Bréf Lauru Wauters, þýtt úr hollensku. Fyrst birt hér

Haukur Hilmarsson var virkur í baráttunni fyrir heimi án landamæra bæði á Íslandi og í Grikklandi. Hann féll í loftárás tyrkneska hersins á Afrín þann 24. febrúar. Laura Wauters skrifar honum kveðjubréf.

Í júlí síðastliðnum gekk Haukur til liðs við YPG, hersveitir Kúrda í Rojava í Sýrlandi. Í október tók hann þátt í frelsun Raqqa frá ISIS sem liðsforingi herdeildar sinnar. Í janúar hóf Erdogan Tyrklandsforseti Ólívuviðaraðgerðina sem fólst í árás á Afrin-hérað, með því markmiði að koma héraðinu öllu undir stjórn Tyrkja.

Hinn 18. mars náðu tyrkneskir hermenn Afrín á vald sitt með stuðingi vígasveita jihadista. Hersveitir YPG reyndu að verjast innrásinni og koma í veg fyrir frekara mannfall óbreyttra borgara wn Tyrkir gegnu fram með ofbeldi sem þegar hefur orðið hundruðum óbreyttra borgara að bana og margir vígamenn YPG hafa týnt lífinu í viðleitni sinni til að verja Afrin. Eftir valdatöku Tyrkja halda skæruliða baráttunni áfram.

Þegar Haukur frétti af innrás Tyrkja í Afrin fór hann þangað ásamt liðsmönnum sínum. Hann féll þar ásamt tveimur arabískum vígamönnum. Það var ekki fyrr en í síðustu viku sem vinir og vandamenn komust að því, enn hefur þó engin opinber staðfesting fengist frá tyrkneskum stjórnvöldum.

Saga Hauks minnir um margt á borgarastyrjöldina á Spáni á þriðja áratugnum og skæruliðahreyfingar Suður-Ameríku á níunda áratugnum. Á sama hátt og þá er nú um að ræða tilraun til samfélagsbyltingar í Rojava (Sýrlenska Kúrdistan), sem hefur fengið alþjóðlega aðgerðarsinna til að yfirgefa heimaslóðir sínar til að helga sig þessu verkefni. Við munum aldrei gleyma þeim. Þessvegna skrifa ég þér þetta bréf Haukur, svo að aðrir fái að kynnist þér sem þeirri ástríðufullu manneskju sem ávalt verður mér minnisstæð.

Það stendur mér lifandi fyrir hugskotsjónum þegar þú réttir mér krumpaðan dúk, bláan og hvítan með rauðum krossi. Þú horfir á mig með stríðnisglotti. Þetta reynist vera íslenski fáninn. „Hvað á ég svo að gera við hann?“ Spyr ég þig, hikandi. „Einfalt … brenna hann!“. Þú dregur augað í pung og gengur í burtu.

Þessi minning er frá árinu 2008. Ári áður hafði ég kynnst þér sem baráttumanni Saving Iceland. Sú hreyfing tók til starfa árið 2006 sem aðgerðahópur gegn byggingu Kárahnúkjavirkjunar, sem byggð var í þágu stóriðju á íslenska hálendinu. nánar tiltekið til að knýja álver bandaríska álrisans ALCOA. Til stóð að byggja stíflu og mynda þannig lón sem mynd flæða yfir stóran hluta svæðis sem var meðal síðustu óbyggða Vestur-Evrópu og rústa lífsvæðum sjaldgæfra hreindýra, snjóuglu, fálka og mörgum öðrum einstökum tegundum dýra og jurta. Þetta fallega landslag var heimili þitt, Haukur, og þú varst staðráðinn í að verja það án málamiðlana.

Mótmæli Saving Iceland gegn ALCOA voru ekki takmarkaðar við vistfræðileg áhrif stíflunnar. Hreyfingin barðist einnig gegn tengslum ALCOA við Bandaríkjaher, stærsta viðskiptavin fyrirtækisins, og afleidda ábyrgð álversins í hinu mannskæða Írakstríði sem þá geisaði. Einnig þótti ástæða til að beina sjónum sínum að námavinnslu, báxítt, málmgrýti sem þarf til að framleiða ál. Þegar öllu er á botninn hvolft var báxít flutt inn frá Indlandi og Kongó, þar sem vinnuánauð þreifst í skjóli staðbundnna atvinnugreina, land fátæklinga var tekið eignarnámi og búsvæði þeirri menguð. Saving Iceland varð þannig að vestur-evrópskum aðgerðahópi sem í senn mótmælti stríði, loftslagsmengun og mannréttindabrotum.

Þú varst fíflið í hópnum Haukur. Uppreisnargjarni trúðurinn frá Útópíu. Byltingarmaður sem tjáði sig með grettum og geyflum. Hefð var ekki til í þinni orðabók, því síður stífni og kreddukennd hugsun. þú vildir frekar fara ótroðnar slóðir. En það var aldrei sjálflægni sem knúði þig. Ég veit að þú hafnaðir árum saman viðtölum og andlitsmyndir af þér voru varla til. Brjálæði þitt var ekki brandari. Það var eina leiðin fyrir þig að halda áfram að berjast af hugrekki á öllum vígstöðvum þar sem þú sást kúgun: fyrir vernd hinnar fögru náttúru Íslands, gegn spilltum ráðherrum, gegn örlögum vegalausra flóttamanna. Þú hjóst skarð í ríkjandi viðmið, ósamræmi og hræsnisfulla hugmyndafræði innan samfélagsins með slíkum eldmóði, gleði og hugrekki að við hin höfum tekið það til fyrirmyndar og erum fyrir vikið óbjálaðri en áður. Þú gast alltaf tekið forystuna og veitt fólki innblástur.

Þú hélst áfram að afhjúpa ágalla íslensks samfélags sleitulaust. Annmarka sem íslenskir ​​stjórnmálamenn og fjölmiðlar vildu helst láta liggja í láginni til að skaða ekki ímynd landsins (einkum erlendis). Erfiðar staðreyndir, svo sem landlæg áfengismisnotkun, þunglyndi og sjálfsvígshrinur eða sú staðreynd að Íslendingar eiga Norðurlandamet í kynferðisofbeldi að Grænlandi einu frátöldu. Vissuð þið að launamunur á Íslandi er meiri en í Belgíu?

Af öllum þeim kýlum sem þú þrýstir á var eitt sem sprakk með hvelli og leiddi til Búsáhaldabyltingarinnar haustið 2008. Yfir 10.000 Íslendingar tóku þátt í mótmælum gegn stjórnvöldum í kjölfar fjármálakreppunnar. En þú gekkst alltaf skrefi lengra. Enginn mun nokkru sinni gleyma því hvernig þú klifraði upp á þak þingsins (sjá myndband frá 1:21) til að skipta út íslenska fánanum fyrir Bónusfánann, (Bónus er afsláttarkeðja á Íslandi svipuð Aldi) til að fordæma spillingu og gróðahyggju íslenskra stjórnvalda.

Þú varst stöðugt að leita leiða til að ögra sjálfum þér og öðrum. Þú grúskaðir í bókum og varst alltaf á kafi í umræðum. En umfram allt vildir þú grípa til aðgerða sem leiða til breytinga hér og nú. Á hverjum fundi undanfarin tíu ár varstu að velta fyrir þér nýjum hugmyndum.

Sama ár og búsáhaldabyltingin brast á, hljópstu út á Keflavíkurflugvöll í félagi við annan aðgerðasinna. Markmið þitt var að stöðva flugvél sem kenískur flóttamaður Paul Ramses var í. Hann hafði verið handtekinn kvöldið áður, aðskilinn frá eins mánaðar gömlum syni sínum og var nú vísað ólöglega úr landi. Aðgerðir þínar vöktu þjóðmálaumræðu og settu loks réttindi flóttamanna á dagskrá íslenskra stjórnmálamanna. Paul Ramses gat að lokum snúið aftur til fjölskyldu sinnar á Íslandi og sagði í nýlegum viðtölum að aðgerð þín hafi bjargað lífi hans. Jafnvel þá varstu ekki frá því að taka persónulega áhættu í baráttu þinni fyrir réttlæti. Manstu eftir aðgerðinni sem við gerðum í sendiráði Íslands Brussel í því skyni að auka þrýstinginn og fá þig lausan?

Þessi árangur varð þér að lokum hvatning til að stofna No Borders Iceland, hreyfingu sem hélt umræðunni um fólksflutninga á pólitískri dagskrá með beinum aðgerðum. Aðgerðarhópurinn mótmælti meðal annars beinni og óbeinni ríkisaðstoð Íslands við stríðsiðnaðinn, aðild Íslands að NATO og Dyflinnarsamningnum. Síðan No Borders Iceland var sett á laggirnar hefurðu sífellt verið á kafi í aðgerðum gegn brottvísunum og hefur hjálpað flóttafólki hvar sem þú áttir þess kost, frá Íslandi til Grikklands. Bara í fyrra tókst þú þátt í aðstoða við flóttafólk með hústöku í Aþenu. Textar þínir og hugleiðingar sem baráttumanns fyrir heimi án landamæra munu verða okkur hvatning um ókomna tíð.

Hversu dónalegir síðustu endurfundir okkar voru, á Polé Polé hátíðinni í Gent 2016, allir dansandi sveittir og sælir í einni kös.

Ári síðar varstu í Sýrlandi, í miðju stríði. Þú varst fullkomlega meðvitaður um fáránleika þess. Þú gast verið sammála jafnréttis- og vistfræðilegri sýn YPG, en þú áttaðir þig líka á því að stríð gerir það ekki auðvelt að viðhalda slíkri framtíðarsýn til lengdar. Þú hélst stríðið út með því að gera grín að því. Félagar þínir í baráttunni muna þegar þú fórst með ljóð Allen Ginsbergs „Hum Bomb“ þegar þú varst á eftirlitsferð og lékst á harmonikku í rústum Raqqa. Þú varst sjálfum þér líkur, allt fram á síðustu stund.

Eldurinn sem í þér brann var of mikill fyrir Ísland og jafnvel Evrópu. Drifinn áfram af þörf fyrir breytingar og þinni miklu réttlætiskennd, endaðir þú á einhverjum ógnvænlegasta stað jarðar. Og þar slökkti tyrkneski flugherinn eld þinn. En ekki til einskis, því barátta þín blæs lífi í neista okkar. Nú er það okkar að taka við og standa við prinsippin.

Íslenski fáninn sem þú gafst mér árið 2008 er enn í stofunni minni. Hvorki brenndur né rifinn. En ég heiti því að ég mun gera eitthvað við hann. Eitthvað þér til heiðurs.

Þín verður sárt saknað.
Pekrêwan namrin*

*Kúrdískt orðatiltæki: Ódauðlegur er sá hjartahreini.
Ólafur Kr. Ólafsson tók fánamyndina

Share to Facebook