Sæl
Þegar Ottómanaveldið leystist upp voru stofnuð mörg ríki uppúr því. Meðal annars var tekin umdeild ákvörðun um að stofna ríki Gyðinga á litlu svæði þar sem þeir voru ríkjandi, eftir mikinn innflutning þeirra áratugina á undan og þeim tryggt forræði eigin mála, með þeim hætti. Á sama tíma voru Kúrdar með sitt eigið indóevrópska mál, langa sögu á svæðinu, hlutaðir milli fjögurra ríkja þar sem þeir urðu minnihlutahópar og stundum ofsóttir. Einu rökin voru pólitískt makk þar sem litið var á Kúrda sem peð á taflborðinu. Peðum mátti fórna.
Íslendingar hafa áður tekið málstað þjóða sem vilja forræði eigin mála, má þar nefna Eystrasaltsríkin. Meira að segja studdu Íslendingar sjálfstæði Kosovo úr hjarta Serbíu vegna þess að íbúar þar höfðu tungu og menningu sem skar sig frá Serbum og höfðu sætt ofsóknum þeirra.
Kúrdar hafa verið lagðir í einelti svo ekki sé fastar að orði kveðið. Þar eru fremstir í flokki beinir gerendur s.s. Tyrkir núna. Síðan eru þeir sem taka einhvern þátt. Að lokum sá hópur sem fyrst og fremst tryggir viðgang þess, þeir sem þora ekki að blanda sér í málin eða vilja forðast óþægindi. Í þann hóp hefur Ísland skipað sér gagnvart Kúrdum. Með því er Ísland ásamt öðrum mikilvægur aðili til að tryggja áframhaldandi ofsóknir gagnvart þessari þjóð.
Í ár höldum við uppá 100 ára afmæli fullveldis á Íslandi. Gerum það stolt en ekki með óbragð í munninum. Slíkt óbragð fáum við ef við fögnum fullveldi okkar en horfum þegjandi á að Kúrdum er neitað um slíkt. Rjúfum þögn vestrænna þjóða og þorum að tala upphátt það sem við og aðrir hugsa. Það hefur neikvæðar afleiðingar fyrir okkur. Þær eru litlar og hægt að lifa við þær með góðu móti. Þær eru mjög smáar miðað við ávinninginn af því að vestræn NATÓ þjóð stendur upp og segir hingað og ekki lengra. Bara að slíkt sér gert hefur gríðarlegan áhrifamátt, óháð því hversu margir byggja okkar fullvalda ríki.
Bestu kveðjur/Best regards
Einar Gautur Steingrímsson hrl.