Sumarið 2003 var Haukur að vinna úti á landi og ég saknaði hans. Haukur var áhugasamur um skógrækt og hafði samkennd með Sóma Gamban úr Hringadróttinssögu, sem honum fannst mun áhugaverðari persóna en Fróði. Nokkrum dögum áður en hann fór hafði Haukur samið íslenskt tilbrigði við texta lags úr Hringadróttinssögu „The Road Goes Ever On“ sem hann hafði þá sungið í sífellu vikum saman. Ég man ekki íslenska kvæðið hans Hauks, því miður. 

Í þessari vinnuferð kynntist Haukur stúlku sem ójafnaðarmaður nokkur taldi sína réttmætu eign og gerði Hauki það skiljanlegt með all ógnvekjandi látbragði. Ég vissi ekki nákvæmlega hvað gekk á, bara að það var stelpa og afbrýðisamur gaur í spilinu, en „jújú, allt í fína“ hljómaði ekki sannfærandi. Það vantaði nefnilega hinu hefðbundnu viðbót; „og ef tröllin koma til að éta mig þá annað hvort vingast ég við þau eða fel ég mig“. Það var þá sem ég skrifaði þetta kvæði. 

 

Í orðastað frú Gamban

Út í heiminn hófst þín ferð frá húsadyrum.
Fróða Bagga fylgdir sporum
faldir þig í klettaskorum
þegar orkar urðu á þínum vegi.

Og eins þótt lítill fugl á laufgum teigi
ljóð sín kvaki beint frá huga þínum
og allt hið besta af þér jafnan segi
vanda hvern ég veit hjá drengnum mínum.

Og þótt þín sál í söngvum trjánna hljómi
sakna ég þín á hverjum degi, Sómi.

Daginn eftir hringdi Haukur í mig og var þá kominn í bæinn alveg óvænt og bað mig að hitta sig. Hann var á flótta undan óberminu og sagði mér í fyrsta sinn söguna alla en bað mig svo strax að keyra sig á staðinn aftur. Ég vildi að hann yrði kyrr í bænum en það var engu tauti við hann komandi, hann ætlaði ekki að flæma sig af staðnum heldur að takast á við aðstæður. Ég sá til þess að manninum var komið af svæðinu en viðurkenndi ekki fyrir Hauki fyrr en mörgum árum síðar að ég hefði skipt mér af þessu.

Share to Facebook