Undanfarin vika hefur liðið skringilega. Fyrstu dagarnir eftir að tyrkneskir fjölmiðlar sögðu að Haukur væri dáinn liðu löturhægt, hver dagur var vika. Nú finnst mér einsog þetta sé allt nýskeð. Við höfum skoðað gamlar myndir, lesið ljóð eftir hann og horft á gömul vídjó af honum að syngja þau, sagt endalaust af sögum. Á meðan er einsog sprengjudrunurnar úr umsátrinu um Afrin séu beint fyrir utan gluggann, einsog sýrlenska stríðið sé komið til Reykjavíkur, þar sem við eigum svo margar minningar um hann.

Útaf þessu stríði hefur reynst erfitt að finna upplýsingar um hvað kom fyrir 24. febrúar, þegar Haukur er sagður hafa dáið — uppá hæð nærri Afrin, að verja heimkynni feminískrar andþjóðernissinnaðrar byltingar gegn ásókn Erdóganska hersins. Margir hafa vakið máls á hversu dæmigert það var af Hauki að stæra sig ekki af för sinni suður. Það er líka dæmigert að engin gögn, pappírar eða skriffinnska hafa getað staðfest að hann dó. Einsog Eva, móðir hans, skrifaði í morgun; við höfum ekkert nema sögusagnir og getgátur.

Ég þekki ekki vinnuferla og venjur utanríkisþjónustunnar, en hingað til hefur NATO-þjóðinni Íslandi ekki tekist að fá nein haldbær svör úr bandalagsþjóð sinni Tyrklandi, sem umkringir og drepur þessa dagana íbúa Afrin-borgar. Ekki neina staðfestingu á hvað gerðist 24. febrúar, eða hvernig fjölmiðlar Tyrklands (sem starfa undir ósýnilegri hönd Erdogan) vissu af Hauki. Umræddir fjölmiðlar töluðu einsog úr munni einræðisherrans þegar þeir lýstu baráttu Hauks, og málstaðnum sem hann barðist fyrir, sem „hryðjuverkum“. Ég öfunda ekki íslensku utanríkisþjónustuna að þurfa að díla við þessháttar yfirvöld, og ég vona að þau gefi engan afslátt af vinnu sinni bara útaf því að flokkur utanríkisráðherra er systurflokkur AKP, flokks Erdogans, í íhaldsbandalaginu ACRE.

Það er sárt að hugsa til þess, þegar ég fletti gegnum gömul myndaalbúm, að geta ekki vitað hvort vinur minn sé lifandi eða dáinn. Ég get ekki annað en sökkt mér í minningarnar og sótt hvatningu í þá óstjórnlegu og óstöðvandi orku sem Haukur hafði til að lifa og leika sér, að vera til á sinn eigin hátt og fá aðra til að gera það líka, að ganga til verks þegar hefði verið einfaldara að gera ekkert, hugsa ekkert.

Þessvegna er líka óendanlega frústrerandi að horfa máttlaus uppá óskiljanlegt valdabatterí reyna að finna út hvað kom fyrir Hauk Hilmarsson án þess að vita hvort það sé fært um það, hvort það sé í alvörunni að reyna.

Myndin er af dæmigerðu kvöldi þar sem það gerði heiminn einfaldlega skemmtilegri að þekkja Hauk. Eftir að hafa bruggað tunnu fulla af rauðvíni og klætt okkur í besta púss fórum við á hlaupahjólum niður í bæ að ræða við kakó-kristlingana og ókunnuga ferðamenn á Lækjartorgi, að dansa og að leggjast svo á gólfið heima í vönkuðum vangaveltum um ást og ferðalög og vini.

Share to Facebook