskólanámi og mest gerist í heiminum, og Íslendingar eru, því miður, ekki margfalt klárari en aðrar þjóðir þegar kemur að vísindastarfi. Sé t.d. borið saman við Kaliforníu, þar sem langstærstur hluti háskólakerfisins er rekinn af ríkinu, má sjá að í efsta hlutanum af þremur eru um 200 þúsund nemendur (þetta eru rannsóknaháskólarnir í kerfinu, þ.á.m. Berkeley, UCLA og aðrir minna þekktir). Íbúar Kaliforníu eru 115 sinnum fleiri en Íslendingar. Ef íslenskur háskóli ætti að bjóða upp á það sem „best gerist í heiminum“ — og þótt ekki væri gengið lengra en að bera sig saman við ofangreindan hluta Kaliforníukerfisins, fremur en bara þá sem fremst standa á alþjóðavettvangi — þá væri óraunhæft að reikna með að slíkur skóli hýsti meira en tvö þúsund nemendur, í stað þeirra fimmtán-tuttugu þúsunda sem hér stunda nám á háskólastigi.
Í stuttu máli er fráleitt að ætla að meira en tíu prósent nemenda í íslenskum háskólum hafi burði til að stunda nám í skólum sem bjóða upp á það sem „best gerist í heiminum.“ Í slíkum háskólum eru nefnilega gerðar kröfur sem einungis lítill hluti nemenda í árgangi stendur undir, og án slíkra nemenda er tómt mál að tala um framúrskarandi háskóla. Að sama skapi er útilokað að hér á landi sé stærra hlutfall af góðum fræðimönnum en gerist annars staðar í heiminum.
Væri alvara á bak við hugmyndirnar um að byggja upp öflugt háskólastarf mætti skapa slíkan skóla með því að safna saman því vísindafólki landsins sem stendur föstum fótum í alþjóðasamfélaginu (og það einungis á sviðum sem eru nógu burðug hér til að standa undir starfi sem sómir sér á alþjóðavettvangi). Hugmyndir á þessum nótum voru lagðar fram af þremur meðlimum svokallaðs rýnihóps ráðherra sem átti að gera tillögur um endurskipulagninguna sumarið 2009. Þær hugmyndir má sjá hér, en skemmst er frá því að segja að þær hlutu ekki mikinn hljómgrunn í hópnum, enda var hann samsettur í nokkurn veginn réttum hlutföllum af fólki úr öllum háskólum landsins, og varð því að sams konar hagsmunagæslunefnd og við mátti búast, þar sem sammælst var um að gera nánast engar breytingar.
Það er barnaskapur hjá flutningsmönnum þingsályktunartillögunnar að segja að „Verkefni háskólanna er að koma sér saman um hvernig sameiningu þeirra er best háttað.“ Háskóli Íslands vill gleypa mestallt háskólastarf í landinu, og hinir háskólarnir vilja ekki láta gleypa sig. Forysta skólanna mun því aldrei koma sér saman um sameiningar. Enda er ekki skynsamlegt að ætla að forysta tiltekinnar stofnunar vinni heilshugar að því að leggja sjálfa sig niður. Auk þess þjónar það varla hagsmunum eigendanna, ríkisins fyrir hönd almennings, að láta forystumenn stofnana sem e.t.v. ætti að gerbreyta eða leggja niður véla um hvernig eigi að standa að því.
Ef ætti að byggja upp öflugt háskólastarf á Íslandi (og það væri hægt, í litlum mæli, þrátt fyrir fámenni og fjárskort) þá þyrftu þau yfirvöld sem ráða yfir fjárframlögunum að taka ákvörðun um slíkt, og fá til þess verks aðra en þá sem nú ráða lögum og lofum í kerfinu. Það hafa þessi yfirvöld (menntamálaráðherrar) aldrei gert. Þvert á móti hefur ekkert raunverulegt eftirlit verið með gæðum háskólastarfsins, og aldrei spurt hvað fengist (í gæðum) fyrir féð sem lagt hefur verið í þetta kerfi.
Þrátt fyrir yfirlýsingar núverandi menntamálaráðherra (sem er í leyfi sem stendur) um að endurskipuleggja ætti háskólakerfið er ekkert slíkt á prjónunum. Það hafa verið skrifaðar nokkrar skýrslur, sumar með góðum ábendingum um gallana í kerfinu, en allar tilraunir til að koma á teljandi breytingum hafa verið kæfðar. Í forystu fyrir því verki hefur verið sérstakur ráðgjafi ráðherra um endurskipulagningu háskólakerfisins, Berglind Rós Magnúsdóttir. Eins og títt er í íslenskri stjórnsýslu er þar á ferðinni manneskja með enga reynslu af starfi á því sviði sem hún átti að leiða endurskipulagninguna á, þ.e.a.s. hún hefur aldrei starfað í háskóla (öðru vísi en sem nemandi), hvað þá að hún hafi umfangsmikla reynslu af slíku starfi.
Undirrituðum sagði Berglind, skömmu eftir að hún var ráðin til starfans, að ráðuneytið hefði sér til ráðgjafar í þessum málum tvo reynda háskólamenn, þá Jón Torfa Jónasson, forseta menntavísindasviðs HÍ, og Pál Skúlason, fyrrum rektor þess skóla. Það er nógu slæmt að láta forystumenn úr einum þeirra skóla sem endurskipulagningin átti að taka til ráða hér för. Ekki er skárra að umræddir menn eru þekktir fyrir allt annað en að reyna að byggja upp öflugt háskólastarf í alþjóðlegum samanburði, eins og er yfirlýst stefna HÍ og HR (en í þeim skólum eru yfir 90% háskólanema landsins).
Þetta er kjarni vandans: Þeir sem ráða lögum og lofum í íslensku háskólastarfi vilja ekki hrófla við kerfinu, sem hyglir undirmálsfólki (í trássi við yfirlýsta stefnu HR og HÍ), neitar að hlaða undir starf þeirra sem raunverulega eru frambærilegir á alþjóðavettvangi, og kemur þannig í veg fyrir að hægt sé að laða til landsins fólk sem gæti stóreflt háskólastarf hér.
Hér er svo örlítið, en afar lýsandi, dæmi um áherslurnar sem í raun ráða för í Háskóla Íslands, sem gefur sig út fyrir að vilja verða einn af hundrað bestu í heimi (ástandið er ekkert skárra í HR, þótt þar sé um að ræða annars konar kerfi): Samkvæmt vinnumatskerfi Háskóla Íslands fá höfundar sem eru einir á grein í tímaritum eins og Tímariti sálfræðinga, eða RAUST (Tímariti um raunvísindi og stærðfræði), fjórfalt fleiri punkta en Freysteinn Sigmundsson fékk, sem fyrsti höfundur, fyrir þessa grein í einu virtasta tímariti heims. Vinnumatskerfið ræður hluta af launum akademískra starfsmanna, auk framgangs þeirra. Ofangreint, sem er því miður dæmigert fyrir kerfið, veldur því annars vegar að framúrskarandi vísindamönnum er refsað fyrir að gera sitt besta, samtímis því sem starfsmenn eru hvattir til að eyða tíma sínum í að framleiða greinar sem eru algerlega marklausar í því alþjóðasamfélagi sem vísindin eru. Að birta greinar um sálfræði á íslensku er ekki þátttaka í alþjóðlega fræðasamfélaginu, og erfitt er að verjast þeim grun að það sé gert vegna þess að þær fengjust aldrei samþykktar í góðum alþjóðlegum tímaritum. Tímaritið RAUST er líka á íslensku, sem þýðir að það er ekkert framlag til vísindasamfélagsins í raunvísindum, auk þess sem greinar þess eru nánast aldrei framlag til rannsókna, heldur bara yfirlitsgreinar, skrifaðar fyrir leikmenn.
Eins og svo margt á Íslandi byggist íslenska háskólakerfið, og völdin í því, á svikum og blekkingum, í bland við hrokafullan þvætting um alþjóðlega yfirburði, á borð við það sem tíðkaðist í íslenska fjármálaheiminum á árunum fram að hruni.